„Við áttum að búa til börnin“ – Tvær konur stíga fram og segja sína sögu

Ásthildur Björt kom fram á dögunum og sagði okkur frá misnotkun sem hún varð fyrir á aldrinum 3-6 ára, hjá dagmömmu sinni í Reykjavík. Sonur dagmömmunnar, þroskaskertur drengur, sem var 7 árum eldri en Ásthildur, fékk óheftan aðgang að stúlkunni og misnotaði hana kynferðislega öll þau ár sem hún var hjá dagmömmunni.

Að þessu sinni ætla tvær aðrar konur að segja okkur frá sinni reynslu. Konurnar eru systur og voru hjá þessari sömu konu. Þær koma ekki fram undir réttu nafni en við munum kalla þær Önnu (33 ára í dag) og Báru (30 ára í dag)  í þessari frásögn. Þær fluttu í næstu blokk við dagmömmuna 1989 eða 1990 og urðu Bára og dóttir dagmömmunnar góðar vinkonur og léku sér oft saman en þær voru jafn gamlar.

 
 

Saga Önnu:

 

„Ég lenti aðeins einu sinni í syni hennar og það var ekki í líkingu við það sem kom fyrir Ásthildi Björt en það sýnir aftur á móti að hún var ekki einstakt tilvik. Maður getur sér þess til að hann hafi stundað þetta að einhverju leiti,“ segir Anna í samtali við Hún.is. „Mamma hans var algjörlega vanhæf og ég fékk nett sjokk þegar ég las greinina að hún væri ennþá starfandi.“

„Mamma hans var

algjörlega vanhæf“

Anna segist muna allt sem gerðist fyrir og eftir atvikið en það versta er í meiri móðu. „Ég man ekki allt sem gerðist en ég man fyrir og eftir en það er eins og hafi verið lokað á aðalatriðið. Systir mín var í vistun hjá dagmömmunni en ég var 7 eða 8 ára. Ég sótti krakka fyrir hana á leikskóla í hádeginu, fór oft með þau á róló og fékk aðeins borgað fyrir það og var svo oft heima hjá henni frekar en að vera ein heima og var þá að hjálpa henni eða leika mér. Ég man eftir syni hennar og að hann var stundum að spjalla við mig.,“ segir Anna og segir okkur frá því að sonurinn hafi boðið henni, ásamt fleirum krökkum niður í sitt herbergi í mömmó. Þegar þangað var komið átti leikurinn að byrja á byrjuninni, þ.e. börnin áttu að fela sig því þau voru ekki orðin til.

Óvenjulegur mömmó

„Við áttum að búa til börnin því við vorum mamman og pabbinn. Ég man að ég var mjög efins en ég lét til leiðast og fór upp í rúm og undir sængina og hann á eftir. Ég veit ekki nákvæmlega hvað gerðist undir sænginni en það var eitthvað mjög rangt. Ég man að ég barðist um á hæl og hnakka og öskraði úr mér lungun, ég man líka að hann hélt mér eða lá ofan á mér og ég var föst, litlu krakkarnir stóðu og horfðu á og ég man eftir skelfingarsvipnum á einum drengnum.“

Við áttum að

búa til börnin“

Stóra systir drengsins heyrði öskrin og lætin og kom inn í herbergið og rak alla út úr herberginu og sagði við Önnu að hún mætti aldrei fara aftur í herbergið hans, mætti aldrei vera ein með honum og ekki segja neinum hvað hefði gerst. „Hann reyndi þetta ekki aftur, kannski af því að systir hans kom að honum útaf öskrunum eða af því að ég hefndi mín þó að ég hafi ekki þorað að segja frá. Ég mætti honum úti stuttu eftir þetta, ég var logandi hrædd en talaði við hann eðlilega en fór svo að hágráta þegar hann var farinn og hljóp heim, ég sagði mömmu að hann hefði slegið mig fast utan undir. Mamma hringdi í dagmömmuna sem refsaði honum fyrir það og ég fór aldrei þarna inn aftur,“ segir Anna.

 
 

Saga Báru:

 

„Ég var mikið inni á heimilinu, bæði þegar að dagmamman var að vinna og líka utan vinnutíma hjá henni,“ segir Bára í samtali við Hún.is. „Ég lenti aldrei í syni hennar, en ég man ekki eftir því að hann hafi verið mikið heima þegar að ég var þarna og orðin nógu gömul til að byrja að muna eftir ýmsu. Eftir að ég las greinina á Hun.is fann ég hann á Facebook og sá að hann er 10 árum eldri en ég.“

Bára segir að þær minningar sem hún eigi séu frá 7-9 ára aldri en þá voru hún og dóttir dagmömmunnar hættar að leika sér saman: „Mér var farið að finnast hún svo rosalega vitlaus, en í dag er ég nokkuð viss um að stúlkan hafi verið misþroska.“

 

„Í dag er ég nokkuð viss um

að stúlkan hafi verið misþroska.“

 

„Vinnubrögðum hennar er nánast hægt að líkja við færibandavinnu. Hún tók á móti börnunum á morgnana, gaf þeim að borða, skipti á þeim þegar að þess þurfti og setti yngstu börnin út í vagn þegar að þau áttu að sofa. Hún hefur aldrei beitt börnin ofbeldi eða verið vond við þau á nokkurn hátt, en hún hefur heldur aldrei sýnt þeim neinn áhuga, leikið við þau, lesið fyrir þau eða virkjað þau á nokkurn hátt,“ segir Bára.

Íbúð dagmömmunnar var á 2 hæðum og hún var með leikherbergi á neðri hæðinni en herbergi sonarins var líka á neðri hæðinni: „Þegar að við vorum í leikherberginu sat hún nánast allan tímann í símanum og blaðraði við einhverja vinkonu sína og prjónaði á meðan. Ég man að ég mér fannst mjög undarlegt að hún gæti talað svona lengi í símann í einu, sérstaklega af því að ég fékk alltaf að vita heima að það væri svo dýrt að tala í símann En ég man ekki eftir því að hafa nokkurn tímann séð hana leika við börnin í leikherberginu. Ef að þau meiddu sig huggaði hún þau, en það voru öll samskiptin, “ segir Bára og segir jafnframt að dagmamman hafi ekki nennt að fara út með börnin. Garðurinn hennar fyrir aftan blokkina var mjög lítill og þar var einn sandkassi og tvær rólur.

Urðu að fara yfir stórt bílastæði og yfir akbrautir

„Ég man bara eftir einu skipti að hún hafi farið með okkur þangað að leika. Annað skipti sem ég man eftir því að hún fór með okkur út, var á mjög sólríkum sumardegi og hún fór með okkur í garðinn hjá annarri dagmömmu sem bjó í götunni fyrir neðan hana. Þá gat hún setið og spjallað við hina dagmömmuna, á meðan krakkarnir gátu leikið sér sjálfir í garðinum. Venjulega sendi hún mig og dóttur sína með börnin fyrir sig á daggæsluróló á vegum borgarinnar. Við vorum látnar rölta einar, 7-8 ára gamlar, með 3-4 börn og skila þeim og síðan ná í þau aftur seinna um daginn. Hún átti tvíburakerru sem hún setti litlu börnin í og stundum voru börn sem röltu með okkur og voru látin halda á kerruna á leiðinni upp á róló. Hún labbaði aldrei með okkur. Leiðin var ekki löng og sem betur fer kom aldrei neitt upp á, en í dag finnst mér ekki í lagi að senda þetta ung börn út með ennþá yngri börn, sérstaklega án vitundar foreldra þeirra,“ segir Bára, en þess má geta að stúlkurnar urðu að fara yfir götur og stórt bílastæði til að komast á róló. 

Í eitt skipti skildi dagmamman Báru og dóttur sína eftir einar heima með öll börnin, þá líka ca. 7-8 ára gamlar, af því að hún þurfti að skreppa eitthvað í um 1 klst. Þeim var bannað að svara í símann og opna hurðina ef einhver hringdi bjöllunni: „Ég man að hún var rosalega stressuð yfir þessu og sagði við okkur að ef að þetta kæmist upp myndi hún missa leyfið og við mættum ekki segja neinum frá þessu.“

„Sagði við okkur að ef að þetta

kæmist upp myndi hún missa leyfið

og við mættum ekki segja neinum frá þessu“

 

Bára er sjálf að verða móðir núna á næstunni og segist ekki geta hugsað sér að setja barnið sitt í pössun til dagmömmu: „Ég veit að það eru til fullt af frábærum dagmömmum, sem vinna vinnuna sína vel og hafa áhuga á börnunum sem þær eru að passa, en ég veit líka að það eru til dagmömmur eins og þessi, sem hafa lítinn áhuga á samskiptum við börnin og sinna bara grunnþörfum þeirra. Ég vil samt segja að dagmamman er ekki einhver Grýla sem lemur börnin, en mér finnst að áhugaleysi hennar á börnunum jaðri við andlega vanrækslu, sérstaklega þar sem að þroski þetta ungra barna byggist mikið á að það sé talað við þau. Hún fylgdist líka bara með þeim með öðru auganu og börnin voru oft bara ein á ráfi í stofunni á meðan að hún var í eldhúsinu eða á baðherberginu. Þó svo að ég og dóttir hennar voru inni í stofu, var það ekki okkar hlutverk að fylgjast með börnunum,“ segir Bára að lokum.

SHARE