„Við erum EKKI að glíma við venjulega flensu“ – Hugleiðingar læknis

Freyr Rúnarsson, læknir, var með áhugaverðan pistil á Facebook síðu sinni í gær. Við fengum góðfúslegt leyfi til þess að birta hann hér á hún.is. Freyr sagði okkur að þetta væru bara hans persónulegu vangaveltur:

Þessa dagana er ekki talað um mikið annað en COVID-19 sem líka er kölluð kórónaveira eða SARS Cov 2 til aðgreiningar frá SARS faraldrinum sem við sáum 2003. Umræðan í samfélaginu er mismunandi, sumir eru lafhræddir og telja heimsendi í nánd, aðrir hafa engar áhyggjur, telja þetta vera eins og hver önnur flensa og húðskamma heilbrigðisyfirvöld fyrir að bregðast of harkalega við og rífast og skammast yfir ráðleggingum um sótthví og ferðatakmarkanir. Maður er meira að segja að heyra af fólki sem er svo forhert að það virðir ekki tilmæli um sótthví heldur er að þvælast meðal almennings eins og ekkert sé, fá sér bjór á barnum eða skreppa í hagkaup eða mæta jafnvel til vinnu þrátt fyrir líkur á smiti. Svo eru það sjálfskipaðir sérfræðingar sem telja sig vita allt og skammast yfir því að ekki sé nógu mikið gert, vilja loka landinu og setja enn meiri boð og bönn. Þetta er fólk úr ýmsum áttum, meira að segja núverandi og fyrrverandi þingmenn! ATH samantekt neðst 😊

Þar sem ég er læknir, og reyndar líka sameindalíffræðingur þá fæ ég mikið af fyrirspurnum frá vinum og vandamönnum, fólk er að velta ýmsu fyrir sér. Ég hef svo sem fylgst vel með gangi mála og lært sitt lítið um veirur og faraldra í gegnum BS námið í sameindalíffræðinni en ég ætla þó ekki að titla mig sérfræðing í þessum efnum. Við erum nefnilega með sérfræðinga í sóttvörnum og smitsjúkdómum sem eru við störf dag og nótt þessa stundina og vinna náið með WHO og öðrum stofnunum sem vita nákvæmlega hvað þær eru að gera. Þess vegna vil ég biðla til fólks að fara að ráðum viðbragðsaðila núna, lesa tilmæli á vef landlæknis og hlusta á blaðamannafundina þar sem við fáum allar nýjustu upplýsingarnar. Þetta fólk er ekki að reyna að plata ykkur eða leyna ykkur einhverju, þetta fólk á líka ættingja og vini á Íslandi, ekki gleyma því.

Þegar ég heyri af fólki sem er hugsanlega smitað en gefur skít í tilmæli um sótthví hvað þá einangrun þá sé ég rautt, þetta fólk er að stofna lýðheilsu þjóðarinnar í hættu og lífi vina minna og ættingja, þetta er persónulegt líka. Ekki vera fíflið sem gengur vísvitandi um með væg COVID einkenni og smitar svo aðra sem ekki hafa heilsu til að ráða að niðurlögum veirunnar, eða smitar okkur heilbrigðisstarfsmenn sem getum þá ekki sinnt veikum.

Hér eru mínar hugleiðingar (eins og þetta kemur mér fyrir sjónir), við erum EKKI að glíma við venjulega flensu, það er erfitt að fá nákvæmar tölur, þetta er meira sett fram hér til viðmiðunar, COVID 19 er hins vegar töluvert hættulegri en árlega influenzan ef við miðum við dánartíðni, við erum að sjá tölur frá 1.5 til 3-4 % í heildina, en mun hærri % þegar við skoðum eldri hópa eða heilsulitla, influenzan liggur einhvers staðar undir 0.1% eða enn lægra. Það er kannski ekki stærsta vandamálið samt. Ef við miðum við fyrri faraldra en sleppum þó spænsku veikinni 1918 sem líklega er ein sú versta sem heimurinn hefur séð þá var SARS og MERS með mun hærri dánartíðni, við erum að tala um í kringum 10 % (SARS) og upp í 35 – 50% (MERS) en þessir faraldrar náðu aldrei þeim fjölda smitaðra sem við erum að sjá nú sem betur fer. SARS smit í heiminum voru rétt yfir 8000 og MERS tölur eru mun lægri. Svínaflensan 2009 var hins vegar mjög alvarlegur faraldur, lagðist helst á yngra fólk og dánartíðni um 0.02% en varð þó hundruðum þúsunda að bana á heimsvísu. 

Við erum núna á skrítnum stað því við erum að horfa á nýja veiru sem mannskepnan hefur ekki smitast af áður og við vitum í raun ekki hvernig hún mun hegða sér. Dánartíðni er á huldu en virðist í kringum 2-3%, er sennilega mun lægri, en eins og dæmin sýna að ofan þá er það í raun ekki það sem skiptir öllu máli. Veiran virðist í sjálfu sér tiltölulega hættulítil miðað við allt en hún smitast mjög auðveldlega og breiðist nú gríðarlega hratt um heimsbyggðina en það er akkúrat þetta sem veldur mér áhyggjum. Það að fá veiruna er ekki dauðadómur það eru afleiðingar útí samfélaginu sem er áhyggjuefni. Við erum nú þegar búin að sjá hvernig fór í Kína, alger sprenging og gjörsamlega yfirbugað heilbrigðiskerfi sem getur engan veginn sinnt sínum veiku fullnægjandi, Ítalir eru líka í miklum vanda núna, gjörgæslur algerlega sprungnar, allir spítalar fullir og heilbrigðisstarfsmenn bugaðir af álagi. Það er akkúrat þetta sem við hér heima þurfum að koma í veg fyrir. 

Það eru allar líkur til þess að COVID-19 fari að dreifa sér úti í samfélaginu (ef það er ekki nú þegar byrjað), það er í raun bara tímaspursmál en með þeim aðgerðum sem við erum nú í erum við að draga úr sprengingunni. Með sóttkví og einangrun og ferðatakmörkunum er vonandi og mögulega hægt að draga úr álaginu sem mun verða á spítölum og heilsugæslum landssins. Við erum nú þegar með spítala sem eru löngu komnir að þolmörkum, undirmönnun og plássleysi er vel þekkt, við erum líka í okkar árlega inflúenzu álagi og því er lítið svigrúm. Við verðum því að taka höndum saman og hlýða, fara eftir ráðleggingum og taka þessu alvarlega því ef öll gjörgæslupláss fyllast, eða deildum verður lokað vegna veikinda starfsfólks þá er ekki hægt að sinna öllu því bráðveika fólki sem við þurfum af geta sinnt öllu jafna í COVID fríum heimi, ég er að tala um hjartastoppin, bílslysin og annað í þeim dúr. Þetta snertir okkur öll, við erum öll með fólk sem við viljum vernda þannig að HLUSTA Á RÁÐLEGGINGAR! 

Sem sagt, mér sýnist þetta ekki versti faraldur sem heimurinn hefur séð, það að fá veiruna er ekki dauðadómur, lang flestir ná sér að fullu. Hins vegar hefur hröð útbreiðsla mikil áhrif og hætt við því að heilbrigðiskerfið okkar gefi sig ef mikið að alvarlega veikum fjölgar hratt. Það er ekki spurning hvort heldur hvenær veiran fer að dreifa sér frítt í samfélaginu en með því að fara að ráðum viðbragðsaðila núna, hlíða sóttkví og einangrun og passa handþvott þá er hægt að draga úr sprengjunni og milda áhrif veirunnar á samfélagið. Úff, lengsta færsla til þessa held ég en þetta er pínu hjartans mál. Ekki hengja ykkur í tölurnar hér, þær eru á reiki og flest allt „estimate“ en meira sett fram hér til viðmiðunar.

https://www.facebook.com/Freyr.Runarsson/posts/10158513942559274
SHARE