„Við hjónin höfum ekki sofið saman í 7 ár“

Við fundum frásögn konu á internetinu sem segir frá því að hún og maðurinn hennar sofi ekki saman í herbergi. Mjög áhugavert svo ekki sé meira sagt:

Ég og maðurinn minn höfum búið saman í 8 ár og í 7 af þeim höfum við sofið í sitthvoru herberginu. Nei, það er ekki vegna þess að við rífumst svo mikið eða vegna barnanna, en við eigum ekki börn, heldur bara vegna þess að okkur líkar þetta mjög vel. Hvort sem það er að sofa ekki saman í herbergi eða fara ekki saman í frí, þá er aðalatriðið að vera hamingjusamur.

Ég ætla að deila því með ykkur hvernig þetta kom til:

Einu sinni vaknaði ég ein í rúminu en ég var alveg viss um að ég hefði farið að sofa með kærastanum mínum. Ég laumaðist fram og fann hann þar, steinsofandi í sófanum. Ég fór aftur upp í rúm og hugsaði með mér að ég skyldi spyrja hann út í þetta á morgun.

Yfir morgunmatnum spurði ég hann: „Þú varst bara horfinn í nótt. Af hverju fórstu fram og svafst þar?“

Hann svaraði: „Ég gat ekki sofnað. Þú varst á sífelldu iði, andaðir svo hátt og ég vaknaði við hverja hreyfingu.“

Ég: „hmm allt í lagi. Ég vissi ekki að ég andaði svona hátt.“

Næstu nótt gerðist það sama. Það sama gerðist næstu nótt. Við sofnuðum saman og vöknuðum hvort í sínu lagi. Það var þá sem ég áttaði mig á því að við yrðum að tala um þetta.

Það var í þessu samtali sem við áttuðum okkur á því hvað það var í raun erfitt fyrir okkur að sofa saman. Hann talaði um öll rifrildin okkar sem höfðu orðið vegna þess að hann hafði ekki sofið nóg. Hann átti það til að hrjóta og þá vakti ég hann og svo gat hann ekki sofnað og svaf ekki nóg og varð pirraður. Stundum var þetta líka á hinn veginn. Oft vaknaði annað okkar vegna þess að það var of heitt eða vegna þess að hinn aðilinn fór að fá sér vatn. Einu sinni dreymdi mig skrýtinn draum og ég endaði með því að pota beint í augað á honum.

Við áttuðum okkur líka á því að við vorum með gjörólíkar svefnvenjur. Á þessum tíma var ég með mjög sveigjanlegan vinnutíma, þannig að ég var oft mjög virk á kvöldin og nóttinni. Ég gat horft á kvikmyndir og lesið bækur til miðnættis og svo vaknað um 9:00 – 10:00. Kærastinn minn átti að vera kominn í vinnuna klukkan 9, svo það var mjög mikilvægt fyrir hann að fá góðan nætursvefn. Hins vegar, vegna vandamálanna sem fylgdu því að sofa saman, gat hvorugt okkar sofið meira en 6-7 tíma. Fyrir vikið urðum við bæði pirraðri, þreyttari og stressuð. Þannig að við komumst að þeirri niðurstöðu að best væri fyrir okkur að sofa í mismunandi svefnherbergjum og sem betur fer höfðum við nóg pláss. Ég skal vera heiðarleg: Í upphafi vorum við kærastinn minn ekki alveg sammála um þetta fyrirkomulag. Það var svolítið skrýtið fyrir mig því að flestir sem ég þekki sofa í sama herbergi. Foreldrar mínir byrjuðu að sofa í sitthvoru herberginu eftir 25 ára brúðkaupsafmæli þeirra. Kærastanum mínum leið frábærlega: hann var fljótari að sofna, átti auðvelt með að vakna, hann útbjó morgunmat fyrir okkur og fór ánægður í vinnuna. Að lokum hættum við nánast alveg að rífast því flestar ástæður okkar fyrir rifrildum hurfu bara og við urðum bæði miklu rólegri almennt.

Ég ákvað að lesa eitthvað vísindalegt um þessa spurningu og fann bók skrifaða af Paul C. Rosenblatt, prófessor í félagsfræði. Bókin heitir Two in a Bed: The Social System of Couple Bed Sharing. Í bókinni skrifar hann að rannsóknir bendi til þess að samsvefn leiði oft til þróunar sálrænna vandamála og geti jafnvel valdið svefnleysi eða einhverjum öðrum kvillum. Rætt var við tugi hjóna og komst að því að svefnherbergið er oft „miðstöð spennunnar í húsinu“. Pör rífast oft um litla hversdagslega hluti, eins og hvort það sé í lagi að hleypa gæludýrum í rúmið eða hvort það sé eðlilegt að borða eða reykja í rúminu. Að auki eru margir árekstrar sem hefjast vegna hrota, sjónvarpsáhorfs, baráttu um sængina eða ljóss af farsíma. Svo er einnig mjög algengt að rífast um hversu heitt/kalt á að vera í herberginu. Prófessorinn heldur því þar af leiðandi fram, að í flestum tilfellum sé auðvelt að leysa vandamálið með því að sofa í sitthvoru lagi, en fólk vill helst ekki gera það því staðalímynd hins hamingjusama pars sefur „auðvitað“ í sama rúmi.

Annar sérfræðingur, Dr. Neil Stanley, flutti ræðu á British Science Festival og sagði meðal annars: „Svefn er sjálfselsk iðja. Ekki deila henni með neinum.“

Sálfræðingar segja líka að það að deila rúmi með einhverjum taki ákveðinn toll af sálarlífi karla. Það er í eðli þeirra passa upp á staðinn fyrir hugsanlegri hættu. Hann sé því alltaf á varðbergi og nái ekki að slaka á í taungakerfinu og fá góða hvíld. Þetta er ekki jafn slæmt fyrir konur. Ég veit ekki hvað er satt og rétt í þessu en þetta átti svo sannarlega við um kærastann minn.

Það er enn mjög algeng skoðun að ef hjón séu í sitthvoru herberginu sé það fyrsta merki um að eitthvað sé að í hjónabandi þeirra. Ég komst að því á spjallborðum á netinu að konur voru meira eða minna sammála um þetta: Að það, að sofa í sitthvoru lagi væri ömurlegt. Rökin voru t.d. Hvað með að stunda kynlíf? Hvað með að kúra?

Ég komst líka að því á þessum spjallborðum að það er mjög mikið af gömlum gildum ríkjandi innra með mörgum. Ömmur okkar trúðu kannski á allskonar merki og hjátrúr varðandi hjónabandið og þetta og hitt geti eyðilagt hjónabandið.

Ég komst líka að því að fullt af fólki í Bandaríkjunum hefur áhuga á að sofa í sitthvoru lagi. Rannsókn sýndi í raun að um 31% aðspurðra, vildu sofa í sér herbergi. Það er í samræmi við niðurstöðu könnunar National Sleep Foundation sem greindi frá því að næstum eitt af hverjum 4 bandarískum pörum sefur í aðskildum svefnherbergjum eða rúmum. Ég komst líka að því að margir frægir vilja helst sofa einir. Til dæmis velja George og Amal Clooney að sofa í sitthvoru lagi. Ástæðan er sú að George hrýtur mjög hátt og Amal sefur mjög laust. Hjónin Catherine Zeta-Jones og Michael Douglas sofa í sitthvoru herberginu. Catherine sagði einu sinni að hún vildi ekki að Michael sæi hana þegar hún væri óaðlaðandi og þess vegna hefðu þau Michael ákveðið að sofa í sitthvoru lagi. Hver veit, kannski er þetta ástæðan fyrir því að þau hafa verið hamingjusamlega gift í 19 ár?

Á þessum 7 árum sem ég og maðurinn minn höfum sofið í sitthvoru herberginu hefur líf okkar bara orðið betra – ég er alveg viss um þetta og samband okkar hefur ekki versnað. Og það sem meira er, þá giftum okkur eftir um 5 ár í sitthvoru herberginu. Það virðist vera að það að sofa í sitthvoru herberginu geri okkur ekki bara kleift að sofa vel, heldur séum við sjálfstæðari manneskjur en allir þurfa að fá sína einveru stundum. Í heiðarleika sagt sé ég ekki fyrir mér að ég geti sofnað á meðan ég held utan um einhvern. Það að ég elski einhvern þýðir ekki endilega að ég vilji sofa í sama rúmi og viðkomandi. Þegar kemur að kynlíf, þá eru kynlíf og svefn tveir aðskildir hlutir. Ég veit alls ekki hvaðan steríótýpan kom, sem stundar kynlíf fyrir svefn. Við eigum það til að koma inn í svefnherbergi hvors annars fyrir svefn og kyssast góða nótt og til að bæta upp fyrir minni líkamlega snertingu, liggjum við oft í rúminu og knúsumst á daginn.

Ef við erum að fara í frí bókum við ekki sitthvort herbergið en ef það er hægt bókum við herbergi með tveimur rúmum. Þar að auki er ekki eins mikilvægt að sofa vel þegar þú ert í fríi, þú getur alltaf fengið þér lúr á ströndinni eða bara tekið seinni parts kríu.

Þegar kemur að vinum okkar þá er hægt að skipta þeim í tvo hópa. Sum þeirra voru frekar „skeptísk“ og sögðu að þeim þætti erfið tilhugsun að fara að sofa án þess að knúsa maka sinn. Hinir sögðu: „Vá, þetta hljómar vel. Því miður búum við í lítilli íbúð, svo við getum ekki prófað þetta.“

Það var aðeins erfiðara að tala um þetta við fjölskylduna okkar. Tengdamamma var mjög döpur og sagði að það væri slæmt að við gætum ekki lengur sofið saman. Mamma mín sagði: „Þið lifið ykkar lífi, en þegar þið komið í heimsókn til okkar, þurfið þið að koma með tvenn rúmföt.“

Það mikilvægasta sem ég hef áttað mig á í þessu öllu er að öll pör eru mismunandi og það er engin ein rétt leið til að byggja upp fjölskyldulíf. Ef þér líður illa og þú veist hvað þarf að gerast til að laga ástandið, skaltu tala við maka þinn. Talaðu meira en minna en haltu ró þinni. Útskýrðu þína afstöðu og ekki tala um þetta í miðju rifrildi því það mun aldrei leiða neitt gott af sér. Þetta kann að hljóma augljóst en það er samt þannig að margir hafa gleymt hvernig á að ræða hlutina sem par. Ef þig langar að prófa að sofa í sitthvoru herberginu þá verður þú að láta maka þinn vita að það er ekkert persónulegt, heldur snúist þetta un þægindi. Ef þið eruð ekki sammála um þessa hugmynd er kannski hægt að komast að málamiðlun og sofa í sitthvoru lagi nokkrum sinnum í viku.


Sjá einnig:

SHARE