Ýsutromp í kókoskarrýsósu – Uppskrift

Þegar ég heyri orðið mánudagsmatur þá dettur mér bara í hug fiskur.
Þegar öll dagsverk eru búin finnst mér gott að koma heim til mín, loka kuldabola úti, kveikja á kertaljósum og elda einhvern góðan fiskrétt. Fiskur er í miklu uppáhaldi hjá mér og skiptir ekki máli hvaða vikudagur er. Það er líka algjör bónus að geta tekið til í grænmetishólfinu í leiðinni. Það var akkúrat það sem ég gerði í gærkvöldi og úr varð þessi fíni réttur. Fékk hann A+ hjá öllum við borðið.

Fiskurinn
400 ml kókosmjólk
1 meðalstór brokkólíhaus
2 stórar gulrætur
1 rauð paprika
2-3 tsk red curry paste (meira ef þið viljið extra spicy)
1 msk fiskisósa
2 tsk hunang
500 g ýsa

Meðlæti
Bankabygg
Laukur
Sveppir

Aðferð
1.    Hellið 3 hlutum af vatni í pott og hitið að suðu. Látið 1 hluta af bankabyggi út í og saltið létt – lækkið hitann aðeins og sjóðið í rúmar 40 mínútur.
2.    Takið fram pönnu og hellið kókosmjólk á hana ásamt brokkolíi, gulrótum og papriku. Sjóðið þetta saman í 8-10 mín.
3.    Bætið curry paste við og látið malla áfram í 5 mínútur.
4.    Bætið fiskisósu og hunangi við. Blandið saman og leyfið þessu að sitja í stutta stund.
5.    Sigtið þá grænmetið upp úr og skiljið eingöngu sósuna eftir á pönnunni. Takið fram eldfast mót og leggið grænmetið í botninn.
6.    Skerið ýsuna í passlega stóra bita og skellið þeim á pönnuna. Fiskurinn er tilbúinn þegar hann fer aðeins að leysast í sundur og hættir að vera glær í miðjunni.
7.    Á annarri pönnu er svo rosa gott að steikja lauk og sveppi saman til að bera fram með ýsunni.
8.    Takið fram fatið með grænmetinu. Leggið fiskinn ofan á og hellið sósunni þar yfir.

Berið fram ásamt bankabygginu, lauk-sveppagumsinu og salati. Ekki að það sé eitthvað heilagt samt! Það er um að gera að nota það grænmeti sem þið eigið til í þennan rétt.  Svo er bara skilyrði að njóta vel.

Höfundur: Birna Varðar.

birna

Birna er tvítug Reykjavíkurmær.  Hún er stúdent frá Verzlunarskóla Íslands og hefur mikinn áhuga á mataræði og heilbrigðum lífsstíl.  Birna stundar Boot Camp, hlaup og lyftingar af kappi.  Hún er dugleg að takast á við krefjandi áskoranir og leika lausum hala utan þægindarammans. Hvort sem það er utanvegahlaup, kraftlyftingar, þrekkeppnir eða annað í þeim dúr.  Birna mun deila uppskriftum úr eigin tilraunaeldhúsi með lesendum hún.is ásamt því að skrifa skemmtilega og upplífgandi pistla er snúa að heilbrigðum lífsstíl og sjálfsrækt.

 

SHARE