8 leiðir til að nota uppþvottavélatöflur

Það er ægilega þægilegt að nota sápu í töfluformi í uppþvottavélina. Það er algengast að nota duft eða töflurnar hér á landi og mér hafa þótt töflurnar virkað betur því það kemur svo góður glans á leirtauið.

En þessar litlu töflur eru til annarra hluta nytsamlegar auk þess að þrífa leirtauið. Við höfum áður sagt ykkur frá því að það er gott að nota þær á glerið í sturtunum en hér eru nokkrar uppástungur í viðbót um notkun á þessum töflum.

1. Þrífðu klósettskálina

Það er örugglega óvinsælasta húsverk heimilisins að þrífa klósettskálina en þú getur gert það mun auðveldara með því að skutla einni töflu í skálina og leyfir henni að leysast upp. Þá tekur þú klósettburstann og skrúbbar klósetti að innan og sturtar niður.

2. Þvoðu þvottavélina

Það eru fá tæki á heimilinu notuð jafn mikið eins og þvottavélin og maður þarf að passa að þrífa hana reglulega því það getur komið mygla í hana og bakteríur eiga það til að safnast upp. Settu 2-4 töflur í vélina tóma og láttu hana þvo á heitu prógrammi og finndu hvað vélin lyktar vel á eftir.

Sjá einnig: Hvernig á að þrífa Airfryer?

3. Hvítt verður hvítara

Ef þér finnst eins og hvítu handklæðin og lökin sé orðin eitthvað hálf „döll“, hætt að vera fallega hvít, þá getur uppþvottavélatafla blásið í þau nýju lífi. Prófaðu að bæta einni töflu í vélina, ásamt venjulegum skammti af þvottaefninu, með hvíta þvottinum og þau munu frískast upp.

4. Fjarlægðu túss eða vaxliti

Það hafa margir foreldrar lent í því að hafa ekki fylgst alveg nógu vel með og barnið hefur náð að krota á vegg, gólf eða á fallega hvíta borðið. Þú getur leyst þetta með því að setja eina töflu í fötu með vatni, leyfir henni að leysast upp og notar svo svamp eða klút til að nudda blettina af yfirborðinu. Vissast er að nota hanska þegar svona sterk efni eru meðhöndluð.

5. Skrúbbaðu ofninn

Þegar maður fær nýjan ofn er hann vanalega með alveg glæru og hreinu gleri en það endist ekki lengi. Það er mjög fljótt að breytast þegar maður fer að baka og elda í ofninum og glerið verður brúnt og dekkist bara með hverju skiptinu. Oft eru þessu óhreinindi líka pikkföst og erfitt að ná þessu hreinu. Það er hinsvegar mjög góð leið að nota uppþvottavélatöflu í að ná glerinu hreinu. Þú ferð bara í hanska og hefur skál með vatni við höndina. Bleyttu töfluna og glerið og byrjaðu að nudda því á glerið og bættu við vatni eftir þörfum. Þú getur þurrkað á milli með bréfþurrku og þegar þú ert sátt/ur við útkomuna skaltu fjarlægja allar restar af efnum með blautri tusku. Þú getur notað þessa sömu aðferð á allt innra byrði ofnsins.

6. Hresstu upp á garðhúsgögnin

Athugið að þetta á bara við um plast- og álhúsgögn í garðinum. Þú getur annað hvort notað blauta töfluna og nuddað á húsgögnin eða leyst hana upp í vatni og notað svamp.

7. Pottar og pönnur

Ef eitthvað brennur við í eldhúsinu getur það reynst mikið erfiði að skrúbba brunarústirnar úr botni potta og panna. Í staðinn getur virkað mjög vel að setja vatn í pottinn/pönnuna og setja eina töflu í hana og setja á hellu. Nærð upp suðu og leyfir þessu að bulla í rólegheitum í um það bil 10 mínútur og þú ættir að geta þurrkað óhreinindin í burtu.

8. Olíu- og bensínblettir

Það eru margir sem eru með fallega innkeyrslu og vilja halda því þannig. Ef það kemur upp að olía eða bensín hellist niður, kemur oft erfiður blettur sem getur farið í taugarnar á húsráðendum. Þetta á einnig við um bílskúrsgólf sem ekki hafa verið lökkuð. Lausnin á þessu er að bleyta upp uppþvottavélatöflu og þegar hún er orðin mjúk, berðu hana á blettinn og leyfðu því að vera á í nokkra daga og skolaðu svo.

Heimildir: Howstuffworks.com

SHARE