“Að verða leikskólakennari er versta fjárhagslega ákvörðun sem ég hef tekið!”

Stefanía Harðardóttir er 25 ára og vinnur sem leiðbeinandi á leikskóla í Hafnarfirði. Í dag skrifaði hún grein á facebooksíðu sinni þar sem að hún segir frá hvað varð þess valdandi að hún byrjaði að vinna á leikskóla og í kjölfarið fór í háskólanám til að verða leikskólakennari. Í greininni vekur hún athygli á lélegum launum leikskólakennara og segir að sú ákvörðun að læra að verða leikskólakennari sé versta fjárhagslega ákvörðun sem hún hefur tekið. Þrátt fyrir það komi hún brosandi heim eftir hvern vinnudag.

Hér á eftir er grein Stefaníu í heild sinni:

Hæ, Ég heiti Stefanía Harðardóttir og ég er leikskólakennaranemi og leiðbeinandi á leikskóla í Hafnarfirði. Ég hélt í nokkurn tíma að það að fara í leikskólakennaranámið hafi verið besta ákvörðun sem ég hef tekið. Ég er farin að sjá það að ég hafði rangt fyrir mér. Ég er farin að sjá það núna að ákvörðun mín að eyða fimm árum í háskóla til þess að verða leikskólakennari var líklega sú versta sem ég hef tekið. Á síðustu önn var okkur í skólanum falið það verkefni að skrifa formlegan texta um efni að eigin vali sem hluti af verkefni í ritun. Ég skrifaði um ákvörðun mína að verða leikskólakennari þrátt fyrir að vita það að ég fengi ömurleg laun að námi loknu. Ég skrifaði að ég hefði lært það á mínum tuttugu og fimm árum að hamingja væri mikilvægari en peningar og að ég vildi frekar starfa við það sem færði mér hamingju og vera fátæk en að vera rík og óhamingjusöm í starfi. Ég tek það til baka. Sá sem sagði að peningar gætu ekki keypt hamingju lifði í sjálfsblekkingu og um tíma gerði ég það líka. Ég elska að vinna á leikskóla. Ég fer brosandi í vinnuna og lang oftast kem ég brosandi heim. Uppgefin, en brosandi. Ég var tvítug þegar ég byrjaði að vinna á leikskóla. Ég hafði verið að læra stjórnmálafræði í háskólanum og ákvað að taka mér frí frá skóla og fara að vinna. Eina vinnan sem var í boði á þeim tíma var á leikskóla. Ég hafði aldrei verið barnagæla eða haft mikinn áhuga á því að vinna með börnum. Það kom fjölskyldu minni og vinum því mikið á óvart að ég skyldi fara að vinna á leikskóla. Það sem kom þeim enn meira á óvart, og mér sjálfri reyndar líka, var það hvað mér fannst gaman að vinna þar og hvað það færði mér mikla hamingju. Eftir nokkra mánuði í starfi benti leikskólastjórinn mér á að ég ætti vel heima í þessu starfi og stakk upp á því að ég færi í leikskólakennaranám. Það sama gerðu foreldrar mínir. Mín viðbrögð voru: “eruð þið geðveik?! vitið þið hvað leikskólakennarar fá borgað? Eftir að hafa gefið annars konar vinnum tækifæri, eftir að hafa eytt ári í að “finna sjálfa mig” í Kaliforníu og eftir eina önn í íslenskum fræðum í Háskóla Íslands lá leið mín aftur í leikskólann. Það þurfti ekki langan tíma til þess að sannfæra mig í þetta skiptið. Jú þetta var það sem mér var ætlað að gera. Þetta var það eina sem ég vildi gera. Ég lagði íslenskubækurnar á hilluna og skipti yfir í leikskólakennarafræði. Vegna þess að ég hafði verið á vinnumarkaðinum svo lengi vildi Lín ekki lána mér fyrir framfærslu (ég held að tekjumörkin séu 750.000kr yfir árið, takk Lín!) var ég í fullri vinnu á leikskóla á meðan ég var í fullu háskólanámi í fjarnámi við Háskólann á Akureyri. Ég ætla ekki að ljúga, það var erfitt og það komu oft tímar sem mig langaði að hætta. En ég fékk mikla hvatningu frá fjölskyldunni minni, vinum og vinnufélögum og það hélt mér gangandi í langan tíma. Svo ekki sé minnst á litlu snillingana mína í leikskólanum, þau gerðu þetta allt þess virði. Ef þetta var allt svona frábært af hverju er ég þá svona neikvæð? Ég var nítján ára þegar ég flutti að heiman og hef verið á leigumarkaðinum meira og minna síðan þá. Nú standa málin svo að ég er að missa aðra íbúðina á síðustu tólf mánuðum og ég sé ekki fram á að finna leiguíbúð á verði sem hentar leikskólaleiðbeinendum á næstunni. Næstu mánuði mun ég því deila bleiku herbergi með prinsessugardínum með næstum því þriggja ára frænku minni heima hjá foreldrum mínum. Hversu frábært er það? Ég hefði getað tekið betri fjárhagslegar ákvarðanir. Ég hefði getað keypt mér minna af fötum, farið sjaldnar í bíó og farið í færri útlandaferðir. Ég gæti tekið strætó í stað þess að reka bíl og ég gæti sleppt því að láta lita á mér hárið eða plokka á mér augabrúnirnar. Það breytir því samt ekki að ég fæ ömurleg laun sem mér finnst ekki samræmast þeirri vinnu sem ég legg í starf mitt. Ég er með stúdentspróf og er föst í launaflokknum 119. Mér skilst að ég eigi ekki möguleika á hækkun fyrr en ég klára B.ed gráðuna mína eftir tvö ár. Þá munu launin mín hækka um 49.139kr* samkvæmt núgildandi kjarasamningum. Ef ég klára svo mastersgráðu sem nú er skilyrði fyrir leyfisbréfi kennara munu launin mín hækka aftur og í þetta skipti um 7.163kr, samkvæmt núgildandi kjarasamningum, og ná þá launin samt ekki 300.000kr á mánuði. Eru það sanngjörn laun fyrir manneskju með mastersgráðu? Foreldrar mínir eru hvorugir með háskólapróf en þau eru bæði með þónokkuð hærri laun en útskrifaður leikskólakennari með mastersgráðu. Er það sanngjarnt? Ég er kannski full dramatísk þegar ég segi að ákvörðun mín um að fara í leikskólakennaranám sé sú versta sem ég hef tekið. En stend við það að hún er versta fjárhagslega ákvörðun sem ég hef tekið. Meira segja verri en sú ákvörðun að kaupa 20.000kr pels sem ég hef aldrei farið í. Ég tek það fram að ég var ekki að vinna á leikskóla þegar ég keypti pelsinn 😉

Ég trúi því að ég geti haft áhrif á líf barnanna sem ég vinn með. Ég trúi því að ég geti leiðbeint þeim til þess að verða góðir, samviskusamir, hugrakkir og sjálfsöruggir einstaklingar. Og ég mun halda áfram að vinna með þeim og knúsa þau, hugga þau, hlæja með þeim og leika við þau. Og ég mun áfram vera reið út í hvern þann sem ákveður hvaða laun ég á skilið að fá fyrir þessa vinnu. Þangað til þau verða leiðrétt. Ég vona að það gerist fyrir árið 2018.

Verið góð við fólkið sem hugsar um börnin ykkar….þau eiga það skilið og svo miklu, miklu meira!

Stefanía Harðardóttir

*Upphaflega stóð þarna 25.249kr en það var rangur útreikningu, ég biðst afsökunar á því.

Grein Stefaníu birtist meðal annars á síðu Félags leikskólakennara á facebook og þar birtist eftirfarandi leiðrétting á kjörum leikskólakennara:
Það er verkefni samfélagsins að leiðrétta laun leikskólakennara til samræmis við aðra sérfræðinga.
Það virðist vera sterk undiralda í samfélaginu sem tekur undir þær kröfur kennara.
Þeir sem hafa vald til að taka slíkar ákvarðanir þurfa að stíga upp og framkvæma.
Mikilvægt er samt upp á trúverðuleikann að vitna í réttar tölur. 
Byrjunarlaun leikskólakennara með masterspróf 333.362 kr og byrjunarlaun deildarstjóra með meistarapróf 362.282 kr.

 

SHARE