Af hverju að missa af lífinu?

Af hverju erum við alltaf að flýta okkur? Ég hef svo oft síðastliðin ár hugsað til baka til þess tíma sem ég var með lítil börn, fyrirtæki, áhyggjur, auka vinnu til þess að ná endum saman, því fyrirtækjareksturinn var flókinn og gaf lítið þrátt fyrir endalausa vinnu. Fyrirtæki keypt rétt fyrir hrun gaf ekki…það tók… og ég ætlaði ekki að tapa. En svona dæmi gerast ekki bara í kringum hrun heldur gæti þetta allt eins gerst í dag, á morgun eða seinna í framtíðinni.

Það eru allsstaðar konur og menn sem eru að keyra sig út fyrir allt annað en það sem skiptir mestu máli. Mér leið illa, var enganveginn að sinna sjálfri mér, vaknaði þreytt og sofnaði þreytt. Ég var ófær um að sjá hvernig ég gæti undið ofan af þessu, var hrikalega aðhaldssöm í fjármálum og passaði mig sérstaklega að gera ekkert fyrir sjálfa mig sem væri ekki nauðsynlegt. En það sem mér leið verst með var stöðuga samviskubitið yfir börnunum mínum. Það var ekki eins og ég væri að njóta nokkurs, það er allt bara í móðu þetta tímabil í lífinu. Mér þótti fátt skemmtilegt, hvað þá gefandi…

Svo það sé sagt þá liðu börnin mín engan skort, ég sá til þess að þau fengju það sem þau þurftu, voru vel til fara, vel nærð og fengu alla þá umhyggju sem þau áttu og eiga skilið. En þau fóru hinsvegar á mis við mig sem manneskjuna sem ég er, og ég var sannarlega ekki sú mamma sem ég hafði séð fyrir mér að ég yrði (og var innst inni) glöð, full af hugmyndum og uppátektarsemi. Ég var bara skugginn af sjálfri mér, og ástæðan fyrir því var einföld. Ég var meira að sanna mig fyrir lífinu en sjálfri mér!!! Ég var meira að sýna að þetta gæti ég.

Ég hef alla tíð verið kappsöm eða dugleg eins og það kallast á vinsælli íslensku og okkur er kennt að vera dugleg allt frá því að við náum einhverjum áföngum sem ungabörn. Og sannarlega var ég það og þið eruð það líka, en eruð þið að næra ykkur? Næra ykkur andlega, líkamlega og lifa? Þá meina ég í þeim skilningi að vera til og vera með í lífinu? Eða eruð þið á þessum stöðugu hlaupum og alltaf fyrir utan allt og á hliðarlínunni þess á milli? Og fyrir hvað og hvern eru þessi hlaup? Munu þessi hlaup skipta máli eftir 5 ár, nú eða 15, 16 ár eins og í mínu tilfelli? Dagurinn í dag er dagurinn.

SHARE