Aftur á spítalann í aðra aðgerð

Ég sagði ykkur frá því í pistli mínum í febrúar að ég fékk heilablæðingu í janúar. Þetta var erfið reynsla og þegar maður kemur heim eftir legu á spítala er voðalega fátt sem grípur mann eftir veikindi sem þessi. Ég er því nánast búin að vera launalaus síðan í janúar og hef unnið í því að koma mér aftur á fætur. Þegar heilablæðingin átti sér stað var komið blóð í mænuvökvann og í kringum heilann og það tekur mjög langan tíma fyrir líkamann að „laga sig“ eftir slíkt. Heilinn er allan sólarhringinn í vinnu við þetta og eftir einhverja mánuði ætti mænuvökvinn að vera orðinn tær aftur. Það er ein ástæða þess að þreytan er að gera útaf við mann á þessum tíma. Það, og að líkaminn verður fyrir áfalli, maður fer í aðgerð og liggur, eins og í mínu tilfelli, í 6 daga í rúmi.

Ég hef semsagt verið að berjast við mikla þreytu. Bæði á líkama og svo þreyta „í heilanum“. Ég er ljósfælnari en ég var, þoli engan hávaða og síendurtekin hljóð eins og hamarshögg, skella á mér eins og löðrungur stundum. Með þessu hef ég líka verið að reyna að fá einhverja fjárhagslega aðstoð. Ég hef verið sjúkdómatryggð síðan rétt eftir tvítugt og hef verið í samskiptum við tryggingafélagið og einnig verið að reyna að fá sjúkradagpeninga en á ekki rétt á neinu því ég var sjálfstætt starfandi og hafði ekki verið með mikla innkomu fyrir veikindin. Andlega hliðin var ekki upp á sitt besta eftir að ég kom heim. Ég fékk kvíðakast fyrsta kvöldið því ég var að fara að sofa í rúminu sem ég hafði næstum því dáið í. Þarna var enginn að passa upp á mig eins og á spítalanum. Ég setti mig sjálf í samband við unga konu sem á svipaða reynslu og ég og hún reyndist mér stoð og stytta.

Ég fór svo í myndatöku í maí, til að sjá hvernig aðgerðin hefði farið og hvort allt væri ekki eins og það ætti að vera. Ég átti ekki von á neinu í þetta skipti en nokkrum dögum eftir fékk ég símtal frá lækninum mínum. Hann hringdi til að segja mér að þeir væru ekki ánægðir með myndirnar og ég, í smá stund, hélt að ég hefði hreyft mig í segulómuninni, en áttaði mig svo á því að hann var að segja að ég var ekki „komin í lag“. Ég þurfti að fara aftur í aðgerð og hún yrði framkvæmd 5 dögum seinna. Ég var á fullu að pakka niður fyrir vinkonuferð um Hvítasunnuna og tók þá ákvörðun að hætta ekki við hana. Maðurinn minn var að vinna úti á landi og ég hugsaði að þetta væri bara kjörið, að fara útúr borginni yfir helgina. Hausinn á mér var samt á fullu og ég tók nokkur grátköst þessa helgi. Mig langaði engan veginn að fara aftur inn á spítala eða láta krukka aftur í hausnum á mér. Ég átti samt bara að vera eina nótt á spítalanum sem var bót í máli. Ég var hrædd, leið og kvíðin.

Dagarnir liðu og ég undirbjó mig fyrir að mæta aftur á spítalann. Mætti daginn áður í blóðprufu og hafði mestar áhyggjur af því að það liði yfir mig því ég hafði verið lystarlaus af kvíða fyrir þetta. Ég mæti svo á spítalann á fimmtudegi, fastandi og tilbúin að klára þetta. Þetta varð hinsvegar ekki alveg svona einfalt.

Ég vaknaði eftir svæfinguna og sá það á manninum mínum, sem getur ekki falið neitt fyrir mér, að það var eitthvað ekki í lagi. Læknirinn minn kom og sagði mér að þeir hefðu ekki getað lagað æðina með þessari aðferð sem hafði verið beitt áður. Þræðing frá nára og upp. Hann yrði að fara í gegnum höfuðkúpuna á mér og sú aðgerð færi fram á laugardeginum kl 9 um morguninn. Almáttugur minn. Mig langaði ALLS ekki að láta opna á mér hausinn. Ég sá fyrir mér allskonar viðbjóð og átti mjög erfitt með að einbeita mér að nokkru öðru. Ég var á spítalanum fram að aðgerð og daginn fyrir aðgerðina fór ég í sótthreinsandi sturtu og sett var hreint á rúmið og morguninn eftir vaknaði ég hálfsjö til að fara aftur í sótthreinsandi sturtu.

Biðin eftir aðgerðinni leið svo eins og margar vikur. Tíminn silaðist áfram. Svo kom að þessu. Það „góða“ við að vera sjúklingur er að maður er svæfður og svo vaknar maður. Maður þarf ekki að bíða neitt. Þetta gerist bara. Ég hugsaði auðvitað oft að ég myndi kannski ekki vakna og var búin að sjá fyrir mér allskonar hörmungar og hvernig Magnúsi, yrði sagt frá andláti mínu og hvernig allt yrði eftir það. Ég veit þetta hljómar klikkað en svona virkar hausinn á mér þegar eitthvað er að.

Ég vaknaði á lífi! VÚHÚ! Með risa umbúðir á höfðinu.

Ég fann ekki mikið til enda á sterkum verkjalyfjum. Ég var svo glöð að vera lifandi og það hafði verið framar mínum björtustu vonum. Það sást ekki mikið á andlitinu á mér en umbúðirnar voru teknar af daginn eftir og þá fékk ég smá sjokk.

Ég hafði ímyndað mér að skurðurinn yrði minni og ekki jafnmikið hár rakað í burtu. Jesús minn! Ég var eins og Frankenstein. Ég hugsaði með mér að ég myndi bara lifa með þessu, ég væri allavega á lífi, það var aðalmálið.

Þegar umbúðirnar voru teknar af byrjaði bólgan að ferðast niður andlitið á mér.

Ef mér fannst ég vera eins og Frankenstein í byrjun þá var það bara byrjunin. Úff.

Ofsalega fersk á 3. degi

Á þriðja degi vaknaði ég og sá ekki með auganu hægra megin. Þegar ég sá mig í spegli sá ég augað á mér eins og auga á hval. Ég gat alveg hlegið aðeins að þessu og var með kalda bakstra á þessu eins og ég gat.

Það sem hafði átt að vera ein nótt á spítalanum og örlítið inngrip, varð að 9 dögum á spítala. Starfsfólkið var yndislegt að vanda, einstakt fólk, sem sýndi einstaka góðvild og stuðning. Núna eru rúmar tvær vikur frá aðgerðinni og þetta grær bara nokkuð vel. Aðgerðin gekk eins og í sögu og nú á ég bara að vera laus við þennan æðagúl. Ég er þakklát fyrir lífið og þá frábæru lækna sem við eigum hér á landi.

SHARE