Vöðvabólgan var heilablæðing

Oft dettur mér í hug, þegar ég er í góðra vina hópi eða með fjölskyldunni, hvað við erum heppin. Heppin að vera hraust og vera við nokkuð góða heilsu. Það er ómetanlegt! Algjörlega ómetanlegt og ætti ekki að vera tekið sem gefnu, að vakna á morgnana og geta sinnt vinnu, áhugamálum og sínum nánustu.

Þann, 26. janúar, kom ég heim eftir að hafa legið inni á spítala í 11 daga. 2 vikum áður var ég hraust, 39 ára ung kona, jógakennari, með mann, börn og hund. Lífið ljúft og allir að gera sitt.

Þann 12. janúar síðastliðinn var ég, eins og gengur og gerist, að skila og skipta jólagjöfum með dóttur minni. Allt eins og það átti að vera. Ég ákvað að skjótast inn í Costco og kaupa fína klósettpappírinn sem svo margir kannast við.

Stjörf af skelfingu

Þegar við komum út var allt eins og venjulega, við djókuðum eitthvað um hvor okkar mæðgnanna yrði fyrri til að finna bílinn og komum okkur af stað. Við höfðum varla yfirgefið bílaplanið þegar ég fékk yfirþyrmandi verk í höfuðið. Þetta var eins og nístandi straumur frá hálsi hægra meginn og fram í augu. Ég hélt í nokkrar sekúndur að ég þyrfti að finna leið til að keyra út í kant og hringja í sjúkrabíl. Þetta „kast“ rjátlaðist af mér en eftir sat nístandi höfuðverkur. Ég var eiginlega alveg stjörf af skelfingu. Dóttir mín tók auðvitað eftir að eitthvað var í gangi og ég man ekki alveg hvað við töluðum um en ég var alveg út úr kortinu.

Þegar ég kem heim segi ég við Magnús minn að það hafi eitthvað rosalegt verið að gerast í hausnum á mér. Hann róar mig niður og við borðum kvöldmat öll saman og ég er alltaf með þennan nístandi hausverk. Ég hugsaði með mér að þetta væri eitthvað svona „bráða-mígreni“ en ég á það til að fá mígreni annað slagið. Þá nægir mér að taka eina mígrenistöflu og á eftir 30-40 mínútur er það versta liðið hjá. Ég tók töflu og fór í bað en það sló ekkert á. Ég ætlaði að hitta vinkonur mínar og varð að hætta við það og fór þess í stað upp í rúm. Þetta var versti höfuðverkur sem ég hafði fengið.

Engin lyf slógu á verkinn

Daginn eftir var ég ekkert betri. Ég svaf illa um nóttina en ég hafði tekið Íbúfen og Paratabs um kvöldið en það hafði heldur ekkert að segja. Verkurinn var frá öxlum og fram í augu. Eiginlega sárastur í kringum og bakvið augun. Ég fann til ef ég hreyfði augun. Ég átti erfitt með birtu og var lystarlaus og hálfbumbult. Ég hringdi á heilsugæsluna mína og bað um að fá samtal við hjúkrunarfræðing. Hún hringdi í mig og eftir að hafa sagt henni aðeins frá þessu sagði hún mér að koma á heilsugæsluna.

Ég fór og hitti lækni sem í stuttu máli greindi mig með slæma vöðvabólgu. Ég vinn við tölvu og hef ekki náð að æfa reglulega í Covid, svo ég trúði því alveg. Ég sagði henni að engin verkjalyf virkuðu og ég væri sárkvalin. Hún skrifaði út Parkódín og annað lyf sem heitir Diclomax og ég átti að taka þau þrisvar á dag. Mælti með að ég færi í nudd en fannst einhverra hluta vegna ekki tímabært að ég fengi tilvísun til sjúkraþjálfara.

Dagurinn leið áfram og ég fann engan mun á mér. Sárþjáð, ljósfælin, máttlaus og lystarlítil. Ég kom varla út úr herberginu. Ég reyndi að sofa og notaði kalda og heita bakstra og ekkert gerðist.

Fór í harkalegt nudd

Daginn eftir, fimmtudaginn 14. janúar, vaknaði ég eftir svefnlitla nótt og var enn eins. Höfuðverkurinn hafði bara versnað ef eitthvað var. Magnús minn hringdi og pantaði fyrir mig nudd og ég heyrði aftur í hjúkrunarfræðingi á heilsugæslunni sem sagði mér að mæta endilega í nuddið og sjá svo til. Ég hélt að nuddið yrði mitt síðasta og svitnaði af sársauka í höndum nuddarans, sem hélt hann væri að eiga við venjulegt vöðvabólgutilfelli. Ég kom út úr herberginu og gat varla talað. Ég svitnaði köldum svita og maðurinn var að reyna að tala við mig og ég gat varla talað. Magnús minn var með í för, en ég hefði aldrei getað keyrt í þessu ástandi.

Við förum heim eftir nuddið og ég hugsaði með mér að þetta hlyti að vera skref í rétta átt. Líðanin fór samt bara versnandi og ég endaði á læknavaktinni á heilsugæslunni um 17. Þar hitti ég annan lækni, sem tók undir orð kollega síns frá því daginn áður og sagði að ég væri með vöðvabólgu. Hún bætti aðeins í lyfin og lét mig hafa Parkódín Forte. Með það fór ég heim og hélt kannski að nú færi sársaukinn kannski að dvína. Það gerðist þó ekki.

Búinn á því á sál og líkama

Á föstudeginum vaknaði ég enn og aftur á sama hátt og seinustu tvo morgna. Kvalin, máttfarin og búinn á sál og líkama. Ég bað Magnús að koma með mér á Bráðamóttökuna sem hann auðvitað gerði. Hann mátti ekki bíða með mér svo ég varð bara að bíða ein og var auðvitað ekki í forgangi með „höfuðverkinn“ minn. Mörg mál sem voru meira aðkallandi. Að lokum komst ég inn og fékk að tala við lækni. Hún var ekki á því að neitt væri hægt að gera og ég brotnaði niður. Sagði henni að ég gæti ekki verið svona og mér liði svo skelfilega. Á endanum fékk hún lærlinginn sinn til að sprauta einhverju vöðvaslakandi í öxlina á mér og ég var send heim.

Þegar þarna var komið sögu var ég orðin nokkuð viss um að ég væri bara með svona lágan sársaukaþröskuld. Vöðvabólgan hlyti að líða hjá. Ég lá heima hjá mér þetta föstudagskvöld og líðanin lagaðist ekki neitt. Það kom þarna einhver smástund þar sem ég hélt að ég væri að lagast en svo versnaði þetta aftur. Við hjónin horfðum á mynd um kvöldið og vöktum frekar lengi og ég man eftir að hafa tekið seinustu Diclomax töfluna þann daginn um 3 um nóttina. Svo fór ég að sofa.

Allt í blóði

Næsta sem ég man er að ég vakna á gólfinu fyrir neðan stigann heima hjá mér. Sársaukinn í höfðinu var óbærilegur. Ég staulast einhvernveginn á fætur og nudda á mér andlitið. Hendurnar á mér urðu blautar og einhvern veginn klístraðar og þegar ég lít á hendurnar eru þær allar í blóði. Gólfið þar sem ég lá líka. Ég er gjörsamlega máttvana og staulast inn á bað og næ mér í handklæði sem ég set á höfuðið á mér. Ég man eftir að sjá mig hálfafskræmda í framan af blóði og bólgu á enninu. Ég finn að ég get ekki lengur staðið svo ég fer inn í næsta herbergi við baðið og leggst þar og sofna. Ekki mjög gáfulegar gjörðir, ég veit það, en ég var bara alls ekki í lagi þessa nótt. Ég vakna aftur og hef einhvern veginn komist upp í herbergi þar sem Magnús svaf. Ég vakti hann og stend öll í blóði yfir honum. Honum bregður skiljanlega mikið og spyr mig hvað hafi gerst og ég man lítið eftir því sem eftir kom. Hann segir að ég hafi verið alveg rugluð og ekki getað mikið tjáð mig eða sagt hvað hefði gerst. Ég man það ekki ennþá.

Aftur förum við niður á spítala enda var ég með gat á höfðinu og þurfti að fá sauma. Ég man lítið eftir þessu öllu. Ég man ekkert eftir akstrinum niður á spítala, man ekkert eftir að skrá mig inn eða neitt. Þetta gerðist um 6 um morguninn laugardaginn 16. janúar. Magnús minn mátti ekki vera hjá mér út af Covid og ég átti erfitt með að skilja og gera mig almennilega skiljanlega. Ég fékk fljótlega að komast að en þurfti að bíða frekar lengi eftir að fá saumana. Það voru svo tekin 3 spor í ennið á mér og ákveðið að taka sneiðmynd af höfðinu á mér, þar sem ég hafði misst meðvitund og fengið höfuðhögg. Ég man að ég var spurð hvort ég hefði verið að drekka áfengi og hvort þetta hefði verið slys og mér gefið færi á að segja frá heimilisofbeldi ef það hefði átt sér stað.

Slæmt varð verra

Maðurinn sem skoðaði sneiðmyndirnar sá að eitthvað var óeðlilegt á myndunum og bað um að teknar yrðu aðrar myndir með svokölluðu skuggaefni. Þær myndir sýndu, svo ekki var um að villast að ég var með sprunginn æðagúl í höfðinu. Það var blæðing í höfðinu á mér. Ég fékk fréttirnar frá lækni og var auðvitað mjög brugðið við tíðindin. Maggi var ekki hjá mér og ég held ég hafi fengið svolítið kvíðakast þegar þarna var komið sögu. Ég átti helst ekki að standa upp og liggja fyrir, en það eina sem mig langaði að gera vara að slíta af mér leiðslurnar og snúrurnar og hlaupa út. Mér fannst ég vera að kafna, bókstaflega. Hvað gerist svo? Er ég að fara að deyja?

Það átti að framkvæma aðgerð á mér þennan sama dag. Eftir 5 klukkustundir. Við tóku lengstu klukkutímar lífs míns. Ég þurfti að bíða, liggjandi út af, tengd við allskonar leiðslur og drasl, fékk þennan fína þvaglegg og góndi út í loftið. Ennþá með dúndrandi höfuðverk, verri en nokkru sinni, eftir höfuðhöggið. Ég, sem svolítill kvíðabolti, notaði alla leiðir í heimi til að róa sjálfa mig. Ég fór með möntrur, horfði á klukkuna tikka, hlustaði á Tvíhöfða, svo á Storytel. Ég hafði ekki einbeitingu í neitt og ég sver að tíminn leið hægar þarna en nokkru sinni. Ég var lítið búin að sofa og fannst ég dotta stundum en þegar ég leit á klukkuna aftur voru bara 5 mínútur liðnar síðan ég leit á klukkuna. Hrædd og ein, en umkringd fólki með grímur, glorhungruð, því ég var að fasta fyrir aðgerð. Ég bað meira að segja til guðs. Guðsins sem ég trúi að sé sá sem framkvæmir kraftaverkin í þessum heimi, sá sem ég á í mjög ósanngjörnu sambandi við því ég leita oft til hans þegar það hentar mér.

Mikið af biðinni er í móðu en ég fékk að lokum hljóðeinangrandi heyrnartól sem gerðu mér lífið mun bærilegra í asanum sem var þarna á spítalanum.

Ljótar hugsanir

Maggi fékk að hitta mig örstutt einhverntímann en annars var ég bara frekar ringluð og skrýtin. Ég vissi að það var eitthvað mjög hættulegt í gangi og ég hugsaði til barnanna minn, foreldra, systkina, vina og fleiri sem ég hafði ekki kvatt almennilega. „Nei ekki hugsa svona!“ hugsaði ég líka, þetta verður allt í lagi. Svo komu hugsanirnar um allt sem ég ætlaði að gera í framtíðinni, það var svo margt eftir. Aftur, þarna, stoppaði ég mig af. Ég gat ekki sætt mig við að kannski myndi ég ekki vakna eftir aðgerðina. Það var jú verið að krukka í heilanum á mér sem var blæðandi og það „er alltaf áhætta að fara í svæfingu og aðgerðir“.

LOKSINS var að koma að þessu. Þetta voru blendndar tilfinningar. Ég vildi ekki bíða í kvíðakasti lengur, ég vildi alveg sofna til að losna við höfuðverkin en ég var að fara yfir um úr ótta. Ég man mjög vel eftir því að hitta svæfingarlækninn og hann var mjög fínn. Ég man eftir að hafa verið keyrt inn á skurðstofuna og mér var sagt að ég væri að fá kæruleysislyf og svo að ég væri að fara að svæfinguna.

BÚMM

„Kristjana. Kristjana. Kristjana vaknaðu,“ heyri ég í gegnum svefnmókið eins og liðið hafi ein sekúnda frá því ég sofnaði. Aron læknirinn minn situr við rúmið mitt með hönd á rúminu, og það sem ég meðtók var að hann sagði að aðgerðin væri búin og hefði gengið svakalega vel. Ég man bara eftir að augun fylltust af tárum og eina sem ég gat gert var að leggja snúrum tengda hönd mína á hans og segja „takk“. Ég var ennþá á lífi! Það var það eina sem skipti máli á þessum tíma. Það var hinsvegar heilmikið eftir á þessum tímapunkti.

Það var ekki hátt á mér risið á spítalanum

Gjörgæslan

Ég var í 5 daga á gjörgæslu eftir aðgerðina. Ég var tengd í svona um það bil 10 snúrur, með þvaglegginn góða og þrjá æðaleggi. Ég var í móki fyrstu tvo dagana, rúmföst og lítil í mér. Svaf meira og minna en Magnús minn var eins mikið og hann mátti hjá mér og það róaði mig alltaf að sjá hann sitja við rúmið mitt eftir stuttan blund. Ef hann var ekki hjá mér, taldi ég niður klukkutímana þangað til hann kom til mín. Hvað varð um mitt venjulega líf? Mér fannst ég vera að lifa lífi einhvers annars. Þetta var alls ekki planið. Ég var upptekin kona.

Fólkið sem starfar á gjörgæslunni er einstakt fólk. Hver einasta manneskja sem ég var í samskiptum við var nærgætin, uppörvandi, huggandi og skilningsrík. Það var það eina sem mig vantaði í þessari stöðu. Það var erfitt fyrir mig að vera föst í rúmi í marga daga enda frekar virk að eðlisfari. Ég var, eins og fyrr segir, öll í snúrum og með þrjá æðaleggi með mismunandi tilgang. Eftir svona aðgerð er áhætta á að maður fá spasma í heilann og þess vegna er fylgst mjög vel með öllu. Ég mátti ekki liggja flöt heldur varð ég að hafa hækka rúmið til að höfuðið væri hæsti punktur. Guð minn góður. Ég átti semsagt að sofa, helst kyrr, á bakinu með hærra undir efri hluta líkamans. Ég hef ALDREI sofið á bakinu, og hvað þá öll í snúrum. Ef ég hreyfði mig og klemmdi snúru var hjúkrunarfræðingur komin um leið til að laga þetta. Ég var skoðuð á klst fresti allan sólarhringinn, þvagið vigtað, blóðprufur, súrefnismettun og lýst í augun mín.

Það var komin upp ákveðin rútína hjá mér þessa daga á gjörgæslunni. Maggi kom með vatnslitina mína sem hjálpuðu mér mjög við að láta tímann líða. Ég var með sjónvarp, ríkissjónvarpið og stöð 2, rás 1 og 2 og hlustaði á sjónvarpið á meðan ég málaði.

Almenna deildin og heimferð

Eftir gjörgæslu fór ég á almenna deild B6 og snúrunum fór hægt og rólega fækkandi. Þvílíkur draumur. Ég gat farið í sturtu og klósettið án hjálpar. Ég var svakalega þróttlaus og þurfti að fara hægt í sakirnar en mjög fljótt var ég farin að ganga alla gangana fram og til baka og skrá ferðirnar hjá mér. Starfsfólkið á þessari deild var ekki síður frábært og allir boðnir og búnir til að hjálpa mér og létta mér lífið þessa daga. Mér leið vel á spítalanum, eins og hægt var, en var líka spennt að komast heim og knúsa fólkið mitt.

Ég útskrifaðist 26. janúar og fór heim. Heppin að vera á lífi og óendanlega þakklát fyrir að ekki fór verr. En heimferðin var einn hluti af bataferlinu og ég mun kannski segja ykkur frá því sem eftir kom seinna.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here