Allt klárt fyrir myndatökuna?

Fermingarmyndatakan er stór þáttur í fermingarpakkanum öllum og líklegast sá eftirminnilegasti – enda hangir afraksturinn oftast uppi á heimilinu í kjölfarið. Fermingarmyndir eru sígilt umræðuefni og tilefni til upprifjunar enda fara flest fermingarbörn í myndatöku og mörgum finnst gaman að rifja upp strauma og stefnur í myndunum á hverjum tíma.
Stúdíómyndatökur með fjölskyldunni voru eitt sinn standard og síðar var áhugamáli barnsins oft bætt inn í myndatökuna – körfubolta eða fótbolta, skautum, ballerínuskóm eða fiðlu, til dæmis. Í seinni tíð hafa myndatökur orðið frjálslegri og margir nýtt umhverfið og náttúruna til þess að gera myndatökuna skemmtilega auk þess sem stúdíómyndatökurnar halda alltaf velli.

1.
– Ef móðirin, fermingarbarnið eða einhver annar í fjölskyldunni ætlar að fara í litun, plokkun, brúnkusprautun eða annað í þeim dúr er gott að hafa í huga að gera það ekki sama dag og myndatakan á sér stað. Stundum þarf litur og brúnkukrem að jafna sig.

2.
– Munið eftir að gera ráð fyrir birtuskilyrðum, myndir sem teknar eru í dagsbirtu eru alltaf skemmtilegastar. Ef myndatakan fer fram snemma árs þarf að gera ráð fyrir að það byrji snemma að dimma og seint að birta. Eftir því sem líður að vori þá fjölgar klukkustundum sem hægt er að taka fallegar myndir úti.

3.
– Veljið frekar hlutlaus föt til þess að klæðast í myndatökunni til þess að myndirnar standi af sér tískubylgjur. Eða ekki… Það væri nú líka ansi sniðugt að allir í fjölskyldunni myndu vera til fara nákvæmlega eins og er móðins á því augnabliki sem myndirnar eru teknar. Fanga þannig tíðarandann og búa til ódauðlega heimild. Ef þeir eldri þora, það er að segja.

4.
– Finnið ykkur stað sem skiptir fjölskylduna máli – sumarbústaðinn, einhverja gönguleið, garðinn.

5.
– Reynið að vera eins afslöppuð og þið getið og búið til heimilislega stemningu. Gefið myndatökunni tíma, ekki vera í tímaþröng. Stress og spenna gerir ekkert fyrir ykkur. Passið líka að öll séu vel nærð og vel sofin.

6.
– Munið að leyfa fermingarbarninu að vera miðpunktur myndatökunnar og styðjið það með öllum ráðum. Þetta kann að hljóma eins og versti hégómi en þessar myndir eiga eftir að hanga uppi á vegg um aldur og ævi.

 

Heimildir: Fréttatíminn

SHARE