Almennt um hnéáverka

Hvað felst í því að verða fyrir hnémeiðslum?

Í hnénu getur margt farið úrskeiðis og skemmst við áverka. Þar má nefna liðbönd, liðþófa, krossbönd og liðbrjósk. Við áverka geta fleiri en einn þáttur í hnénu skemmst samtímis.

Sködduð krossbönd

Í hnénu eru tvö krossbönd, annað að framanverðu, hitt að aftanverðu. Þau gegna því hlutverki ásamt liðþófum, ytri liðböndum og vöðvum að tryggja stöðugleika hnésins. Rifni fremra krossbandið verður hnéð óstöðugt þar sem sköflungurinn getur leitað fram á við. Viðkomandi fær svokallaða skúffuhreyfingu í hnéð. Algengast er, að þetta gerist við íþróttaiðkun en getur einnig orðið við venjubundin störf. Rifni aftara krossbandið getur sköflungurinn leitað aftur á við. Þó er mun sjaldgæfara að aftara krossbandið slitni en það fremra. Álag við íþróttaiðkun er þess eðlis að það er oftast fremra krossbandið sem rifnar. Ef aftara krossbandið slitnar er það oftast við annarskonar slys t.d. umferðaslys.

Skemmdir á fremra krossbandi

Algengustu óhöppin þar sem fremri krossbönd slitna verða við þær aðstæður að leggurinn neðan hnés situr fastur en lærleggurinn er á hreyfingu. Í handbolta er til dæmis algengt að leikmanni sem er í skrefinu sé hrint um leið og hann stígur í fótinn og við það komi slinkur á hnéð. Í knattspyrnu er þetta algengt þegar leikmenn renna sér í tæklingu með annan fótinn beygðan undir sig. Krossbönd eiga það einnig til að rifna við snúning á fæti hjá skíðamönnum og þeim sem iðka badminton. Í völdum tilfellum er svokölluð liðspeglun notuð til greiningar. Ef krossbandið er slitið getur reynst nauðsynlegt að lagfæra það og er það oftast gert með því að bútur er tekin úr sininni sem liggur á milli hnéskeljar og sköflungs og búið til nýtt krossband í hnéð. Þetta er flókin aðgerð og á eftir fylgir ströng endurhæfing.

Skemmdir á aftara krossbandi

Helsta ástæða fyrir skemmdum á aftara krossbandinu er þegar högg kemur á bogið hné. Einnig getur liðbandið rifnað þegar staðið er í fótinn og snúið er snögglega og skapast þannig mikið álag á hnéð, en þá rifna oftast einnig önnur liðbönd í hnénu sem gefa sig á undan, s.s. fremra krossbandið. Högg á hnéð s.s. sést þegar ökumaður sem lendir í umferðaróhappi og rekur hné upp undir mælaborðið getur einnig valdið því að aftara krossbandið rifnar.

Skemmdir á hliðlægum liðböndum í hné

Miðlægt og hliðlægt í hnjáliðnum eru tvö liðbönd sem tengja lærlegginn við fótlegginn og er hlutverk þeirra að auka á stöðugleika hnésins. Við áverka á hnéð geta þessi liðbönd rofnað og minnkar þá söðugleiki liðarins þó sérstaklega út til hliðar eða inn að miðju, eftir því hvort liðbandið það er sem rifnar. Algegnara er að miðlæga liðbandið slitni og algengt er að það skaddist ásamt fremra krossbandinu. Sjaldgæfara er að hliðlæga krossbandið rifni. Við skemmdir á liðböndunum verður blæðing inn í aðliggjandi vefi og síðar kemur fram óstöðugleiki í liðnum. Ef einungis er skemmd á öðru af hliðlægu liðböndunum, er í langflestum tilfellum nóg að meðhöndla með kælingu, hvíld, hálegu, bólgueyðandi lyfjum og spelku til að hindra hreyfingar.

Skemmdir á liðþófum

Í hnénu eru tvær hálfmánalaga brjóskskífur sem kallast liðþófar, annar liggur miðlægt í hnéinu en hinn hliðlægt. Hlutverk liðþófanna er að verka eins og nokkurs konar stuðpúðar sem dreifa þunganum sem kemur frá lærleggnum og niður á fótlegginn. Auk þess að dreifa þunganum auka þeir einnig á stöðugleika liðarins. Tiltölulega algengt er að sjá skemmdir á liðþófum og geta þær komið fyrir í öllum aldurshópum. Í ungu fólki eru liðþófarnir tiltölulega sterkir og töluvert mikinn áverka þarf til að skemmdir verði. Í þessum aldurshópi er algengast að liðþófaáverkar verið við íþróttaiðkun. Með aldrinum hrörnar liðbrjóskið og geta skemmdir komið fram við tiltölulega lítinn áverka og í sumum tilfellum fæst engin áverkasaga fram. Helsta ástæða fyrir skemmdum liðþófum er þegar staðið er í fótinn og snúið er snögglega og skapast þannig mikið álag á hnéð. Dæmi um íþróttagreinar þar sem algengt er að sjá skemmdir á liðþófum eru körfubolti, fótbolti og svigskíði svo eitthvað sé nefnt. Oft heyrir sjúklingur brest í hnénu, síðan fylgir sár verkur og hnéð læsist.

Sjá einnig: Hvernig kreppir þú hnefann?

Sjálfshjálp

Hvíld: Forðastu að hreyfa hnéð og kældu það niður.
Kæling: Vefðu þunnri tusku utan um hnéð, leggðu poka með ísmolum eða öðrum kuldagjafa á hnéð og vefðu svo teygjubindi utan um allt saman. Ísinn má vera á hnénu í 15-20 mínútur í senn.
Þýstingur: Teygjubindið á að vefja eins fast og þú þolir án þess þó að stöðva blóðrásina.
Hálega: Lyftu fætinum eins hátt og þú getur. Best er að þú liggir út af og skorðir hnéð þannig að það sé hærra uppi en líkaminn.

Að hverju leitar læknirinn?

Þegar bráðatilvik ber að höndum kannar læknirinn fyrst hvort losnað hafi um eitthvað í hnénu. Í byrjun getur verið erfitt að skoða hnéð vegna bólgu og sársauka.

Er skurðaðgerð alltaf nauðsynleg?

Nei. Það fyrsta, sem rétt er að gera, er að athuga hvort þörf er fyrir skurðaðgerð. Það ræðst af ýmsu, svo sem aldri, líkamlegri virkni, starfi þess sem fyrir slysinu verður og hversu mikil einkenni eru. Hvort sem gripið er til skurðaðgerðar eður ei verður sá sem fyrir slysinu verður að gangast undir þjálfun þar sem þeir vöðvar sem halda hnénu stöðugu eru þjálfaðir.

Í hverju er skurðaðgerðin fólgin?

Aðgerðin er oftast gerð í svæfingu. Fyrir aðgerðina speglar læknirinn hnéð til að ganga úr skugga um hvort á því séu fleiri en ein skemmd sem laga þarf. Skemmdir liðþófar eru saumaðir saman og ef laga á krossband er tekinn bútur úr sin sem læknirinn notar svo til að búa til nýtt krossband. Sinin er dregin inn í hnéð og lögð þannig að sem líkast sé upprunalegri legu krossbandsins. Sjúklingur stígur í fótinn strax næsta dag en fyrstu vikuna þarf hann að gæta þess að ofreyna hnéð ekki svo það bólgni ekki upp. Eftir það hefst löng þjálfunaráætlun. Íþróttagreinar, sem reyna mikið á líkamann, svo sem handbolta eða fótbolta, er ekki hægt að leggja stund á fyrr en níu til tólf mánuðum eftir aðgerðina.

 

Fleiri heilsutengdar greinar má finna á doktor.is logo

SHARE