Best geymda leyndarmálið – Hvað árangri vilt þú ná?

Félag markþjálfunar á Íslandi stendur fyrir Markþjálfunardeginum sem haldinn verður í fyrsta sinn 24. janúar næstkomandi. Margir af færustu markþjálfum landsins verða með glæsileg erindi frá kl. 8.30 að morgni til kl 19 að kvöldi. Markþjálfunardagurinn er kjörið tækifæri til þess að fræðast um spennandi fag, eflast í lífi og starfi, fá hugmyndir og innblástur og byrja árið með krafti! Hér geturðu keypt miða.

Frá uppeldi barna til uppbyggingar fyrirtækja

Einn af markþjálfunum er María Lovísa en við spjölluðum aðeins við hana um þennan spennandi dag. „Markþjálfun er skemmtilegt, hvetjandi og skapandi samtal milli markþjálfa og viðskiptavinar þar sem markþjálfinn hefur það eitt að sjónarmiði að viðskiptavinurinn nái almennt betri árangri,“ segir María.
„Sá sem fer í markþjálfun ákveður sjálfur hvað það í raun táknar fyrir sig og eru viðfangsefnin sem tekin eru fyrir margvísleg og geta tengst bæði lífi og starfi.  Byggist samtalsaðferðin að miklu leyti á því að sá sem er í markþjálfun fær rými til þess að skipuleggja sína eigin hugsun og stefnu, skoða möguleika og tækifæri sem í boði eru, forgangsraða og velja hvað mestu máli skiptir og að lokum taka ákvarðanir með hvaða skref og/eða aðgerðir eru nauðsynlegar til þess að ná því markmiði eða þeim árangri sem hver og einn vill ná hverju sinni.  Viðfangsefnin geta tengst uppbyggingu fyrirtækja, starfi og starfsþróun, skipulagningu í lífi eða starfi sem og sambönd og samskipti, bættri heilsu og almennri vellíðan, uppeldi barna og í raun hverju sem er.“

Gefum okkur ekki tíma til að líta inná við

María segir að sem manneskjur þá séum við stöðugt að vinna með val og ákvarðanir fyrir okkur sjálf og okkar starf og stefnu. „Við erum oft með ansi marga bolta á lofti í einu og getur verið margt sem við þurfum að huga að og sinna.  Í hraða nútímaþjóðfélags er það þó oft svo að við almennt upplifum svo mikið áreiti í kringum okkur að við gefum okkur jafnvel ekki tíma til þess að líta inná við í rólegheitunum og skoða og skipuleggja hvað við viljum umfram annað, hvert við erum í raun og veru að stefna og hvernig við ætlum að komast þangað.  Markþjálfun er skipulögð samtalsaðferð sem virkjar hugsun með opnum og ögrandi spurningum og virkar mjög vel fyrir fólk sem vill einfalda líf sitt og starf og vera með sterkan fókus og stefnu og ná almennt betri árangri í lífi og/eða starfi og ná árangrinum hraðar en ella,“ segir María

 Var sjálf með markþjálfa

Síðustu 5 ár hefur María starfað sem markþjálfi og fór í þetta starf í raun af tilviljun, eftir að hafa sjálf ráðið sér markþjálfa þegar hún var með sinn eiginn rekstur í Bandaríkjunum. „Eftir að ég fór í markþjálfun þá sá ég hvað það er sem gefur mér mesta ánægju í starfi og lífi og kom betur auga á þá styrkleika og hæfileika sem ég hef til að bera og eins varð ég fyrir mikilli vitundarvakningu varðandi mín eigin gildi og forgansröðun í lífinu.  Ég fór því að skipuleggja mig á allt annan máta og einfaldaði í raun lífið mitt og varð einhvernveginn samkvæmari sjálfri mér í öllu því sem ég vel að gera.  Í kjölfarið fór ég svo að læra markþjálfun, fyrst og fremst af forvitni og áhuga en fann síðan hvað það var gaman og gefandi að miðla þessari aðferðafræði áfram og leyfa öðrum að upplifa hvað þetta er skemmtilegt og skapandi ferli.  Áður en ég vissi af var ég farin að vinna við þetta og get ég með sanni sagt að mér leiðist aldrei í vinnunni og er ofsalega gaman að fá að vinna með fólki sem er að skapa eitthvað, tekur ábyrgð á sjálfu sér og sýnir kjark til þess að láta góða hluti gerast í lífi sínu og starfi, segir María að lokum.

 

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here