Djammlífið með augum edrúmanneskjunnar

Það er mikil lífsreynsla útaf fyrir sig að fara alltaf út á lífið í miðbæ Reykjavíkur alveg án allra vímugjafa, ef frá eru taldir 1-2 orkudrykkir. Það eru nokkrir aðilar sem eru alltaf í bænum og maður sér þeim bregða fyrir í hvert skipti.  En ég hef aðeins verið að fara út að skemmta mér upp á síðkastið og ég drekk ekki áfengi og neyti engra vímuefna svo ég tek eftir og sé hluti sem manni yfirsjást kannski ef maður er undir áhrifum. Það eru alltaf ákveðin atriði sem eru fastur liður á skemmtistöðum og mig langar svolítið að deila þessar hlið á skemmtanalífinu með ykkur.

Fulli gaurinn

Það er ALLTAF á öllum stöðum „fulli gaurinn“. Hann er með vinum sínum sem eru ekki jafn fullir og eru að reyna að hafa hemil á honum þar sem hann skjögrar um og pikkar í stelpur sem honum finnst sætar.  Hálfpartinn dettur á þær um leið og hann segir „þú ert svo sæt“ og horfir á meðan beint á brjóstin á henni. Stelpan setur upp svona ógeðssvip sem fulli gaurinn sér að sjálfsögðu ekki því hann er að horfa á tvíburasysturnar á bringunni á henni. Vinirnir koma þá oftast á þessum tímapunkti til bjargar og brosa afsakandi til stelpunnar og draga hann í burtu.  Þetta endurtekur sig allt kvöldið og hann verður alltaf ákveðnari og ákveðnari og bætir kannski inn í taktíkina að reyna að kyssa stelpuna um leið og hann kemur með þessa gullnu línu „þú ert svo sæt“.   Ég leyfi mér að fullyrða að þessi tækni virkar EKKI, ég hef a.m.k aldrei séð þetta heppnast.

Fulla gellan

Svo er það líka „fulla gellan“. Ein klassísk svoleiðis er sú sem kemur öskrandi á dansgólfið með aðra hendina upp í loft og það er eins og lagið sem er í spilun þá stundina sé hennar UPPÁHALDS lag og hún sé búin að bíða eftir að heyra það í töluvert langan tíma. Svo koma hinar vinkonurnar hlaupandi á eftir henni og þær byrja að dansa. Fulla gellan er samt í geðveikum gír og ætlar sér að taka dansinn á næsta level. Stekkur upp á stól eða borð og dansar þar mjög „kynþokkafullan“ dans sem dregur karlpeninginn nær og þeir hvetja hana áfram. Við það espast pían upp og hún er ekkert að hugsa um að fara niður af borðinu. Ef ein vinkonan í hópnum er aðeins meira edrú en hinar reynir hún að fá fullu gelluna niður af borðinu en fulla gellan tekur því bara sem öfund og verður pirruð út í vinkonuna sem er að reyna að bjarga henni frá því að gera sig að fífli.  Á þessum tímapunkti getur fullu gellunni fundist það fín hugmynd að flassa eins og einu brjósti en það er ekkert alveg 100%, fer alveg eftir því hvenær drykkjan hófst um kvöldið og hversu vel marineruð hún er orðin.

Veggjapissarinn

Það er óhjákvæmlegt að rekast á einn dauðadrukkinn mann sem er að pissa utan í vegg. Það er klassískt. Hann stendur varla í fæturnar og styður höfðinu og annarri hendinni upp við vegginn til að halda jafnvægi, svo er hin höndin að stýra vininum. Svo pissar hann á skóna sína.

Gangstéttarsamsætið

Svo verð ég að nefna vinkonuhópinn á gangstéttarbrún, ca 5 saman og ein af þeim er grátandi og hinar að reyna að hugga hana. Flestar með lykkjufall og ein þeirra heldur á skónum sínum í hendinni því það reyndist ekki góð hugmynd að fara á 15 cm hælum í bæinn að dansa.  Yfirleitt er dramað eitthvað sem hægt er að hlæja að daginn eftir sem betur fer. En þetta er eitthvað sem maður sér í hverri djammferð í miðborginni.

Dansar karla

Það eru til svona 3 tegundir af dönsum hjá karlmönnum, það er fyrst hógværi gaurinn sem dansar hliðar saman hliðar og er bara nokkuð öruggur með þann dans. Svo er það gaurinn sem er aðeins öruggari með sig. Hann tekur aðeins „agressívari“ hliðar saman hliðar og  ef hann er með  flottar byssur þá er kjörið að leyfa þeim að njóta sín og hann gerir það með því að vera með aðra hendina með flötum lófa sem slær fram og til baka rétt fyrir ofan axlir. Hin heldur á glasinu. Þriðji er gaurinn sem var í dansskóla þegar hann var lítill. Hann kemur og heillar stelpurnar alveg upp úr skónum með allskyns „Grease“ og „Dirty dancing“ danssporum. Hann stoppar samt mjög stutt á dansgólfinu því þetta er ekkert grín að dansa svona rosalega og hann brennur mjög fljótt út.

Dansar kvenna

Stelpur eru aðeins fjölbreyttari í dansinum. Við eigum að sjálfsögðu hógværa hliðar saman hliðar dansinn. Flestar byrja á því. Svo eftir því sem færist meira fjör í leikinn þá bætast við ögrandi mjaðmahreyfingar og svo fylgir fast á hæla þeim hársveiflurnar. Sítt hár er mjög sexy á dansgólfinu og við vitum það og þegar við byrjum að sveifla hárinu þá taka strákarnir um leið við sér. Þær sem eru svo komnar aðeins betur í glas byrja svo kannski að dansa djarfan dans við vinkonu sína. Strákar ELSKA það og eru um leið komnir aðeins nær til að sjá hvað sé að fara að gerast. Stundum stríða stelpurnar strákunum heillengi áður en þeir sjá að þeir eru ekki að fara að fá að taka þátt í þessum leik og þá gefast þeir upp og snúa sér annað. Stundum enda samt stelpurnar á því að leyfa þeima að skerast í leikinn og úr því verða þessi glimrandi fínu dúó sem ætla bókstaflega að éta hvert annað upp til agna þarna á gólfinu þó svo að það séu svona 10 mín síðan þau kynntust.

Slef

Annað sem er mjög algengt og þetta byrjar yfirleitt um svona 1 um nóttina. Fólk er að tala við mann og kemur alveg upp að eyranu á manni. Þarna gerast skemmtilegir hlutir. Fólk talar og talar og þegar áfengismagnið í blóðinu er orðið visst mikið þá er eins og það haldi ekki munnvatni lengur. Eyrun á manni verða heit og áfengisblaut. Ekki heillandi. Hitt sem gerist er að fólk talar alltof hátt!! Yfirleitt þegar verið er að tala við mig á skemmtistöðum þá enda ég með óþolandi ííílll í eyranu.

Passaðu þig

Þegar svo fólk veit að ég er edrú, þá sérstaklega strákar, þá sé ég að þeir horfa á mig og eru svo greinilega að hugsa eitthvað í þessum dúr: „passa mig að reyna ekki við þessa stelpu því hún mun koma til með að muna eftir því á morgun.“

Gott að vera ferskur

Mér finnst ótrúlega gaman að fara á djammið og dansa þó ég sé edrú. Það er ótrúlega gott að geta farið í bæinn og labbað svo út í bíl og keyrt heim. Ég er meðvituð um umhverfi mitt og sé kannski hluti sem maður sér ekki undir áhrifum en það er ekki til að skemma skemmtunina. Það er líka frábært að vakna daginn eftir og hafa engan móral, í flestum tilfellum allavega, ég er enginn heilagur siðapostuli. Svo eru engir timburmenn að lemja á mér svo það er hægt að nýta daginn í eitthvað gagnlegt og skemmtilegt.

 

 

SHARE