Ekki sýna barninu eða unglingnum neikvæða athygli!


Agi er nauðsynlegur svo að börnum líði vel og að við foreldrarnir kennum þeim rétta og góða hegðun. Margir nota umbunartöflu en Linda Johnson er sannkölluð ofurkona en hún er þriggja barna móðir en dætur hennar eru 6, 7 og 15 ára.
Linda stundar nám og er einhleyp, við fengum hana til þess að segja okkur aðeins frá kerfinu.

Að nota umbunartöflu
Öll höfum við heyrt um umbunarkerfi og margir notað það með miklum árangri á börnin sín, sjálf nota ég það bæði á yngri börnin og táninginn og hefur það virkað rosalega vel. Stundum uppgötvum við að við erum komin í vítahring með hegðun barnanna okkar og gerum okkur grein fyrir að oft er það vegna þess að barnið er að sækjast eftir athygli og neikvæð athygli er betri en engin athygli. Ég á 3 dætur og hef því prófað næstum allt og þegar ég áttaði mig á því að ég hafði oft gefið þeim meiri athygli þegar þær sýndu neikvæða hegðun með því að skamma og annað þá fór ég að leita annarra leiða og var þá bent á umbunarkerfið. Eftir að hafa notað það í nokkur ár verð ég að segja að breytingin er rosaleg. Ég einblíni mikið á jákvæða hegðun og reyni að sýna neikvæðri hegðun litla sem enga athygli, þegar ég byrjaði á þessu þá studdist ég við umbunartöflur svo eftir smá tíma fór ég að fara ósjálfrátt eftir þeim og ég fór að sjá jákvæða breytingu á börnunum.
Til að byrja með þarf þolinmæði hjá bæði foreldri og barni og því mikilvægt að hafa þetta einfalt í byrjun og láta það svo þróast með barninu og aldri þess hverju sinni. Hér eru smá ráð varðandi umbunarkerfið fyrir þá sem vilja prófa.

Skemmtilegt og jákvætt
Það sem skiptir mestu máli þegar þú notar umbunartöflu er að gera hana skemmtilega og jákvæða. Markmiðið með umbun er að gera mikið úr jákvæðri hegðun en ekki þeirri neikvæðu og er jafnvel hægt að gera það að leik með yngstu börnin. Með eldri börn er gott að hafa samráð við þau þegar þú býrð til töfluna og nota þá verðlaun sem barnið sækist eftir og velur sér.

Vertu ákveðin
Um leið og þú byrjar þá þarftu að vera ákveðin á því að fylgja henni algerlega eftir til enda. Ef þetta er vikutafla þá skaltu klára vikuna, ef þetta er mánaðartafla þá skaltu klára allan mánuðinn.Ég mæli með að byrja á stuttum tíma til að sjá hvernig það gengur og setja sér þá þann tíma án þess að gefast upp. Best er að hengja upp töfluna á stað sem er auðsýnilegur því oft vill það verða að hún gleymist annars. Jafnvel er hægt að nota mismunandi töflur fyrir mismunandi staði t.d setja upp töflu í eldhúsi fyrir “matvöndu” börnin eða stofunni ef stuðla á að jákvæðri tölvunotkunar – eða sjónvarps hegðun.

Raunsæ tafla
Ef þú vilt að umbunin skili sér þá þarftu að vera raunsæ annars verður taflan bara til þess að erfiðleikar og pirringur myndast á milli þín og barnsins. Að búast við því að barnið fái topp einkunnir eða hegði sér eins og vélmenni er óraunsætt og gerir bara þig og barnið pirrað.
Til að mynda skaltu ekki fylla töfluna með of miklum verkum eða gjörðum því það gæti verið of mikið til að barnið átti sig á hlutunum. Jafnvel er hægt að velja eina ákveðna hegðun til að vinna með í hvert skipti og nota töfluna bara í það, við skulum ekki setja upp töflu sem barnið mun ekki geta staðist.

Ekki búast við fullkomnun
Við eigum okkur öll daga sem eru erfiðari en aðrir og eins og ég sagði áður þá skaltu einblína á það jákvæða hjá barninu, jafnvel þó að það séu bara þrír dagar af sjö þá skaltu hrósa barninu þínu fyrir þá daga því breytingar taka tíma og þolinmæði til að byrja með.

Notið hegðun sem auðvelt er að nota
Til að umbunin virki er best að einblína á þá hegðun sem barnið getur stjórnað sjálft eins og td. að klára heimavinnuna, fara að sofa á einhverjum sérstökum tíma og þess háttar en sleppa að nota t.d. rífast ekki við systkini eða þess háttar því það er erfiðara að ná stjórn á þeirri hegðun þegar barnið ekki eitt við stjórnvöllinn.

Einföld verðlaun
Umbunin þarf ekki að vera flókin eða kosta eitthvað og fyrir mjög ung börn er sniðugt að leyfa þeim að lita inn í hvern reit fyrir jákvæða hegðun og eins virka límmiðar vel, farið með barninu og leyfið þeim jafnvel að velja liti eða límmiða til að nota í töfluna.
Bestu verðlaunin fyrir yngri börnin geta verið að fá að gista hjá afa og ömmu, fara með pabba eða mömmu út á róló eða á bókasafnið og lesa bók saman.
Fyrir eldri börnin gæti það verið að velja hvað er í matinn eða leyfa vini/vinkonu að gista, velja bíómynd og þess háttar.
Fyrir unglinginn gæti það verið auka tölvutími, fara í bíó eða jafnvel dekurkvöld með foreldri.
Það sem skiptir mestu máli er að þið setjist niður með barninu og ákveðið í sameiningu hver verðlaunin eru því möguleikarnir eru endalausir.

Að lokum
Munið að umbunarkerfi virkar ekki á öll börn eða ákveðnar hegðanir hjá börnum og því er mikilvægt að vera ekki með neikvæðni við barnið ef þetta gengur ekki upp og kenna barninu um heldur frekar að segja barninu að þið getið jafnvel prófað eitthvað annað sem gæti virkað. En ef umbunin virkar vel þá ættirðu að halda áfram með það og hver veit nema breytingar séu fyrir handan hornið.

Hér er sniðug síða sem hægt er að notast við þegar búið er til töflu sem hentar sínu barni

http://www.freeprintablebehaviorcharts.com/behaviorcharts3-10.htm

Sýnishorn


SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here