Reglulega þá fæ ég ógeð af Facebook og langar bara að hætta með síðuna mína. Eitthvað stoppar mig í því samt sem áður.

Ég er búin að spá mikið í Facebook og hvað það er að gera fyrir okkur, nútímafólkið. Ég man nefnilega þá tíð að það var ekki til neitt á almennum  heimilum sem hét internet né farsímar. Í sveitinni minni var hægt að hringja landlínu í landlínu og senda bréf í pósti. Barnslega tilhlökkunin sem fylgdi því að fara á pósthúsið og ná í póstinn með þá von í brjósti að kannski biði mín bréf, er enn í fersku minni.

Ég átti marga pennavini frá mörgum löndum og hafði mjög gaman að. Fyrsti pennavinur minn var þó amma mín, hún Kidda, en hún hefur alla tíð búið í Garðabæ og við skrifuðumst á í þónokkurn tíma. Bréfin sem ég fékk frá ömmu eru fjársjóður sem ég mun geyma alla tíð og ég er viss um að amma mín geymir bréfin sem ég sendi henni á góðum stað.

Það sem mér finnst að Facebook er að mér finnst allir vera að búa sér til raunveruleika sem þá langar í. Eru til að mynda þær sem eru með statusa eins og „Ég er heppnasta kona í heimi, á besta eiginmanninn“ í alvöru með besta eiginmann í heimi? Eru þessar konur svífandi um á bleiku skýi með manninum sínum eða getur jafnvel verið að þessi status hafi verið skrifaður daginn eftir risa rifrildi og sáttarkynlíf, og kallinn hefur sent henni blóm í vinnuna með rómantísku korti? Ég veit það ekki, en hef velt þessu fyrir mér.

Svo eru statusar sem ég hef tekið eftir líka og það eru statusar eins og „Búin að þrífa allt hátt og lágt og fara út að hlaupa, ALLT fyrir hádegi!“. Eru svona statusar skrifaðir af konum sem eru með allt á hreinu? Vakna með myntuandadrátt og hárið glæsilegt, vekja börnin með kossi og allir fara brosandi út í daginn? EÐA getur verið að heimilið sé búið að vera fokhelt alla vikuna, allt á hvolfi og leirtau vikunnar í haugum í vöskunum og þennan eina dag hafi húsmóðirin (ekki misskilja, ég styð jafnrétti, en hef ekki séð svona status frá strákum) rifið sig upp eftir að hún lagði sig þegar krakkarnir fóru í skóla og leikskóla og tekið heljarinnar hreingerningu. Drukkið mikið kaffi og ákveðið að nota umfram orkuna í að fara út að skokka. Kannski er þetta eitthvað sem gerist bara einu sinni, Á ÆVINNI?

 

Annað sem ég hef velt fyrir mér er hvað það er sem fær fólk til þess að skrifa status um það sem það er að gera. Ég setti til að mynda inn status hjá mér um helgina sem hljóðaði svona: „Er stolt móðir á fimleikamóti“.  Hvað var það sem fékk mig til að skrifa hann? Þetta eru algerlega gagnlausar upplýsingar fyrir flesta vini mína og það var enginn, svo ég viti, að leita að mér, svo hvað er það sem fær mann til að setja inn svona statusa? Jú ætli það sé ekki bara fyrir „like-in“, viðurkenninguna á því að fólk hafi séð þennan status, að ég sé að gera eitthvað skemmtilegt og kannski smá mont yfir því að dóttir mín sé að æfa fimleika. Ég veit það annars ekki, kannski er maður bara að vera þátttakandi í þessu samfélagi sem er svo stór þáttur í lífi okkar allra.

En þið sem lesið þetta, alls ekki taka þessu sem ég sé eitthvað brjáluð út í fólk sem ég er með á Facebook eða reið út í statusa fólks, er það alls ekki, ég hef bara gaman að því að velt þessu fyrir mér. Væri alveg til í að heyra ykkar hugrenningar líka.

SHARE