Á Skírdag þann 28. apríl var Íslandsmót IFBB í fitness og vaxtarækt á Íslandi haldið í Háskólabíó. Þar var meðal annars valinn Íþróttamaður ársins 2012 hjá IFBB og varð Aðalheiður Ýr Ólafsdóttir fyrir valinu fyrir framúrskarandi árangur á árinu. Aðalheiður Ýr keppti á 7 mótum hérlendis og erlendis á seinasta ári og náði góðum árangri á þeim öllum. Við spurðum Aðalheiði Ýr út í árið 2012: „Ég verð að viðurkenna að þetta var ekki auðvelt ár. Ég er búin að vera að keppa síðan árið 2009 hérna heima og það hefur verið draumur minn að upplifa og prófa að keppa erlendis og þá helst að upplifa það að keppa á Arnold Classic í Bandaríkjunum sem er eitt stærsta fitness mót í heimi. Þar hittir maður líka mikið af stórstjörnum í þessum fitness-heimi og það var fyrst og fremst gaman að upplifa það og sjá þetta flotta fólk.“

Sigurganga Aðalheiðar

Aðalheiður Ýr segist ekkert endilega hafa búist við miklu en auðvitað væri alltaf keppnisandi í henni. „Ég undirbjó mig í eitt ár fyrir mótið og tók niðurskurð í 3 mánuði. Það gekk svo vel að ég hafnaði í 2. sæti, og var enn í keppnisanda þegar ég kom heim og tók þá þátt í Íslandsmótinu 5 vikum seinna,“ segir Aðalheiður en hún sigraði á mótinu. Hún flaug svo beint út til Danmerkur á Loaded Cup og sigraði þar líka en hafði ekki hugsað sér að keppa neitt meira á næstunni þegar hún fékk boð um að fara til Budapest á Heimsbikarmótið í júní og ákvað að slá til. „Það hafði allt gengið svo vel og þá æsir það upp keppnisskapið í manni. Ég vann það mót og varð Heimsbikarmeistari. Ég tók mér svo smá sumarfrí, ég tek samt aldrei frí frá æfingum, var bara með aðeins slakari taum í mataræðinu.“

Reif sig upp

Í lok sumars bauðst Aðalheiði svo að fara á heimsmeistaramótið í Póllandi ásamt 2 öðrum íslenskum stelpum, þeim Elínu Kragh og Margréti Eddu Gnarr, en henni gekk ekki eins vel þar. „Við komumst ekki í úrslit, en ég var fljót að rífa mig upp, kepptum viku seinna á Arnold Classic Evrópumóti á Spáni og hafnði ég í 6. sæti. Fyrir þessi mót var allt orðið mun erfiðara, líkaminn orðinn þreyttur. Ég tók mér viku hvíld og náði mér á strik aftur, en ég hef lært það á þessu ári að ég er með mikið keppnisskap og gat ekki endað árið svona, reif mig upp og kláraði árið með stæl, náði að toppa sjálfa mig og sigraði á Bikarmótinu hér heima í nóvember, mánuði eftir mótið á Spáni og varð einnig heildarsigurvegari á mótinu af 64 keppendum í módel fitness.

Tekur á líkama og sál

Svona mót taka rosalega á bæði líkamlega og andlega og Aðalheiður segir að maður þurfi að vera rosalega skipulagður og lítið annað komist að meðan á þessu stendur. „Ég setti mig líka bara í þann gír að ég ætlaði mér að klára þetta ár vel, hugsaði bara allan tímann „þetta er bara eitt tímabil í lífi mínu sem ég vil gera þetta og þá er bara að gera það almennilega”. Þetta er orðin lífstíll hjá mér og það skemmtilegasta sem ég hef gert og hefur kennt mér svo mikið sem mun nýtast mér alla ævi og í mínu starfi sem einkaþjálfari og það er ekki leiðinlegt að vinna við það sem manni þykir skemmtilegast að gera,“ segir þessi kraftmikla kona. Hún bætir líka við að það gefi henni mikið að hjálpa öðrum að ná markmiðum sínum og þegar árangurinn fari að sjást sé það toppurinn.

Ólýsanleg tilfinning

Við spyrjum Aðalheiði hvað hafi verið toppurinn á þessu ári: „Ég get varla gert upp við mig hvað stóð mest uppúr af öllum þessum mótum, en það er alltaf ólýsanleg tilfinning að vera kölluð upp í fyrsta sæti. Það er samt svo skrítið að ég man alveg jafn vel þegar ég var kölluð upp í 3. sæti á mínu fyrsta móti, þú ert alltaf að sigra sjálfan þig í þessu sporti og getur alltaf bætt þig og gert betur. Ætli það hafi samt ekki verið toppurinn að fá titilinn „Íslandmeistari“, sem var það sem maður var búin að dreyma um mest af öllu frá því maður byrjaði, en einnig átti ég ekki von á að verða heimsbikarmeistari. Og alveg toppaði það svo að verða bikarmeistari líka og taka þar heildarsigur af 64 keppndum sem var metþáttaka í módel fitness á Íslandi.“

Er komin í frí, samt ekki hætt að æfa

„Ég er komin í frí núna, líkaminn minn þufti smá hvíld, eins og ég sagði var þetta alls ekki auðvelt og ég ef ég hugsa til baka þá skil ég stundum varla hvernig ég gat þetta, það er minn stærsti sigur held ég, að sjá það að ég gat þetta allt saman. En núna ætla ég að gefa líkamanum hvíld og líka öllum sem standa við bakið á mér í kringum mig, þetta tekur auðvitað á fyrir þá líka,“ segir Aðalheiður þegar við spyrjum hana um framhaldið. Hún segist eiga æðislegan kærasta og fjölskyldu sem hafi stutt hana í gegnum þetta allt saman. „Ég er ekki að mikið að kíkja út með vinum um helgar og það er ýmislegt sem maður þarf að fórna fyrir þetta líf. En ég sé sko ekki eftir því í dag. En þótt ég segi pásu þá er ég hvergi nærri hætt, ég æfi enn alla daga, bara ekki alveg jafn stíft og er með tauminn aðeins lausari í mataræðinu. Ég starfa sem einkaþjálfari í World Class og ætla einbeita mér alveg að því núna.“ Aðalheiður var einmitt að þjálfa nokkrar flottar stelpur fyrir mótið núna um páskana og segist rosalega montin af því að þær komust allar í verðlaunasæti.

540086_10151450423607423_1808384809_n

SHARE