„Í sumar er ég að gefa út litla bók sem heitir Ferðadagbókin mín – ÍSLAND sem er fræðslu og skemmtibók fyrir börn á ferðalagi um landið. Í bókinni eru ýmsar þrautir og afþreying sem tengjast náttúrunni og ferðalögum“ segir Unnur Símonardóttir, þriggja barna móðir úr Garðabænum.

„Í bókinni eru ýmsar þrautir og afþreying sem tengjast náttúrunni og ferðalögum. Auk þess eru landakort í bókinni svo börnin geti merkt inn á kortin hvert þau eru að fara og þar með verða þau meðvitaðri um hvernig landið liggur. Bókin fær því börnin til að líta upp úr ipadinum og tölvuspilunum“ segir Unnur.

Unnur segir að hugmyndin að bókinni hafi komið fyrir mörgum árum og hefur verið að þróast undanfarið ár. „Þegar ég var 18 ára fór ég á interrail og fjárfesti í Evrópukorti áður en ég fór út og merkti inn á leiðina sem ég fór og á því skemmtilegan minjagrip frá ferðinni. Ég hef verið að prenta út landakort á ferðalögum með börnunum okkar hjóna og látið þau merkja inn á kortið leiðina sem var farinn. Ferðadagbókin mín – ÍSLAND heldur einmitt utan um ferðalög barnanna því í bókinni eru sérhönnuð kort frá Landmælingum þar sem börnin eiga auðvelt með að merkja inn á kortin hvert þau fóru, hvar þau gistu, hvað þau upplifðu og sáu og eiga því minjagrip eftir hvert ferðalag.“

Eftir langt hugmyndaferli, þátttöku í Gullegginu sem er frumkvöðlakeppni Innovit, margar uppgjafir og mikla þrautseigja er bókin hennar Unnar komin út og er til sölu á N1 um land allt. Nú er bara að vona að veðurspáin verði góð og ferðast um landið!
Frekari upplýsingar um bókina er að finna á www.facebook.com/ferdadagbókinmin

 

 

SHARE