Á miðvikudagskvöldið 27. mars mun sannkölluð kósýstemning ríkja á Café Rósenberg, þegar söngfuglarnir Kristjana Stefánsdóttir og SvavarKnútur mæta hljómsveitinni Robert the Roommate á sviði þessa frábæra tónleikastaðar.

Kristjana og Svavar Knútur hafa vakið verðskuldaða athygli fyrir stórskemmtileg dúettakvöld undanfarin ár, þar semþau sýna á sér óvæntar hliðar. Láta þau Svavar og Kristjana jafnan gamminn geysa í fjölbreyttri dagskrá sem rúmar allt frá Abba til Dolly Parton með viðkomu hjá Nick Cave og Páli Ísólfssyni, auk frumsamdra laga og sígildra perla úr ýmsum áttum. Kántrý, Evróvisjónpoppsmellir, blágresi og sígræn íslensk skólaljóð eru í fyrirrúmi.

Hljómsveitin Robert the Roommate hefur spilað saman síðan vorið 2010 og spilað ófáa slagara eftir meistara á borð við Leonard Cohen, BobDylan og Led Zeppelin. Sveitin hefur nú síðustu misseri einbeitt sér að eigin efni og er að gefa út sína fyrstu plötu á næstu dögum.

Á tónleikum kvöldsins, sem hefjast kl.21 á Café Rósenberg, munu meðlimir beggja sveita sameinast og taka lög úr safni sínu, en einnig flytja nýjar samsuður þar sem best er að vænta hins óvænta.

SHARE