Þetta var bara eins og hver annar vinnudagur hjá þessum manni, Mathieu Shamavu sem er landvörður í Virungu þjóðgarði í Kongó. Hann tók eina „sjálfu“ af sér með tveimur górillum og birti á samfélagsmiðlum og myndin hefur svo sannarlega farið víða á netinu.
Ástæða þess að þessi mynd hefur orðið svo vinsæl er að górillurnar eru heldur betur að stilla sér upp fyrir myndatökuna. Þær eru báðar kvenkyns og heita þær Ndakazi og Ndeze. Þær hafa búið í þjóðgarðinum síðan þær voru pínulitlar og eru mjög vanar mannfólki.
„Þessar górillustelpur eru alltaf eitthvað að grínast og þessi mynd sýnir svo vel hvernig persónuleika þær hafa,“ var skrifað á Instagram síðu þeirra. Einnig er sagt frá því að þær gangi mjög oft á tveimur fótum og séu alveg öruggar þannig líka.
Margir hafa haldið að þessi mynd sé ekki alvöru en það hefur verið staðfest að þessi mynd er EKTA. Hinsvegar er það tekið fram að ekki sé mælt með því að reyna að nálgast villtar górillur og þessi mynd hafi verið tekin í vernduðu umhverfi.
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.