Hakkabuff með möndluraspi

Ég átti hakk inni í ísskáp sem ég varð að gera eitthvað úr. Ég var ekki í stuði fyrir hakkrétt á pönnu eða ofnrétt úr hakki. Ég ákvað því að vera svolítið gamaldags og skella í hakkabuff. Þegar ég geri hakkabuff þá er sko alltaf vel af lauk og góðum osti í þeim því flöt og bragðlaus hakkabuff gera lítið fyrir mína bragðlauka. Útkoman: Algjört sælgæti!

 

350 gr. nautahakk

70 gr. gráðaostur

1 venjulegur laukur

2 hvítlauksrif

1 egg

2 msk Dijon sinnep

Salt og pipar

 

Fyrir hneturaspið:

Möndlumjöl eða gróft saxaðar möndlur

1 egg

Spelt

 

Aðferð

1.Pressið hvítlaukinn og saxið laukinn mjög smátt. Einnig er hægt að setja laukinn í matvinnsluvél ef þið viljið fá hann ennþá fínni.

2.Blandið hakki, gráðaosti, lauk, hvítlauk, eggi, sinnepi, salti og pipar saman í skál. Mér finnst gott að nota hrærivél í það verk.

3.Brjótið egg í eina skál, látið möndlumjöl í aðra og spelt í þá þriðju.

4.Mótið 7-8 hakkabuff úr hakkblöndunni. Veltið hverju buffi fyrst upp úr spelti, þá eggi og loks möndlumjöli.

5.Hitið olíu á pönnu. Steikið buffin á vel heitri pönnunni þar til þau hafa fengið flottan lit á báðum hliðum.

6.Færið buffin í eldfast mót og bakið við 175 gráður í 12-15 mínútur eða þar til buffin eru orðin vel steikt og flott í gegn.

 

Gott er að spæla egg, sjóða eða baka kartöflur og bjóða upp á brúna sósu og salat!

 

 

SHARE