Heimabakaðir brauðhleifar Frú Fagurra Augnablika

Ég hef lengi elt hana á röndum, norsku húsmóðurina sem heldur úti bloggsíðunni Vakre augeblikk, sem svo aftur útleggst sem Fögur augnablik á íslensku máli. Að vísu sýnist mér svo sem frúin hafi lagt bloggið til hliðar að mestu, en hún er ansi öflug á Instagram.

Skandinavísk hönnun og norræn nálgun í flestu gnæfir yfir þegar hún flögrar í fréttaveitunni minni á Instagram – snævi þaktar hlíðir, dúnmjúkar svipmyndir af mjallahvítum heimkynnum konunnar sem virðist óþreytandi með myndavélina. Allt virðist svo kyrrt og rótt í litla húsinu; þó ég sé ægihrifin af öllum regnbogans litum, virðist mér oft sem heimurinn staðnæmist og allt verði ljúft þegar ég ber nýja ljósmynd augum í fréttaveitunni á Instagram:

Í dag deildi hún brauðuppskrift á Instagram. En ekki fyrr en hún hafði deilt enn einni svipmynd af því sem virðist vera hið fullkomna brauðdeig … og enn einu sinni virtist allt í veröldinni vera svo áreynslulaust. Frú Fögur Augnablik deildi þessari mynd með þeim orðum að nú væri hún steinhætt að kaupa tilbúin brauð úr verslunum – og að hún ætlaði sér héðan í frá að iðka heimabakstur:

Látlausir jarðlitir og svo snævi hvítt yfirbragðið svífur yfir öllu hjá norsku húsmóðurinni sem virðist listagóður ljósmyndari í ofanálag. Þess utan státar heimilið af baðkari á fótum, sem ekki er algengt hér í Noregi, enda mun hærri rafmagns- og hitareikningar hér en þekkjast á Fróni:


Meira að segja jólin voru snjóhvít á litla heimilinu í Noregi – með skemmtilega rauðu ívafi þó. Norðmenn eru ægilega hrifnir af piparkökuhúsum og hér ytra virðist það vera viðtekin venja að brjóta piparkökuhúsið á annan (nema það sé þriðja?) í jólum – en ekki degi fyrr.

Frú Fögur augnablik rauf ekki hefðina þetta árið og olli ekki vonbrigðum fremur en fyrri daginn – hér ber að líta hið fullkomna piparkökuhús – en þetta blasti við mér í fréttaveitunni á miðjum jólum, óravegu frá hvíta húsinu sem lúrir í Noregi og virðist töfrum gætt:

Mér leikur örlítil forvitni á að vita hvernig brauðið bragðast sem Fröken Fögur Augnablik deildi með fylgjendum sínum á Instagram nú fyrir skemmstu … en vegna fjölda áskoranna skrifaði hún alla uppskriftina eins og hún leggur sig í athugasemdareit og viðbrögðin, hrósyrðin og þakkaryrðin ætluðu nær engan endi að taka.

Sjálf er ég forvitin – en ákvað að snara uppskriftinni yfir á íslensku sem má sjá fyrir neðan meðfylgjandi mynd:

Heimabakað brauð úr smiðju Frú Fögur Augnablik:

Fyrsta stig: 

2 dl soðið vatn 

100 gr sólkjarnafræ

50 gr sesamfræ 

50 gr linfræ

Sjóðið fyrst vatnið, látið í lítið ílát og hellið fræjunum út í. Látið standa í ágætan tíma – helst yfir nótt. 

Annað stig:

50 gr haframjöl 

150 gr fínmalað rúgmjöl 

150 gr grófmalað rúgmjöl 

12oo gr hveitimjöl 

1 pk þurrger 

1.5 tsk salt 

4 msk matarolía 

9.5 dl ylvolgt vatn 

Blandið nú fræblöndunni (sjá fyrsta stig) saman við þurrefnin í hræriskálinni. Setjið örlítið hveitimjöl til hliðar svo hægt verði að elta deigið með hveiti og ylvolgu vatni, ef deigið verður of þétt í sér þegar á að fara að hnoða. Hnoðið deigið ágætlega í hrærivélinni. Leggið því næst plastfilmu yfir bökunarskálina og látið deigið hefast í 1.5 til 2 tíma. 

Deilið nú deiginu upp í þrjá jafnstóra hluta. Látið deigið því næst standa og hefast í u.þ.b. 20 mínútur áður en deigið er hnoðað aftur og látið í smurð bökunarform. 

Stillið ofninn á 220 gráður og látið brauðin bakast í neðstu ofnhillunni í ca. 40 mínútur – en lækkið svo hitann niður í 190 gráður og látið bakast í 10 mínútur til viðbótar. 

Verði ykkur að góðu! 

 Allt af myndræum ævintýrum Frú Fagurra Augnablika má skoða betur á Instagram, en hér má sjá hvernig heimabökuðu heilsubrauðhleifarnir litu út í norska ævintýraeldhúsinu þegar þau komu út úr ofninum. Sjálf mælir frúin með að reiða sneiðarnar fram með norskum brúnosti og fersku smjöri … en gaman verður að sjá hverju frúin tekur upp á þegar vora tekur. 

Freistandi, ekki satt?

 

Tengdar greinar:

Fallegasta sumarhúsið í Skandinavíu

Lífrænt bananabrauð – Uppskrift

Brauðbakstur – Loly.is

SHARE