Hetjur geta birst í mörgum myndum. Sumar hetjur eru grímuklæddar með skykkjur, á meðan aðrar koma fram í gervi móður sem lyftir bíl ofan af barninu sínu. Síðasta sumar var bjartvættur minn síða á netinu.

Mig virkilega vantaði barnapíu, og þrátt fyrir að hafa byrjað að leita mörgum mánuðum fyrir skólaslit þá var hafði það ekki gengið upp. Sumarfríið byrjaði og við rétt náðum að redda málunum þannig að pabbinn vann seinnipartinn og á kvöldin og ég á daginn. En svo benti einn vinnufélagi minn mér á síðu, þar væri hægt að auglýsa eftir aðstoð við hótelrekstur, við búskap, við að gera upp hús, bara það sem þig vantaði aðstoð við, þar á meðal barnapössun (hún sjálf hafði notað þessa síðu mikið til að finna barnapíur og var rosalega ánægð). Það liggur við að ég hafi heyrt englakór syngja, léttirinn var þvílíkur. Strax þá um kvöldið bjó ég til prófíl. Það var rosalega auðvelt, bara hakað í nokkur box, tók skýrt fram hvað það væri sem ég væri að leita eftir og hvaða tímabíl.

Þetta er sem sagt sjálfboðasíða, það eina sem þú þarft að útvega er fæði og húsnæði og auðvitað má ekki láta sjálfboðaliðann vinna endalaust, það eru takmörk. Það tók nokkrar vikur að finna réttan aðila en við enduðum á alveg frábærri barnapíu, sem bjó hjá okkur í mánuð og sá um börnin á meðan við vorum í vinnunni. Ég veit að mörgum finnst óþægileg tilhugsun að hleypa einhverjum ókunnugum inn á heimilið en ég mæli 100% með því. Auðvitað geturu lent á alls konar sauðum, en ef þú notar almenna skynsemi þá ættir þú mjög fljótt að sjá úlfinn í sauðagærunni. Ég mæli líka með að láta barnapíuna koma nokkrum dögum áður en hún á raunverulega að passa, til að börnin og hann/hún nái að kynnast.

Eins og ég sagði þá finnst mér þetta frábært fyrirkomulag, en það sem mér finnst best er að þetta opnar nýja heima fyrir börnin mín, þau læra smá í nýju tungumáli (núna í sumar er það franska) og kynnast annarri menningu. Og við eignumst nýja fjölskyldumeðlimi út um allan heim.

Fyrir þetta sumar þá kom ekki annað til greina en að finna barnapíu nr. 2 á sama stað. Ég hélt að við hefðum dottið í lukkupottinn síðasta sumar en við erum aftur jafn heppin. Ég treysti henni 100% fyrir börnunum, þegar það er kalt úti þá eru þau að baka og föndra saman en í dag þá er yndislegt veður og í þessum töluðu orðum þá eru þau í sundi. Á hverjum degi kem ég heim í hreint hús og hitti ánægð börn, hvað gæti verið betra? Og hvaða töfrasíða er þetta? Workaway.com. Það kostar ekkert að skrá sig inn, og hvort sem þú ert að hugsa um að kynnast heiminum á nýjan hátt sem sjálfboðaliði eða vantar einhvern til að mála húsið þitt, þessi síða getur reddað því.

 

SHARE