Það er fátt eins sársaukafullt og að horfa á eftir barninu sínu inn í heim fíknar.

Veröldin hrynur á einu andartaki og barátta sem engum óraði fyrir tekur við. Barrátta við barnið, kerfið, sjálfan sig, maka og jafnvel álit annarra. Skömm og sjálfsásökun fylla upp tilfinningarýmið ásamt sorg og ótta. Það má eiginlega með færri orðum segja að foreldrar upplifi skelfingu.

Sjá einnig: „Hann hélt hann væri klárari en dópið“

Flestir foreldrar sjá fyrir sér í huganum að börnin vaxi upp, fari í menntaskóla, háskóla og finni sér maka og eignist börn og verði hamingjusöm en þessi mynd hrynur þegar barnið er komið í neyslu vímuefna og fer alltaf lengra og lengra inn í þann hræðilega heim og í stað fallegu væntingana koma upp myndir af ofbeldi, nauðgunum, handrukkunum og dauða.

Þegar foreldri er orðið örmagna þá er jafnvel ein af bestu myndunum sem koma í huga þeirra hvað það væri gott ef þessu lyki bara með dauða, því það er svo sárt að sjá barnið sitt verða skugginn af sjálfu sér í hræðilegum heimi.

„Á meðan það er líf“ er von er setning sem ég hef oft notað og hún er sönn því ótrúlegasta fólk snýr til baka úr neyslu.

Ég hef starfað til margra ára með foreldrum sem eiga eða hafa átt börn í neyslu. Þessir foreldrar eru að jafnaði nokkuð fljótir að ná sér í svarta beltið í barráttu við kerfið og barnið sitt, en því miður hef ég of oft orðið vitni að því að foreldrar gleyma að huga að sjálfum sér, eru jafnvel farnir að upplifa líkamleg einkenni streitu og andlegt vonleysi.

Sjá einnig: Dóttir mín er fíkill

Það er hræðilegt að eiga barn sem fer þessa leið en það er mun auðveldara að gera það með réttum stuðningi og það er ýmislegt sem getur hjálpað foreldrum að styrkja sig sjálf í þessari baráttu og að læra að sinna sínum eigin þörfum en með því lærir foreldrið að setja heilbrigð mörk og styðja fíkilinn sinn á heilbrigðan hátt. Það má heldur ekki gleymast að oft eru önnur börn á heimilinu og því en mikilvægara að foreldrar leiti aðstoðar til þess að geta sinnt þeim.

Eitt af því sem ég mæli með fyrir foreldra er að taka frá 10 til 20 mínútur á hverjum degi til þess að gera ekkert, bara hvílast, hlusta á tónlist, fara í bað, göngutúr. Taka frí frá lífinu í 10 til 20 mínútur á dag getur gert helling til að draga úr streitu.

Djúpslökun er líka eitt af því sem styrkir foreldra mikið og ég mæli óhikað með því að koma í djúpslökun.

 

SHARE