Aðsend grein frá móður.

Ég veit ekki hvar hún er niðurkomin eða hvort það er í lagi með hana, hef ekki heyrt í henni í viku. Síðast þegar ég sá hana fyrir mánuði þá var hún svo horuð og tekin að hjarta mitt sprakk af sorg en ég varð að halda andlitinu fyrir framan hana og setja henni mörkin. Hún var að biðja mig um pening en ég neita að láta hana hafa pening þar sem ég vill ekki fjármagna neysluna hennar. Ég er tilbúin til að gera allt fyrir barnið mitt nema taka þátt í neyslulíferni hennar.

Svona er þetta búið að vera í nokkuð mörg ár og einhvernvegin hélt ég að hún færi ekki þessa leið þar sem hún þekkti skaðsemina, ég ættleiddi hana af því mamma hennar var fíkill og gat ekki sinnt henni vegna neyslu. Nú hefur hún orðið fíkninni að bráð og gert það sama og mamma hennar fætt barn í þennan heim sem búið er að taka af henni og gefa til ættleiðingar þar sem hún getur ekki sinnt því sökum neyslu.

Það er svo óendanlega sárt að horfa á barnið sitt hverfa inn í heim fíknar og alls þess ógeðs sem því fylgir og geta ekki gert neitt, ekkert.

Það eina sem ég sem móðir get gert er að hugsa fallega til hennar, elska hana og leita mér hjálpar.

SHARE