Hvaða skoðun aðrir hafa á okkur, segir ekkert um okkur

Funny looking man and woman having troubled communication trying to read someone's mind

Ef það er eitthvað sem getur haft áhrif á okkur þegar sjálfstraustið er laskað, þá er það þegar við fréttum af því að aðrir baktali okkur. Og alls ekki óeðlilegt, því það er ákveðið varnarviðbragð að vilja berjast. Fá tækifæri til að útskýra okkur, til að afsaka okkur, til að verða brjáluð yfir að einhver skuli hafa skoðun á okkur.

Nr 1. Við getum aldrei í lífinu verið allra, ef heimurinn virkaði þannig værum við öll vinir og hlaupandi um á sígrænum engjum í blúndufötum með rós í hárinu eða hnappagatinu.

Nr 2. Það segir ekkert um okkur sem manneskjur hvað öðrum finnst um okkur, okkar líf og okkar tilveru. Við erum bara við, aðrir eru bara aðrir. Það er annarra að hafa álit á okkur, og það álit skilgreinir okkur ekki sem manneskjur.

Þegar sjálfsálit og sjálfsvirðing okkar vex, er álit annarra eitthvað sem skiptir ekki máli, því við vitum hver við erum og fyrir hvað við stöndum.

Ég heyrði nýlega hvernig maður sem ég hef metið mikils talar um mig út á við. Hans skoðun kom mér á óvart þar sem hann hefur aldrei sýnt mér annað en virðingu þegar við eigum okkar góðu samtöl. En gagnvart öðrum finnst honum gott að hafa eitthvað neikvætt að segja svo það skapist einhver umræða.

Fyrir einhverjum árum hefði ég farið í bardagagírinn, fundist ég þurfa að berjast fyrir mér og skoðun hans á mér. En viðbrögð sjálfrar mín komu mér svo fallega á óvart, MÉR VAR BARA SAMA. Og var sama vegna þess að ég veit hver ég er og fyrir hvað ég stend sem manneskja. Ég á auðvelt með að treysta og trúi öllu góðu um fólk og mér finnst það sennilega mikilvægara, það er eiginleiki sem mér þykir vænt um.

Af hverju er ég að segja frá þessu ef það hefur engin áhrif á mig hvað öðrum finnst um mig? Jú vegna þess að samviska mín er hrein að öllu leyti, og ekki síður vegna þess að ég er svo furðu lostin yfir því að ég hafi ekki orðið miður mín. Það kom mér nánast á óvart að ég standi svo fast í sjálfri mér að ég láti það ekki koma mér úr jafnvægi að einhverjum finnist eitthvað um mig eða hafi þörf fyrir að tala um mig á neikvæðan hátt.

Og ekki síður til að minna ÞIG á að það segir mun meira um viðkomandi en nokkurn tímann þig hvernig viðkomandi velur tala um þig.

Baktal getur verið ávani sem fólk er orðið svo samdauna að það tekur ekki eftir því sjálft, ávani sem hefur í raun ekkert með þann sem um ræðir að gera heldur eins og ég segi þörfin til að skapa umræðu á kostnað annarra.

Elskaðu þig enn fastar ef einhver elskar þig minna, þú ert þinn helsti stuðningsaðili Fólk mun alltaf hafa skoðanir og setja þær í orð, elskum okkur fastar.

SHARE