Jónas Sigurðsson verður ásamt Lúðrasveit Vestmannaeyja og Þorlákshafnar í Höllinni í Vestmannaeyjum.

jonas sig
Hvað er það sem Vestmannaeyjar og Þorlákshöfn eiga sameiginlegt?  Jú Herjólf, svona stundum allavega, sjóinn og fólkið sem með eljusemi byggði upp þorp með samkennd að leiðarljósi og einnig þeir fjölmörgu Eyjamenn sem kusu að búa áfram í Þorlákshöfn eftir gos og hafa glætt mannlífið alla tíð síðan þá. Jú þetta allt saman og meira til eiga bæirnir sameiginlegt en það sem kannski ekki allir vita er að Vestmannaeyjar og Þorlákshöfn eiga líka bestu lúðrasveitirnar á Íslandi!
Saman ætla þessar frábæru lúðrasveitir að slá upp heljarinnar tónleikum í Höllinni 4. janúar 2014 og fá til liðs við sig Jónas Sigurðsson og hljómsveit hans. Á tónleikunum mun þessi fríði hópur flytja fyrir Eyjamenn og gesti þeirra, efni af plötunni „Þar sem himin ber við haf“, sem Jónas gerði í samvinnu við Lúðrasveit Þorlákshafnar og gaf út árið 2012, ásamt öðrum vinsælum lögum Jónasar. Platan er einmitt óður til fólks í sjávarþorpum landsins og því vel við hæfi að hún sé flutt í heild sinni í Vestmannaeyjum.
Óhætt er að lofa kraftmiklum, fallegum og skemmtilegum tónleikum og því kjörið að hefja þetta nýja ár með lúðrablæstri og þeirri gleði sem mun ríkja á meðal flytjenda sem vita fátt skemmtilegra en að hittast til þess að spila saman!

milli la

Tónleikarnir hefjast kl. 21.00 laugardaginn 4. janúar í Höllinni í Vestmannaeyjum. Húsið opnar kl.20:00. Forsala miða er í Eymundsson og Bensínsölunni Kletti í Vestmannaeyjum.  Miðaverð er 3.900 kr.
Tryggðu þér miða. Reynslan hefur sýnt að þeir klárast fljótt.

SHARE