Kurlkjúklingur með sætkartöflusalati – Uppskrift

Þessi kurlkjúklingur segir kex þegar bitið er í og rennur ljúflega niður með ljúffengu sætkartöflusalatinu. Mjög einfalt, hollt og gott á huggulegu vetrarkvöldi.

 

Sætkartöflusalat

1 ½ – 2 sætar kartöflur

1 ½ msk hunang

1 msk balsamgljái

1 rauðlaukur

Aðferð

1. Afhýðið sætu kartöflurnar og rífið með rifjárni (eða ef þið eigið matvinnsluvél sem er með svoleiðis). Ef hvorugt er til staðar er líka hægt að saxa þær smátt.

2. Setjið smá olíu í botninn á eldföstu móti og leggið sætu kartöflurnar þar í

3. Blandið hunangi og balsamgljáanum saman í skál og hellið yfir kartöflurnar. Blandið því vel saman við kartöflurnar.

4. Saxið rauðlaukinn smátt og dreifið yfir kartöflurnar

5. Færið fatið inn í ofn og bakið við 175 gráður í 30-45 mínútur. Verið dugleg að hræra í þeim.

Kjúklingurinn

3 – 4 kjúklingabringur

1 ½ dl möndlur án hýðis

2 dl kókosflögur

¼ tsk milt karrýduft

2 egg Smá salt og pipar

olía til steikingar

Aðferð

1. Pískið eggin í skál.

2. Setjið möndlur, kókosflögur, karrýduft, salt og pipar í matvinnsluvél og mixið í duft.  Færið í aðra skál.

3. Skerið bringurnar í strimla (einnig hægt að nota lundir)

4. Veltið kjúklingnum upp úr eggjunum og síðan upp úr karrýblöndunni.

5. Setjið olíu á pönnu. Pannan á að vera vel heit þegar kjúklingurinn fer á.

6. Lokið kjúklingnum með því að steikja hann létt á hvorri hlið

7. Færið kjúklinginn í eldfast mót og bakið við 175  gráður í 15 mínútur

Berið kjúklinginn fram ásamt sætkartöflusalati og grænmeti. Mér finnst voða gott að hafa smá hýðishrísgrjón með en það er að sjálfsögðu alveg valkvætt. Flott að dreifa smá steinselju og kókosflögum yfir. Það setur punktinn yfir I-ið!

 

Höfundur: Birna Varðar.

birna

 

SHARE