Landsbyggðahrokinn – Stormviðvörun

Ég er alin upp úti á landi, í einni afskekktustu sveit landsins. Ég fór á litlum bát, þessum á myndinni hér fyrir ofan, í skólann og ég og bróðir minn þurftum að klæða okkur í þykkustu fötin okkar. Mamma setti ermarnar utan um vettlingana, renndi alveg upp hjá okkur, setti trefil utan um og ullarsokkarnir voru auðvitað alltaf á fótunum. Svo var arkað niður á bryggju, við systkinin áttum alveg eins töskur með fötunum okkar, sem mamma og pabbi héldu á og svo vorum við Héðinn bróðir með skólatöskur á bakinu.

Á þessum tíma var ekkert internet og ekki hægt að uppfæra veðurspá á hverri mínútu, heldur þurfti að horfa á veðurspá í seinni fréttum, kvöldið áður og svo hlusta á veðurspá í útvarpinu um morguninn fyrir brottför.

Sjá einnig: „Ekki segja neinum að ég hafi grátið“

Stundum var veðurspáin alveg frábær og ekkert að óttast. Stundum gat hún verið þannig að það átti að bresta á með leiðindum um miðjan daginn og þá þurftum við að leggja af stað á hárréttum tíma. Við þurftum að ná að sigla út á Gjögur, sem er að mig minnir rúmur klukkutími, og svo þurftu mamma og pabbi að ná að sigla heim.

Þarna voru heldur ekki neinir farsímar. Það þurfti því að láta vita af okkur, áður en við lögðum af stað niður á bryggju, svo heimamenn á Gjögri gætu fylgst með okkur. Þegar við nálguðumst komu svo yfirleitt Adolf á Gjögri og Bibbi á Víganesi og tóku á móti okkur og farangrinum. Stundum var svo mikið brim við bryggjuna að ómögulegt var að leggja bátnum við bryggju. Þá þurfti að kasta töskunum upp og koma okkur svo upp á bryggjuna með allskyns brögðum. Það kom líka fyrir að við þurftum bara að sigla heim.

Þegar fram liðu stundir eignuðumst við snjósleða til að fara á, í skólann. Þar tóku við aðrar hindranir. Óvæntir snjóstormar, snjóblinda, hengjur og við veltum líka nokkrum sinnum. Stundum þurftum við að stoppa sleðann og bíða af okkur storminn. Stormurinn getur nefnilega orðið það dimmur að þú sérð bara hvítt allsstaðar og þá er ekki að spyrja að leikslokum ef þú heldur áfram að keyra snjósleðanum. Pabbi átti alltaf súkkulaði undir sætinu á sleðanum sem við vissum af og átti að vera notað í neyð. Það kom aldrei til þess að við yrðum svöng en það var gott að vita af því. Yfirleitt gengu élin fljótt yfir, svona þannig séð og þá var hægt að halda áfram. Foreldrar mínir byrjuðu alltaf á því þegar fyrsti snjórinn kom að stika leiðina sem við fórum yfir fjallið með bambusstöngum sem voru með skærappelsínugulum flöggum. Það var gert öryggisins vegna og hjálpaði okkur mjög mikið á ferðum okkar í hvítu blindunni.

Ég viðurkenni það alveg að ég var oft alveg svakalega hrædd í þessum ferðum okkar, bæði á bátnum og snjósleðanum. Mamma og pabbi voru klettarnir, þau komu okkur alltaf ómeiddum og ósködduðum á leiðarenda. Við komum í skólann, með eplakinnar og hlýja kroppa. Hengdum fötin upp á hlýjum stað, hittum vini okkar og byrjuðum viku af skólasókn.

Sjá einnig: Ég átti yndislega vinkonu

Ég hef oft fengið að heyra að ég sé með „landsbyggðahroka“ þegar ég er ekki alveg sammála því að það sé ekki ferðaveður. Ég sé bara ekki það sama í veðrinu og margir sem ólust ekki upp við sömu aðstæður og við fjölskyldan. Við höfum séð allskonar veður og virðum náttúruna. Við vitum okkar takmörk.

Ég keyrði í vinnuna í morgun og stoppaði í ónefndri verslun í borginni. Ég rölti inn og þegar ég kom inn var þar eldri maður sem kallaði upp yfir sig „Rosalega ertu dugleg!“. Ég varð bara vandræðaleg og feimin og sagði „Ég?“
Hann svaraði: „Já þú, að keyra í svona vondu veðri.“ 
Ég brosti bara til hans og sagði „jáá þú meinar það, þetta er allt í lagi. Þetta er aðallega spurningin um að komast út í bíl og inn á staði sem ég er að fara á. Og auðvitað að fara varlega í umferðinni.“ 
Maðurinn samsinnti því alveg. Ég útskýrði ekkert meira fyrir honum. Ætlaði ekki að fara að segja honum ævisögu mína, hvernig ég hefði lifað af á lítilli trillu í ólgusjó, eða hvernig við kúrðum okkur upp að sleðanum á meðan stormurinn gekk yfir uppi á fjalli. Það hefði tekið of langan tíma.

Ég ber virðingu fyrir náttúrunni. Ég er ekki hrædd við veðrið en ég veit að það getur verið óútreiknanlegt. Fólk á ekki að fara út ef veðrið hræðir það. Það er líka stór munur á að hlaupa 30 skref útí bíl og 30 skref úr bílnum í næsta húsaskjól og að vera að vinna úti í svona veðri. Það er auðvitað bara hættulegt. Ef ég fer í vinnuna í þessu veðri þá er það bara af því að mig langar það. Það þýðir ekki að ég sé að gera lítið úr þessu veðri eða því fólki sem kýs að vera heima.

Góðar stundir <3

SHARE