Láttu þér líða vel

Það eru engar nýjar fréttir að konur með barni verða að næra sig vel. Hins vegar getur það reynst snúið enda langar sumar konur bara að borða franskar kartöflur með kokteilsósu eða ösku þennan sérstaka tíma sem barn vex og þroskast inni í þeim.

Sumar konur hugsa sér gott til glóðarinnar og byrja að „borða fyrir tvo“, þegar að því kemur að hýsa splunkunýja mannveru. Það er hins vegar ekki gott og í rauninni óþarfa græðgi. Vissulega þurfa konur að auka inntöku hitaeininga en nærri lagi væri að segja að konur séu að „borða fyrir 1 og 1/5“ – þar sem einungis þarf að borða um það bil 300 hitaeiningum meira á dag en vanalega meðan meðgöngu stendur.

Ef þig grípur óseðjandi löngun til að borða mold, krít, leir, ösku, steypuryk eða annað sem ekki er matur, ekki láta eftir þeim hvötum. Löngunin gæti bent til þess að þig skorti einhver næringarefni sem hægt er að kippa í liðinn án þess að innbyrða eitthvað sem seint gæti talist fæðutegund.

Sjá einnig: Vímuefni og meðganga

Það er því miður ansi algengt að konur upplifi óbærilega vanlíðan vegna ógleði, aðallega fyrstu vikur meðgöngunnar. Mörgum konum reynist vel að hafa kex, saltstangir eða morgunkorn við höndina á náttborðinu og grípa í við fyrsta hanagal. Þurrt nasl virðist virka til að slá á einkennin. Best er að forðast mjög feitan mat, djúpsteiktan og mikið kryddaðan á þessu stigi málsins, slíkur matur gerir ekkert annað en að ýta undir ógleðina.

Margar konur þjást af harðlífi á meðgöngu og þá er ekkert annað að gera en að borða nóg af trefjum, drekka 6-8 glös af vatni á dag og fara í göngutúra. Talið við ljósmóður eða lækni ef harðlífið ágerist. Athugið að ef þér hefur verið ráðlagt að taka járn á meðgöngunni þá getur það haft mjög slæm áhrif á hægðirnar. Ráðfærið ykkur við lyfjafræðing eða starfsfólk apóteksins hvaða járn er best að taka í þessu ástandi.

Sumar konur fá niðurgang á meðgöngunni sem einnig er afar hvimleitt. Stemmandi matur getur hjálpað til eins og bananar, hvít hrísgrjón og hafragrautur. Brjóstsviði er annað leiðindaástand sem fylgir þessum tíma, sér í lagi þegar líður á meðgönguna. Þá er bara að hafa Rennie til taks, reyna að borða margar litlar máltíðir yfir daginn og takmarka koffeindrykki, kryddaðan mat og sítrusávexti.

Það er langsamlega heillavænlegast að sleppa öllu áfengi á meðgöngu sem og sígarettum og harðari ávanabindandi efnum. Sem betur fer þarf vanalega ekki að brýna þetta fyrir vanfærum konum en það er þetta með góðu vísuna sem sjaldan er oft kveðin og allt það.

Hvað sem öllu líður er skynsemin er afar gott tól þegar kemur að öllu því sem snýr að meðgöngunni, ekki bara næringu. Slappa af og njóta, er það ekki bara málið?

Heimildir: Fréttatíminn

SHARE