Madonna gefur fyrirvaralaust út sex ný lög á iTunes

Madonna, sem er i óða önn að leggja lokahönd á þrettándu breiðskifu sína sem gefin verður út á næsta ári, brást ókvæða við á samskiptamiðlum í síðustu viku þegar óprúttnir láku einum sex bútum af ófullgerðum lögum poppdívunnar.

Svo harðorð var söngkonan í garð þeirra sem láku tónlistarbútunum að hún sagði lekann jafngilda listrænni nauðgun eða hryðjuverk í heimi tónlistar og uppskar harða gagnrýni fyrir vikið.

Nú hefur hún snúið vörn í sókn og gefið út fyrirvaralausa og snemmbæra jólagjöf fyrir aðdáendur hennar, sem eflaust eru í skýjunum en á iTunes er nú að finna öll lögin sem eru sjóðheit úr hljóðveri og verður að finna á nýju breiðskífunni, Rebel Heart, sem kemur formlega út þann 10 mars nk.

Rebel Heart er fyrsta breiðskífa Madonnu sem er orðin 56 ára gömul, síðan árið 2012 en þá gaf söngkonan út breiðskífuna MDNA sem náði gífurlegum vinsældum. Í opinberri yfirlýsingu sem Madonna sendi fjölmiðlum vestanhafs kemur fram að lekinn hafi valdið henni talsverðum vonbrigðum og raskað útgáfuáætlunum:

Ég batt vonir við að gefa út lagið Living For Love sem smáskífu á Valentísardag í febrúar nk. og hafði sett miðið á að breiðskífan kæmi formlega út með vorinu. Ég vil ekki að ófullgerðir lagabútar leki til aðdáenda minna og vil gjarna að lögin séu fullgerð þegar þau komast í umferð á netinu. En það var ekki við ráðið og því má segja að þessi sex lög sem ég gef út núna og fáanleg eru gegnum iTunes séu snemmbúin jólagjöf frá mér til aðdáenda minna.  

Aðdáendur Madonnu geta hlaðið niður lögunum sem áður sagði gegnum iTunes, en ásamt laginu Living For Love (sem má heyra hér að neðan í hljóðútgáfu) má einnig finna eftirfarandi lög:

Devil Pray, Ghosttown, Unapologetic Bitch, Illuminati og Bitch I’m Madonna en síðastnefnda lagið tók Madonna upp ásamt rappdívunni Nicki Minaj. Hér má aftur á móti hlýða á snemmbúna jólagjöf Madonnu til aðdáenda, lagið Living For Love í hljóðútgáfu, sem var gefið út á YouTube fyrir rúmum sólarhring síðan:

Tengdar greinar:

Fáklædd Madonna (56) í fantaformi kynnir vorlínu Versace fyrir 2015

Madonna berar á sér brjóstin í nýju viðtali

Madonna er djörf í nýjasta Harper´s Bazaar. Nauðgað þegar hún flutti til New York!

SHARE