„Nú geta jólin komið í alvöru”

Ein er sú jólasaga sem er í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Undanfarna fjóra sunnudaga höfum við fjallað um kertin fjögur á aðventukransinum, heiti þeirra og merkingu. Stiklað á stóru um eðli aðventunnar og merkingu hugtaksins. En ein er sú aðventusaga sem enn er ósögð; hún er þýsk að uppruna en höfundur hennar er ókunnur.

Söguna er einnig að finna á Vísindavefnum þar sem fjallað er um eðli aðventunnar, en þar kemur fram að Pétur Björgvin Þorsteinsson hafi snarað sögunni yfir og heimfært upp á íslensku.

Sagan er á þessa leið:

Það var búið að kveikja á öllum fjórum kertunum á aðventukransinum. Í kringum þau ríkti þögn. Ef einhver hefði verið nálægur þá hefði hann heyrt kertin tala saman.

Fyrsta kertið andvarpaði og sagði: „Ég er friðarkerti. Ljós mitt lýsir en fólkið býr ekki í friði hvert við annað. Fólkinu er alveg sama um mig!“ Ljósið á fyrsta kertinu varð minna og minna þangað til það slokknaði alveg.

Annað kertið flökti og sagði: „Ég heiti trú. En ég er alveg óþarfi. Fólkinu er alveg sama um Guð, það vill ekkert af honum vita. Það hefur engan tilgang að það sé ljós á mér.“ Krafturinn í kertinu sem nefndi sig trú var þrotinn. Lítill trekkur dugði til. Ljósið slokknaði.

Með lágri, dapurri röddu tók þriðja kertið til máls: „Ég heiti kærleikur. En ég hef enga orku til þess að láta ljós mitt skína. Fólkið er búið að ýta mér til hliðar. Það sér bara sig sjálft og ekki náungann sem þarf á kærleikanum að halda.“ Að þessum orðum mæltum slokknaði á þriðja kertinu.

Lítið barn kom inn í herbergið þar sem aðventukransinn stóð á borðinu. Með tárin í augunum sagði það: „Mér finnst ekki gaman þegar það er slökkt á ykkur.“

Þá svaraði fjórða kertið: „Ekki vera hrætt, kæra barn. Meðan ljós er á mér getum við kveikt á hinum kertunum. Ég heiti von.“ Það var gleðisvipur á andliti barnsins þegar það notaði ljósið af vonarkertinu til þess að kveikja á kærleikskertinu, trúarkertinu og friðarkertinu. Að því loknu sagði barnið eins og við sjálft sig: „Nú geta jólin komið í alvöru.”

Heimild. Vísindavefurinn

Tengdar greinar:

Fyrsti í aðventu: Í dag tendra Íslendingar á Spádómskertinu

Annar í aðventu: Í dag tendrum við á Betlehemskertinu

Þriðji í aðventu: Í dag kveikjum við á Hirðakertinu

Fjórði í aðventu: Í dag kveikja Íslendingar á Englakertinu

SHARE