Of feit!

Ég get ekki orða bundist yfir þessari flottu stelpu sem hún Arna Ýr er. Hún er rétt rúmlega tvítug og með sjálfstraust og sjálfsvirðingu sem, því miður, alltof fáar stúlkur eru með á þessum aldri. Hún er kölluð feit af þeim sem vinna við að láta konur keppa í fegurð. FEIT! Það er náttúrulega ekkert feitt á henni Örnu og er hún með stórglæsilegan líkama og ég efast um að fituprósentan hennar sé mjög há. Hún er með vöðva en ég get ekki séð að þessi unga stúlka sé feit eða hafi nokkurn tímann verið það. Hef heyrt að hún hafi verið í íþróttum alla tíð og hefur ekki haft mikinn tíma til að safna á sig fitu held ég.

Ef ég notaði hatt, tæki ég hann ofan fyrir Örnu. Húrra fyrir þér og húrra fyrir því góða fordæmi sem þú ert að sýna öðrum ungum stúlkum sem eru að keppast við að elska sig sjálfar. Það eru þrjár ungar stelpur á heimilinu mínu og mér finnst æðislegt að þær hafi þig til að líta upp til.

Sjá einnig: „Ekki segja neinum að ég hafi grátið“

Ef ég á að vera alveg hreinskilin við ykkur lesendur góðir get ég alveg sagt ykkur, af heilum hug, að ég hefði ekki haft styrkinn til að bregðast við eins og Arna. Þegar ég var rúmlega tvítug var sjálfstraust mitt ekki upp á marga fiska og ef ég hefði verið í hennar sporum og fengið svona athugasemdir, hefði það brotið mig niður. Ég hefði pottþétt grátið, svo orðið reið og hugsað: „Djöfu** skal ég sýna þeim!!“Ég hefði örugglega svelt mig fram að keppni svo ég gæti allavega verið nógu tekin í framan og nógu veikluleg svo þessir mannapar myndu dást að beinabyggingunni minni. Ég hefði svo farið heim til Íslands, brotin, niðurlægð, svöng og með kolranga hugmynd um það hvernig ég „ætti“ að vera. Ég vann ekki svo það hlýtur að þýða að ég hafi verið ALLTOF FEIT. Drakk bara vatn í flugvélinni og brosi svo, fölsku brosi á flugvellinum og segi „já þetta var frábær reynsla og ég er þakklát fyrir að hafa verið með í þessu,“  örugglega með það bakvið eyrað að nú tæki við mikil og ströng megrun til að ég héldi nú ekki áfram að vera feita stelpan í keppninni.  Einmitt!

Nei ég er mjög glöð að stúlkur séu til sem geta sýnt þennan styrk og sagt þessum aðilum að fara norður og niður. Svo heldur þessi Yggdrasill (Nawat Itsaragrisil) áfram í fjölmiðlum og segir að Arna hafi litið út fyrir að vera „grennri og fallegri“ á myndunum en hún var í raun og veru. Í alvöru, vill einhver taka skófluna af þessum manni og rétta honum spegil!

Áfram Arna Ýr!

 

Mynd: Skjáskot Instagram

SHARE