Á laugardaginn koma fjölskyldur saman í einstakri náttúru Öskjuhlíðar. Farið verður í klettasig, rathlaup, skylmingar, upplifunarleiðangur, náttúrubingó, yoga, læra að tálga eða fræðast um fugla. Dr.Bike verður á svæðinu og í lokin verður boðið upp á slökun og hugleiðslu. Þetta er skemmtileg leið til að njóta samveru með fjölskyldunni í faðmi náttúrunnar og kjörið að láta börnin sleppa tölvunum og öðru slíku. Þið munuð ekki sjá eftir þessu.

11149571_384599858397125_4870217460425379741_n

Það má með sanni segja að náttúran gefur okkur ró, kraft og heilsu.

Meira um Fjölskyldudaginn hér:

Við hvetjum gesti til að koma hjólandi eða gangandi en einnig verða næg bílastæði við Perluna.

Það gæti komið sér vel að taka með teppi og nesti, vera í góðum skóm og klæða sig eftir veðri

Allir eru hjartanlega velkomnir og ókeypis á alla viðburði.

Klettasig Skátafélagið Landnemar í samstarfi við Klifurhúsið mun bjóða þátttakendum upp á reyna sig í sigi í tankagryfjunum vestast í Öskjuhlíðinni.

Náttúrujógaleikhús Styrktarfélagið Jógahjartað stendur fyrir jógaleiksýningu þar sem allir geta tekið þátt í ævintýri um skínandi bjartan blómálf og elskulegan en örlítið ráðvilltan skógarálf. Sýningin stendur yfir í 30 mínútur og eina sem þarf er góða skapið, opið hjarta og mjúk og þægileg föt sem gott er að hreyfa sig í. Einnig er bara hægt að horfa og hafa gaman af. Ekkert aldurstakmark.

Rathlaupafélagið Hekla býður gestum í rathlaup. Þátttakendur fá kort af hlaupasvæðinu og nota það til að fara á milli stöðva sem merktar eru á kortið. Hver og einn byrjar þegar honum hentar og reynir að komast á milli staða á sem stystum tíma. Upplagt fyrir fjölskylduna að leysa þrautina saman en brautin er um 2 kílómetrar og kerrufær ef lítil börn eru með í för.

Skylmingar og spunaspil býður upp á skylmingar þar sem barist verður með vopnum sem sniðin eru að spunaleik sem nefnist Live Action Roleplaying, oft þekkt sem LARP. Þátttakendur á öllum aldri fara í hlutverk og bregðst við mismunandi aðstæðum og öðrum þátttakendum. Þannig myndast skemmtileg saga í rauntíma í gegnum lifandi leiklist. Allir fá að prófa vopn og hitta nokkra meðlimi LARP leikhópsins og spyrja þá spjörunum úr.

Örnámskeið í tálgun fyrir foreldra og börn. Guðrún Gísladóttir smíðakennari kennir tálgun með lokuðu hnífsblaði. Hnífar og efni á staðnum.

Dr. Bæk býður upp ástandsskoðun hjóla sem felur í sér
létta yfirferð, smurningu, pumpað í dekk og aðrar smáviðgerðir.Ef tími gefst til er hægt að skipta um bremsupúða (1500 kr.) og slöngur (2000 kr.) ef þarf, en það kostar aukalega. Skoðunin er hinsvegar auðvitað ókeypis. Auk þess getur doktorinn svarað spurningum og spjallað um hjólreiðar og annað, í raun um allt á milli himins og jarðar.

Ferðafélag barnanna verður með leiðangur þar sem fjölskyldunni er boðið í stutta gönguferð. Ferðafélag barnanna er hluti af Ferðafélagi Íslands og býður upp á fjölda ferða á hverju ári, bæði ókeypis styttri ferðir svo sem grasaferðir, hellaferðir og kræklingaferðir en líka lengri gönguferðir til dæmis um Kjalveg, Kerlingafjöll og Laugaveginn. Markmið Ferðafélags barnanna er að hvetja börn og foreldra til samveru í náttúru Íslands til að upplifa útivistargleði og kynnast leyndardómum náttúrunnar.www.ferdafelagbarnanna.is

Fuglavernd býður upp á leiðsögn í fuglaskoðun. Farið verður yfir hvað er spennandi og skemmtilegt við að skoða fugla, hvernig best sé að fara að og jafnframt sagt frá helstu fuglum sem halda til í Öskjuhlíðinni og víðar. Gengið verður um skóginn og sjón og heyrn virkjuð við að finna fuglana. Upplagt er að taka með sér sjónauka, blað og blýant, einnig er gott að vera í góðum skóm til göngu og klæða sig eftir veðri. Ásgerður Einarsdóttir, leiðsögumaður og stjórnarmeðlimur í Fuglavernd, leiðir fræðslugönguna.

Færni til framtíðar
Sabína Steinunn eigandi verður með skemmtilegt Náttúrubingó sem öll fjölskyldan getur tekið þátt í. Hér er kjörið að fara með barnunu sínu í leik og upplifa í leiðinni barnið í sjálfum sér.

Hugarfrelsi verður með skemmtilega samverustund fyrir alla fjölskylduna. Gerðar verða nokkrar jógaæfingar,
slökun og lesin hugleiðsla. Hugleiðslan er í ævintýrastíl og eiga börn og byrjendur auðvelt með að fylgja henni eftir. Aðferðirnar sem Hugarfrelsi kennir hvetur þig og barnið þitt til að sleppa taki af áreiti hversdagsins.

Ölgerðin býður gestum upp á vatn í flösku.

Skipuleggjendur hátíðinnar eru höfundar bókanna Útivist og afþreying fyrir börn (2012), Færni til framtíðar (2013) og Útilífsbók barnanna (2016): Lára G. Sigurðardóttir, Sigríður Arna Sigurðardóttir, Sabína St. Halldórsdóttir og Pálína Ósk Hraundal. Skipuleggjendur leggja fram sína vinnu ásamt forsvarsmönnum viðburða.

SHARE