Sérsniðin afmælisgjöf

Það hefur stundum verið sagt að andstæður eigi vel saman, og það er akkúrat þannig með mig og eina af mínu bestu vinkonum. Ekki misskilja mig, ég dýrka hana, en ég hreinlega skil ekki vísindaskálskap. En þegar ég sá þessa hugmynd fljótandi um á netinu að þá varð ég að grípa hana og gera svona handa henni. Ein af hennar uppáhalds bókum er nefnilega The hitchiker‘s guide to the galaxy. Þar verður jörðin fyrir árás geimvera en þökk sé hetjunni (sem ferðast út fyrir endimörk alheimsins með handklæði) að þá bjargast allt að lokun. Þetta handklæði er akkurat mjög mikilvægt, það er meira að segja haldinn alþjóðlegur dagur handklæðisins, 25. maí, en eins og ég sagði, ég skil ekki vísindaskáldskap.

Ok, kynningu lokið, byrjum á föndrinu.

Ég fann þennan þríviddar ramma í Fjölsmiðjunni, keypti þvotastykki, og svo átti ég málinguna og gardínuhringinn. Svo þurfti ég líka smá viðarbút til að halda hringnum uppi.

Ég byrjaði á því að fjarlægja bakið úr rammanum. Svo málaði ég rammann fyrst grænan, fór yfir með Crackle medium, og málaði svo allt svart, bakið líka. Viðarbútinn málaði ég grænan. Ég sprayjaði gardínuhringinn bronslitaðan og fjarlægði litla málmhringinn á honum (mjög auðvelt).

Svo var komið að því að setja allt saman. Ég byrjaði á því að líma litla viðarbútinn ofarlega fyrir miðu á bakið á rammanum. Svo klippti ég þvottastykkið í tvennt endilangt, þræddi það í gegnum gardínuhringinn og límdi svo hringinn á viðarbútinn. Svo var allt sett í rammann, erfiðara var þetta ekki.

Ég vildi hafa skilti á rammanum þannig að ég notaði merkjavélina mína og grænan borða til að skrifa „Notist einungis við árás utan úr geimnum“ og límdi það svo framann á rammann. Ég málaði nokkur prik (sem maður fær á kaffihúsum til að hræra í kaffinu) svört og bjó til ramma utan um merkjavélaborðann/skiltið og svo átti ég litla skrautsteina sem ég sprayjaði bronslitaða og festi í hornin (svona til að allt tónaði saman).

Þið sem eruð af sama þjóðflokki og ég, þessum sem skilur ekki vísindaskálskap, eruð ábyggilega eitt spurningamerki, en þið hin, ég er viss um að þið eruð farin út að leita ykkur að þrívíddarramma.

SHARE