Skapofsaköst/brjálæðisköst hjá börnum allt frá eins og hálfs árs aldri eru ósjálfráð viðbrögð þeirra oftast vegna pirrings. Pirringurinn getur stafað af því að barnið getur ekki klárað eitthvað verkefni sem það hafði hugsað sér að gera á eigin spítur. Að auki getur bæst við pirringur að barnið getur ekki tjáð sig þar sem það hefur ekki náð tökum á tungumáli sínu og er ekki með orðaforða til að tjá tilfinningar sínar með öðrum hætti. Þessi frekjuköst, eins og við mörg viljum kalla þetta eru algjörlega eðlileg viðbrögð, en þau minnka oftast um fjögurra ára aldurinn eða þegar þau hafa náð betri tökum á gjörðum sínum og mál og tjáninga þroskinn er orðinn betri.
Sem betur fer eru til leiðir til að ná tökum á þessum skapofsaköstum hjá börnum, ein leiðin er að ýta ekki undir hegðun barnsins með því að veita því athygli. Þarna er mikilvægt að missa ekki stjórn á skapi sínu því ef þú gerir það þá mun barnið fylgja á sömu braut. Best er að láta barnið alveg vera, ekki hlægja að því og ekki leyfa barninu að ná augnsambandi við þig. Bíddu eftir að barnið rói sig sjálft. Þetta gæti tekið langan tíma, fer eftir því hve mikil þrjóskan er. Með því að svelta barninu athygli þá ertu ekki að ýta undir hegðun þess, en þú ýtir undir hegðunina hvort sem þú veitir barninu góða athygli eða slæma, ef barnið fékk þína athygli þá man það eftir því næst þegar það lendir í sömu aðstæðum og fer að sjálfsögðu sömu leið til að fá athyglina. Því jú einhver athygli er betri en engin þó hún sé í formi skammyrða.
Til að kenna barninu að tjá tilfinningar sínar er gott að útskýra í orðum hvað það var sem pirraði barnið, kenna því að koma orði á það sem það upplifði í kastinu. Mikilvægt er að þetta gerist þegar allir eru rólegir svo barnið upplifi ekki að þú sért að skamma það á þeim tímapunkti. Svo er alltaf gott að enda á því að gera barninu ljóst hve mikils virði það er í þínum augum.
Ég sem foreldri tveggja barna hef reynt að tileinka mér þetta í uppeldinu og hef komist að því að það er auðveldara að segja þetta en að standa við þetta. Að veita barninu enga athygli og leyfa því að gráta getur tekið á þolrifin því það er ótrúlegt hvað sumir geta verið þrjóskir, en þarna er mikilvægt að foreldrið sé þrjóskara og haldi ró sinni.
Það var þess virði að taka þessa baráttu því þegar þau komast að því að ekki sé hægt að spila á foreldrana þá hætta þau þessu fljótt.
~~~
Fylgist með Mömmunni á næstunni en hún mun skrifa reglulega hjá okkur hér á Hún.is um uppeldi og fleira tengt börnunum.
Tengdar greinar:
Nafnaval – Nafn barnsins er ákvörðun foreldranna!
Nokkrar pottþéttar leiðir til að klúðra uppeldinu
Þolinmóðasti faðir heims gefur út nýtt uppeldismyndband
Er til hin eina rétta uppeldisaðferð? – Áhugaverðir þættir um mismunandi uppeldisaðferðir
Mamman er búsett í úthverfi höfuðborgarsvæðissins ásamt eiginmanni og tveimur hressum og heilbrigðum börnum. Mamman mun skrifa um ýmislegt sem við kemur börnum, s.s. uppeldi, hreyfingu, matarvenjur og fleira