„Það er ekki ferðalagið heldur forleikurinn sem heillar”

Ég skrapp til Íslands um daginn. Laumaðist inn á vefsíðu Icelandair, festi kaup á miða og ákvað brottfarardag. Ægilega laumuleg á svip. Ég kem ekki oft til landsins. Þvert á móti. Hér lúri ég, vandlega geymd í útlandinu og reyni að fara lítið fara fyrir mér.

En svo er það heimþráin. Hún hellist yfir mig öðru hverju. Auðvitað er ég á kafi í verkefnum hér ytra og þykir doldið gaman að segja frá. Bæti stundum í og gerist taugaveikluð í síma þegar vinir mínir hringja. Mæli í fjölbreytilegum tóntegundum og tala ógurlega hratt.

Það er eitthvað við annasemina sem mér finnst svo sjarmerandi. Að vera önnum kafin er eitthvað svo íslenskt. Mikilvægt og málefnalegt. Svo ég reyni iðulega að hafa nóg fyrir stafni, jafnvel þó einu verkefnin sem fyrir liggja snúist um að smella í þvottavél þegar rökkva tekur, rita eins og lítinn pistil og taka svo til óspilltra málana við uppvaskið.

Ég er jú í tveimur störfum og bý einsömul með barni; það hlýtur að telja eitthvað.

Svo ekki er allt logið sem gerist í útlandinu.

Alla vega. Mér finnst ægilega töff að fara í leyniferðir. Finnst það pínu duló og auka á mikilvægi ferðarinnar. Þá festi ég jafnvel kaup á flugmiða, segi engum frá og legg svo grunn að vitleysunni. Um daginn fór ég í eina svona ferð. Þá ákvað ég að fara tíl Spánar. Sú ferð tók sólarhring. Sagði engum frá, birti fáar myndir en deildi dulúðug á svip, völdum orðum á Facebook síðu minni.

Tók svo andköf þegar athugasemdir tóku að berast mér og horfði umburðarlynd á lækin hrannast inn.

Ég á ströndinni. Með vinkonu. Að borða pizzu. Í strigaskóm og stuttbuxum. Alsæl á svip.

Hvað gerist svo í útlöndum er annað mál. Það er ekki ferðalagið sjálft sem spilar stærstu rulluna. Heldur forleikurinn. Leitin að vegabréfinu. Síðasta þvottavélin. Maskarinn sem gleymdist. Snýtingar og ærslagangur, snemmbúnar SMS meldingar, óttinn við að missa af flugvallarlestinni og svo sú staðreynd að barninu á eftir að koma í pössun.

Þetta upplifði ég aldrei meðan ég bjó á Íslandi. Enda svo stutt út á Keflavíkurflugvöll. En nú þegar ég hef flutt mig um set; bý á meginlandinu þar sem gnægt matvöruverslanna, ferðamálaskrifstofa og fólksmergð er að finna, líður mér alltaf pínulítið svona þegar ég undirbý leyniferðir til útlanda sem taka að hámarki 48 tíma.

Ferðin til Spánar, sem tók heila 24 tíma, var voða skemmtileg. Svo skemmtileg reyndar, að ég laumaðist sumsé inn á vefsiðu Icelandair og festi á öðrum flugmiða. Til Reykjavíkur. Gætti mín vandlega á að deila engum upplýsingum um ferðatilhögun fyrr en stundin rann upp og stillti mér hátíðlega upp á útitröppunum þar sem ég smellti af sjálfsmynd. Alein og hátíðleg á svip.

Laster inn

And so the journey begins #heylittletraveller #theicelanderdeparts #lethegoodtimesroll

Vis på Instagram

Megi Guð vera ykkur náðugur ef ferðum okkar lendir einhverju sinni saman á leið minni til flugvallar. Næsta víst er að ég verði með heyrnartól í eyrum og ef grannt er gáð, er ég nokkuð sannfærð um að heyra megi sigurlög úr fjarska.

Það er nefnilega ekki ferðalagið sjálft sem á huga minn; heldur forleikurinn að flugferðinni sem heillar mest.

„Rétt upp hend” sem spila svona lög á leið út á flugvöll! 

SHARE