Þjáist enn af fæðingarþunglyndi ári eftir fæðingu

Leikkona Mena Suvari (43) sem gerði garðinn frægan í kvikmyndinni American beauty, hefur sagt frá því að hún sé að takast á við fæðingarþunglyndi „alla daga“ eftir að hafa eignast son fyrir meira en ári síðan.

Í nýlegum þætti af Rachel Bilson’s „Broad Ideas“ podcast, sagði Mena að hún væri orðin þreytt á að sykurhúða þau áhrif sem móðurhlutverkið hefur haft á geðheilsu hennar.

„Ég tekst á við fæðingarþunglyndi alla daga. Ég er að fara að láta skoða hormónana hjá mér í næsta mánuði, svo já, þetta er mjög raunverulegt. Ég tekst á við þetta alla daga.“

Mena sem eignaðist soninn Christopher í apríl 2021 með eiginmanni sínum Michael Hope, sagði jafnframt: „Það er allt í lagi að hafa þessar tilfinningar, sama hvernig stöðu þú ert í.“

Hún segir að stærsta áskorunin sem hún hafi tekist á við hafi verið að „koma sér út úr húsi“ og eiga tíma fyrir sjálfa sig.

„Ég man eftir að sitja á svölunum hjá mér og segja „ég verð að koma mér út úr húsi, ég verð að komast út úr húsi“ og maðurinn minn sagði: „Þú getur gert það. Þú getur farið í göngutúr“ en mér fannst ég ekki geta það.“ Hún man líka eftir að hafa liðið eins og hún væri „að verða geðveik“ eftir fæðinguna.

Þrátt fyrir að óska þess að hún hefði ekki þessar tilfinningar, segir Mena að það hafi valdið henni miklum kvíða og stressi að „fæðingaráætlunin“ hennar gekk ekki upp. Hún endaði á því að þurfa að fara í keisara eftir að hafa verið með hríðir í 48 tíma. „Við sem mæður, eigum rétt á því að finna til þessara tilfinninga og þó ég hafi eignast fallegt barn sem var fullkomlega heilbrigt, ætti dásamlegan eiginmann og við komin heim af spítalanum, leið mér samt smá illa yfir því að hafa ekki getað fætt barnið.“

Mena, sem hefur áður sagt frá reynslu sinni af kynferðislegri misnotkun og fíkniefnanotkun, sagði frá því fyrst í People að hún væri ófrísk: „Þetta er enn að renna upp fyrir mér að eitthvað svona fallegt gæti komið fyrir mig. Þetta er mjög tilfinningaþrungin reynsla.“


SHARE