Þjóðarsál: „Áttar fólk sig ekki á því að maðurinn á fjölskyldu?”

ATH. Þessi grein er aðsend. Í Þjóðarsálinni getur fólk sent inn greinar, nafnlaust. Skoðanir sem að birtast í innsendu efni endurspegla ekki skoðanir Hún.is

————————

Að gefnu tilefni langar mig að setjast niður og skrifa smá pistil.

Eins og flestir Íslendingar vita, er mikil umfjöllun í gangi þessa dagana um meint kynferðisbrot gegn ungri stúlku. Ég ætla að taka það strax fram að ég er ekki að taka afstöðu með einum eða neinum, ég hef lítið sem ekkert kynnt mér þetta mál og því tel ég mig ekki hæfa til að taka afstöðu.

En það sem mig langaði að skrifa um er það sem beið mín í morgun þegar ég settist í rólegheitum framan við tölvuna mína. Facebook fréttaveitan mín gjörsamlega logaði. Fleiri, fleiri manns voru að deila fréttum; bæði sem stúlkan hafði skrifað og einnig frétt sem lögfræðingur meints afbrotamanns hafði sent frá sér.

Það sem fólk skrifaði við fréttirnar stakk mig verulega. Ekki bara í augun heldur í hjartað líka. Eftir að hafa lesið dauðaóskir, líkamsmeiðingahótanir og fleira álíka ógeðfellt féllust mér hendur.

Áttar fólk sig ekki á því að maðurinn á fjölskyldu? Að hann á bræður, systur, eiginkonu, börn og barnabörn sem eru algjörlega saklaus í þessu máli?

Ég veit það fyrir víst að ef ég gæti ekki farið á samfélagsmiðlana öðruvísi en að sjá færslur þar sem væri verið að óska systkinum mínum eða foreldrum dauða myndi það láta mér líða óskaplega illa.

Áttið þið ykkur ekki á því að þið eruð að særa svo ótrúlega marga sem eiga það ekki skilið?

Mér finnst líklega að hinn meinti afbrotamaður láti það algjörlega eiga sig að fylgjast með fréttaflutningi af þessu máli, svo ég skil ekki hvað fólk er að reyna að uppskera með því að birta svona umsagnir.

Og hvað með barnabörnin hans til dæmis?

Eiga þau ekki að geta farið á netið öðruvísi en að upplifa sorg og depurð?

Ég er ekki að segja að fólk megi ekki hafa skoðanir, því ég er mjög fylgjandi því að fólk hafi sínar eigin skoðanir og standi með sjálfum sér. Það sem ég er einfaldlega að biðja um, er að þið hugsið ykkur aðeins um. Hvað þið eruð að setja á veraldarvefinn og hverja þið eruð að særa með því sem þið skrifið.

Aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Að þessu loknu vil ég senda ykkur öllum hugheilar óskir um ánægjulega daga og vona að fólk staldri aðeins við og hugsi um hvað það skrifar og segir.

Tengdar greinar:

Til konunnar í símanum í umferðinni! – Þjóðarsál

Þunglynt fólk eru bestu leikarar lífsins – Þjóðarsál

Hann hætti bara að svara mér – Þjóðarsálin

SHARE