Björg Pétursdóttir skrifar þessa  reynslusögu sína af einelti á Facebook síðu sinni.

 

Einelti getur drepið

Þetta er því miður staðreynd. Ellefu ára gamall strákur svipti sig lífi vegna þess að hann hafði orðið fyrir hræðilegu einelti. Þetta er mjög sorglegt og eiginlega er ótrúlegt að þetta skuli gerast enn þann dag í dag, eftir alla fræðsluna sem verið hefur í skólum landsins undanfarin ár.

Börnum á að líða vel í skólanum. Þau þurfa að sækja hann fimm daga vikunnar og vera þar jafnvel  hátt í sex til sjö tíma yfir daginn. Skólinn á að vera skemmtilegur og gagnlegur og börn eiga að hlakka til að mæta. En því miður er það ekki þannig hjá öllum.

Þegar ég var í skóla var einelti feimnismál og kennarar vildu lítið tala um það. Ég held að þeir hafi einfaldlega ekki vitað hvernig þeir ættu að ræða þetta alvarlega mál. Foreldrar mínir töluðu nokkrum sinnum við kennarana mína vegna eineltis sem ég varð fyrir, en ekki var brugðist við á neinn hátt.

Kölluð fituhlunkur og gleraugnaglámur

Saga mín, eins og svo margra annarra, hófst í grunnskólanum. Ég var mjög auðvelt fórnarlamb, frekar þéttvaxin, með þykk gleraugu og skakkar tennur. Ég var kölluð ýmsum ljótum nöfnum, eins og fituhlunkur, fituhlussa, fituklessa og gleraugnaglámur. Ég var elt heim úr skólanum, mér var hrint og og ég var lamin. Andlega ofbeldið skaðaði mig samt meira.

Fyrstu árin mín átti ég bara eina vinkonu, og hún var líka lögð í einelti.Við vorum álitnar miklar kennarasleikjur, þar sem við biðum yfirleitt eftir kennaranum okkar á kennarastofunni og leiddum hana inn í skólastofu eftir frímínútur. Ástæða þess var einfaldlega sú að við fengum engan frið utan skólastofunnar eða úti á leikvellinum. Þessi vinkona mín flutti svo þegar ég var níu eða tíu ára.

Mér var yfirleitt ekki boðið í nein afmæli utan skóla. Einu sinni bauð ég öllum bekknum í afmælið mitt til að reyna að gera eitthvað skemmtilegt. Ég vonaði líka að ástandið myndi lagast við þetta. En sú ósk rættist ekki. Einu gestirnir sem mættu voru fjórir strákar. Síðar frétti ég að einhver hefði látið boð út ganga og hvatt bekkjarsystkini mín til að mæta ekki. Strákarnir sem komu létu það sem vind um eyrun þjóta  og við áttum mjög skemmtilegt kvöld saman.

 Var skipað að fara í sleik við strák

Þegar ég var þrettán ára var mér boðið í fyrsta bekkjarpartýið mitt. Það var foreldralaust. Minningin um það er óljós. En ég man að mér var ýtt inn í herbergi til stráks sem var ári eldri en ég. Hann lá uppi í rúmi og mér var skipað að fara í sleik við hann. Ég hafði engan áhuga á því. Ég hafði aldrei kysst strák og þekkti þennan strák ekki. Ég vildi bara komast út. En þá var búið að læsa herberginu og fyrir utan stóðu krakkarnir skellihlæjandi. Mér leið mjög illa og brotnaði á endanum niður. Ég barði á hurðina og öskraði á krakkana og bað þá að hleypa mér út. Þó nokkur tími leið áður en dyrnar voru opnaðar. Ég hljóp grátandi heim.

Þetta atvik varð til þess að mamma og pabbi fengu nóg. Fram að þessu höfðu þau reynt að tala við kennarann minn en hann hafði lítið gert í málunum. Hann hafði minnst á þetta einu sinni við bekkinn og eftir það var ég kölluð klöguskjóða og kennarasleikja.

Ég hafði algjörlega lokað á þetta atvik en það rifjaðist upp fyrir mér á bekkjarmóti fyrir nokkrum árum þegar ein bekkjarsystir mín kom til mín og baðst afsökunar á því að hafa ekki gert neitt til að hjálpa mér. Eftir það fór ég að sofa illa og fékk slæmar martraðir. Ég fór að fara til sálfræðings til að vinna úr fortíðinni og það hjálpaði mér að horfast í augu við afleiðingar þessa slæma eineltis.

Fljótlega eftir fyrrnefnt partý ákvað fjölskylda mín að flytja og ég fór í annan skóla. Þetta átti að verða upphaf að betra lífi. En svo varð ekki. Eineltið hélt þar áfram. Ég var orðin nýtt fórnarlamb í nýjum skóla. Þarna kynntist ég reyndar yndislegri stelpu sem stóð með mér eins og hún gat. Eiginlega má segja að hún hafi tekið mig að sér, því að hún var vel metin í bekknum og enginn vogaði sér að gera henni neitt.

En þegar hún var ekki  í skólanum lenti ég illa í því. Nokkrum sinnum fann ég skóna mína útmigna í klósettinu, skólataskan mín var tekin og falin og fannst jafnvel í sturtunni, rusli var laumað innundir peysuna mína og ég fékk andstyggilegar bréfasendingar. Vorið sem ég kláraði níunda bekk tók ég verklegt próf í heimilisfræði. Það er kannski ekki frásögur færandi, nema vegna þess að bekkjarfélagi minn eyðilagði súpuna sem ég bjó til. Hann setti í hana sápu og kastaði svo óhreinni tusku framan í mig. Það fauk svo í mig að ég réðst á hann og hrinti honum. Hann rauk á mig til baka og kýldi mig í andlitið. Gleraugun hentust burt og skekktust og ég fékk kúlu og marblett á ennið.

Þessi strákur var forystusauðurinn í bekknum en auk hans voru nokkrar bekkjarsystur mínar líka virkilega orðljótar og kvikindislegar við mig. En fljótlega eftir þetta atvik skipti hann um skóla og eftir það var ég látin algjörlega í friði. Ég komst í gegnum tíunda bekkinn eins og hinir og fannst ég vera orðin ein úr bekknum. Það var góð tilfinning.

Hitti einn af þeim sem beittu hana einelti

Mig langar að geta þess hér að þessi strákur hafði nýlega samband við mig á Facebook og bað mig að hitta sig. Hann langaði til að biðja mig afsökunar áframkomu sinni á þessum tíma. Tilfinningarnar brutust út og ég fór að gráta við að lesa skilaboðin. Þau voru einlæg og falleg og komu greinilega frá hjartanu. Ég þurfti nokkra daga til að hugsa mig um og ákveða hvað ég ætti að gera. Eftir að hafa talað við góða vini komst ég að þeirri niðurstöðu að líklega væri gott fyrir okkur bæði að hittast. Við gerðum það og spjölluðum lengi saman. Hann bað mig innilega afsökunar og sagði mér hvað það væri sér mikils virði að ég skyldi fyrirgefa honum. Í dag erum við vinir á Facebook og spjöllum stundum saman um börnin okkar, lífið og tilveruna. Ég er mjög ánægð með að hafa farið og hitt hann og ég finn að það hjálpar mér að horfast í augu við fortíðina og takast á við hana.

Eftir grunnskóla fór ég í menntaskóla þar sem ég fann mig ekki almennilega. Ég eignaðist fyrsta kærastann minn sautján ára gömul og þá hélt eineltið í raun áfram. Ég var svo niðurbrotin eftir fyrri reynslu að mér fannst allt í lagi að hann skyldi slá mig utan undir oftar en einu sinni. Ég trúði því alltaf að það myndi ekki gerast aftur. Hann virtist taka allt fram yfir mig og ég sætti mig bara við það af því ég vissi ekki hvernig eðlilegt samband ætti að vera. Auðvitað áttum við líka góðar stundir saman. En það þurfti hálstak og hótun til að ég vaknaði upp við vondan draum og hætti þessu rugli.

Var lituð af reynslu sinni

Þegar ég var búin að berjast í gegnum fimm ár í menntaskóla gafst ég upp og fór að vinna í leikskóla. Það var að mörgu leyti mjög gefandi og skemmtilegt en þar fann ég fyrir afleiðingum eineltisins. Ég var alltaf í vörn og var enn í sárum eftir reynslu fyrri ára. Það þurfti bara að finna veika blettinn – og „búmm!“,  ég varð varnarlaus. Mér sárnaði mjög ef ekki var farið vel að mér og átti erfitt með að taka gagnrýni. Ég kunni það einfaldlega ekki og fann hvað það skipti miklu máli hvort hún var sett fram á jákvæðan eða neikvæðan hátt.

Þegar ég  var 25 ára fór ég aftur í framhaldsskóla og lauk honum á tveimur önnum með glæsibrag.  Um svipað leyti byrjaði ég svo að syngja með Kammerkór Hafnarfjarðar og er enn í honum. Síðan fór ég í Söngskólann í Reykjavík og lauk burtfararprófi þaðan nú í vor. Þetta er líklega það besta sem ég hef gert um ævina. Þarna hef ég eignast mína bestu vini og fundið mig algjörlega í söngnum. Eftir að ég fór að syngja fór sjálfstraustið að aukast til muna og mér fór að líða betur með sjálfa mig.

Einelti skaðar fyrir lífstíð

Einelti getur drepið. En það gerir það ekki alltaf. Ég ber sár á hjartanu. Með árunum hefur myndast hrúður á þeim og ég finn æ sjaldnar fyrir þeim. Þau gróa samt aldrei alveg. Eineltið hefur skaðað mig fyrir lífstíð. En í dag á ég yndislegan mann og litla dóttur og lifi í sátt við sjálfa mig. Vonandi verður umræðan um einelti til þess að allir í samfélaginu standi saman og komi í vegfyrir það. Lífið er of dýrmætt til að eyðileggja það með einelti.

SHARE