Versta kvöld lífs míns

Ég ætla að deila með ykkur smá broti úr mínu eigin lífi sem móðir fíkils.

Þetta brot er birt með leyfi sonar míns með það í huga að gefa innsýn inn í þann hrylling sem foreldrar fíkla ganga í gegnum sem og hversu ljótur fíkniefnaheimurinn er.

 

Það var ósköp venjulegt miðvikudagskvöld, ég lá í sófanum að horfa á eitthvað í sjónvarpinu og var farin að hugsa um að koma mér í bælið. Átti jú að mæta í vinnu kl 8 morguninn eftir og klukkan að ganga 23.

Síminn hringir og ég furða mig á því hver er að hringja svona seint, númerabirtirin sýnir óþekkt númer. Ég svara og karlmannsrödd segir ert þú mamma hans XXX?

Sjá einnig: „Hann hélt hann væri klárari en dópið“

Hjartað tók smá kipp enda gat svona símtal ekki boðað gott, sonurinn hafði verið á götunni í marga mánuði á harðri keyrslu sterkra fíkniefna. Ég heyrði af honum hér og þar og las um hann í blöðunum, rakst á færslur hér og þar á Facebook um það hverskonar viðbjóður þessi maður væri og þeim fylgdi gjarnan mynd af honum í ömurlegu ástandi.

Ég svara manninum í símanum og segi já ég er mamma hans, af hverju spyrðu?

Hann segir mér að hann sé heima hjá honum í mjög slæmu ástandi „Ég held hann sé að deyja“. Ég segi manninum að þá eigi hann að hringja í sjúkrabíl en hann svarar um hæl það gengur ekki þá kemur löggan!

Ég fraus og fattaði um leið að auðvitað vildi hann ekki lögguna heim til sín hann var jú undirheimamaður, maðurinn sem hringdi.

Þetta kvöld dó sonur minn vegna ofneyslu, í nokkrar mínútur, en bráðaliðar komu honum til lífs og hann var inn á spítala yfir nóttina en dreif sig út í leit að næsta skammti um leið og hann komst á fæturnar.

Þetta litla minningarbrot er aðeins ein af mörgum erfiðum minningum sem ég sem móðir fíkils á um vímuefnalíf sonar míns.

Sársaukinn er gríðarlegur þegar maður horfir á barnið sitt fara hægt og rólega alla leið til vítis með notkun efna og vitandi til þess að hvert sinn sem hann sprautaði sig gat það verið lokasprautan. Þar sem hann notaði læknadóp er var erfitt að áætla styrkleikann sem efnið í sprautunni hafði að geyma.

Ástæða þess að ég deili þessum línum með ykkur er að það er svo mikilvægt sem foreldri að hugsa vel um sig og vera ekki einn með vandann.

Sjá einnig: Dóttir mín er fíkill

Það er líka önnur ástæða fyrir því að ég rita þessar línur en sú ástæða er til að minna á að „á meðan það er líf er von“, engin er vonlaus og við megum aldrei missa vonina alveg.

Minn kæri sonur sem ég átti von á að jarða er edrú í dag og lifir fallegu heilbrigðu lífi, við eigum dásamlegt samband og ég þakka fyrir þá blessun alla daga en ég þakka líka sjálfri mér fyrir að hafa alltaf verið fús til að leita mér aðstoðar til að halda mér heilli í gegnum þetta helvíti sem það er að horfa á barn sitt hverfa inn í heim neyslunnar.

 

SHARE