Víst þú segir það, hlýtur það að vera rétt!

Ég er ofsalega smámunasöm þegar kemur að íslensku máli og þykir mörgum það fullmikið af hinu góða stundum hjá mér. Til dæmis las ég góða bók um jólin en það var á einni blaðsíðu bókarinnar sem mér féllust algerlega hendur því þá var búið að skipta orði á milli lína á fáránlegan hátt. Semsagt svona:

hákar-
laskúr

Þetta er orðið hákarlaskúr semsagt. En ég nefndi þetta við nokkra sem ég þekki og flestum fannst þetta nú ekkert merkilegt.

Annað sem mér finnst heldur verra og er alltof algengt að mínu mati, og haldið ykkur nú…. það er þegar fólk segir t.d.: „Víst að það er mottumars ætla ég að safna skeggi!“ og „Víst þetta gengur svona illa, ætla ég bara að hætta við.“

Ég hafði aldrei séð né heyrt þetta fyrr en Facebook kom til sögunnar, kannski hefur fólk verið að segja þetta en það er kannski erfiðara  að heyra þetta en sjá það. Það er allskonar fólk sem hefur skrifað „Víst að….“ á Facebook og ég bara skil ekki hvaðan þetta kemur.

Mig langar bara að „put it out there“ (eins og við segjum á góðri íslensku), það á að segja „FYRST það er mottumars ætla ég að safna skeggi“

Góðar stundir!

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here