Brotist inn í íbúð í Mosfellsbæ og búið í henni í nokkra daga

Eydís Sól Jónsdóttir er einstæð móðir í hverfi Leirvogstungu í Mosfellsbæ. Hún bjó í nokkur ár í Danmörku og á dóttur sem býr þar ennþá. Hún fór fyrir stuttu síðan til Danmerkur til að heimsækja dóttur sína í nokkra daga. Það sem átti að vera góð heimsókn breyttist svo í algjöra martröð þegar hún fékk símtal frá annarri dóttur sinni sem hringdi í algjöru sjokki í mömmu sína.

Dóttirin sem er farin að búa sjálf á Íslandi, fór heim til mömmu sinnar og ætlaði að fá að nota þvottavélina á meðan mamma hennar var úti. Þegar hún kom á heimili mömmu sinnar kom hún hinsvegar að tveimur mönnum sem sváfu djúpum svefni í rúmum fjölskyldunnar.

„Þeir höfðu brotist inn í íbúðina og haldið þar til í nokkra daga. Þeir höfðu borðað allan mat sem þeir komust í, reykt gras og safnað öllum verðmætum af heimilinu saman á einn stað og örugglega ætlað að koma þeim í verð,“ sagði Eydís. Hún segir einnig að dóttur hennar hafi skiljanlega verið brugðið og hún hafi hringt beint í hana, og hún hringdi svo í lögregluna. Mennirnir voru handteknir og munu eflaust vera sóttir til saka.

Eydís segist hafa sjálfri verið brugðið og það sé óhuggulegt til þess að vita að einhver hafi gengið um heimilið og sofið í rúminu hennar og að enginn nágranni hafi orðið var við neitt.

Það er greinilegt að aldrei er of varlega farið og ef maður er á leiðinni til útlanda er jafnvel best að fá einhvern til að gæta eignanna eða fá sér öfluga þjófavörn.


Sjá einnig:

SHARE