Er Galliano að undirbúa „kombakk“?

John Galliano hefur verið fjarverandi tískupallana árum saman en sögusagnir eru nú uppi um að hann sé að leggja á ráðin um risavaxna endurkomu. Orðið á götunni er að fyrrum stjóri Dior muni hleypa af stokkunum hátískulínu fyrir Maison Martin Margiela. Margiela þessi hefur verið án listræns stjórnanda frá árinu 2009 þegar upphafsmaður tískuhússins sleit sig lausan.

Eins og margir muna lét Galliano hafa eftir sér niðrandi ummæli um gyðinga og hefur frá árinu 2011 látið fara lítið fyrir sér. En nú virðist hann hafa snúið við blaðinu og á að vera búinn að ráða starfsfólk fyrir útibú sitt í París. Stærsti hluthafi tískuhússins Margiela er Renzo Rosso – sem á tískumerkið Diesel.

Næsta fyrirhugaða tískusýning er í janúar 2015, þannig að biðin verður ekki löng.

 

SHARE