Haustkvíðinn

Mynd: Robert Postma

Ég hef áður sagt ykkur frá æsku minni á Djúpavík á Ströndum. Eftir því sem ég eldist verður mér það alltaf meira og meira ljóst, hversu mikið mín æska er ólík annarra á mínum aldri. Það kemur fyrir að fólk bíður eftir að ég segi „djók“ þegar ég segi að við höfum farið á bát í skólann og seinna á snjósleða. En þetta er ekkert djók. Æska mín var frábrugðin en ég myndi ekki vilja skipta henni út fyrir neitt. Hún mótaði mig að þeirri manneskju sem ég er í dag og ég held ég hefði ekki verið neitt betur sett ef ég hefði verið alin upp í borginni.

Við systkinin erum alin upp á hóteli. Hóteli sem var rekið á þrautseigju, þrjósku og eldmóði foreldra minna. Við áttum aldrei neina peninga og leita varð ýmissa leiða til að drýgja tekjurnar. Mamma kenndi við grunnskólann, þau fóru á grásleppuveiðar og pabbi náði sér í meira próf til að geta unnið á vinnuvélum og fleira. Á sumrin ráku þau hótel. Mamma stýrði hótelinu og gekk í öll verk en var yfirleitt með eina „ráðskonu“ yfir hásumarið.

Sjá einnig: Landsbyggðahrokinn – Stormviðvörun

Þetta voru örfáar vikur sem gestirnir komu. Frá miðjum júní og fram yfir Verslunarmannahelgi. Við, þessi tvö yngstu af systkinunum, áttum okkar herbergi á veturnar, ég herbergi 2, Héðinn bróðir herbergi númer 3. Ef Arnar stóri bróðir okkar var heima var hann svo í herbergi 4. Á sumrin urðum við að láta herbergin okkar af hendi, pökkuðum dóti í einn kassa á mann, sem geymdur var í herbergi foreldra okkar. Það var nú lítið verið að leika sér með dót á þessum árum, maður fór út að morgni og lék sér þangað til maður fór að sofa. Húsin í litla þorpinu fylltust af fólki og dagarnir liðu eins og í draumi. Við vorum alltaf nokkrar saman vinkonurnar og það var aldrei dauð stund. Við veiddum, smíðuðum kofa, seldum steina, bjuggum til skemmtiatriði fyrir ferðamenn, þrifum bíla, spiluðum, fórum í leiki, áttum bú, drullumölluðum, tálguðum og fórum í fjallgöngur, berjamó og fleira. Lífið var stórkostlegt!

Áður en ég vissi af var farið að líða nær hausti. Krakkarnir fóru að tínast í burtu og hnúturinn í maganum stækkaði hægt og rólega. Allir voru að kveðja og við yrðum ein eftir. Ár eftir ár. Húsunum var lokað og margir settu hlera fyrir gluggana og allir fóru. Nema við. Það hægðist allverulega á lífstaktinum. Ég var sorgmædd og fór oft að gráta eftir að vinkonurnar fóru. Lífið tók svo miklum breytingum á stuttum tíma og mér fannst eins og það væri heil eilífð þangað til næsta sumar kæmi. Vegurinn myndi lokast og allt stæði í stað þangað til hinn árlegi vormokstur færi fram.

Það kom tímabil þar sem ekkert var að gerast. Við fengum dótið okkar aftur og gátum komið okkur fyrir í herbergjum okkar, sem var alltaf notalegt. Við horfðum á „video“ og ég las ógrynni af bókum. Svo kom að smalamennskum og við tókum yfirleitt alltaf þátt í því. Þá hittum við krakkana í sveitinni og maður fór að hlakka til að byrja í skólanum. Samt ekki, af því heimavistin var mér oft erfið. Sláturtíðin var skemmtilegur tími, eins fáránlegt og mér finnst að skrifa það í dag, því ég á mjög erfitt með þetta í dag. Í sláturtíðinni var gert slátur og keppirnir saumaðir með sláturgarni. Sláturgarnið notaði ég alltaf í fuglafit líka. Lambaskrokkar voru sagaðir niður, hausarnir sviðnir og lappirnar líka. Ég horfði á þetta allt og fékk stundum að skafa brennda ullina af sviðnum hausunum. Dáleiðandi logarnir og lyktin, ég sé þetta fyrir mér og get nánast fundið lyktina. Allt var notað til matargerðar og þetta var bara eins og hvert annað heimilisverk. Veturinn var undirbúinn með matargerð. Við áttum, eins og allir í sveitinni, stórar frystikistur og var öllu komið fyrir þar, þangað til þetta yrði reitt fram á vetrardögum. Það var auðvitað hægara sagt en gert að koma vistum til Djúpavíkur svo ALLT var fryst sem hægt var að frysta.

Sjá einnig: Jafnrétti, óháð kyni?

Hnúturinn í maganum kom, eins og ég sagði, alltaf á haustinn. Mér fannst erfitt að kveðja og sjá ljósin í þorpinu slökkna og vita að við yrðum ein. Í marga mánuði. Og að mamma og pabbi yrðu ALein, þegar við værum í skólanum. Ég hafði alltaf miklar áhyggjur af þeim, þegar við vorum ekki heima og ég held það hafi orðið mikið til þess að ég átti erfitt með að láta mér heimavistina lynda. Það var oft mjög gaman að vera á vistinni, ekki misskilja, það fór vel um okkur og vel hugsað um okkur. En það voru þessir tímar, þegar ljósin voru slökkt og herbergisfélagarnir sofnaðir, að hausinn á mér fór á fulla ferð. „Ég get ekki sofnað!“… „Ónei, stelpurnar eru allar sofnaðar, en ekki ég!“ … „Ég er alein!“… „Ætli það sé allt í lagi með mömmu og pabba?“

Fyrir þessu kveið ég á haustin, sem og ferðunum til og frá skóla og kveðjustundunum með mömmu og pabba.

Það er skrýtið hvernig líkaminn man. Ég fæ enn margar af þessum tilfinningum, í mýflugumynd, á þessum tíma árs. Ég þarf oft að minna mig á að þessi hnútur þarf ekki að vera þarna. Hann er bara þarna af gömlum vana. Ég var viðkvæm lítil stelpa en í dag er ég fullorðin kona. Ég á enn erfitt með að kveðja fólk. Það er bara eitthvað við það sem mér finnst átakanlegt og það er kannski ekki eitthvað sem er svakalega hentugt þegar maður starfar hluta úr ári á hóteli. Maður er alltaf að heilsa og kveðja. Fólk allsstaðar að úr heiminum og líka góða vini og fjölskyldu.

Ég held að margir kvíði vetrinum. Af mismunandi ástæðum kannski, en ég held að haust- og vetrarkvíði sé eitthvað sem er raunverulegt. Við búum á harðbýlu landi og birtan og gleðin sem einkenna sumarið okkar, tekur enda. Það er mikilvægt fyrir mig að horfa á allt þetta jákvæða. Fegurðina í til að mynda haustlitunum. Hún er alveg stórkostleg. Gleðin í litlum börnum sem eru að byrja í skóla, einbeitt og full af eldmóði. Norðurljósin sem dansa á himninum. Nú fer í hönd kósýtímabil. Kveikjum á kertum, hækkum í ofnunum og njótum samverunnar hvert við annað. Verum meira góð við hvort annað, við þurfum öll á því að halda.

SHARE