„Konur eiga ekkert erindi í lögregluna“

Ég tók 10. bekk á Hólmavík sem er næsti bær við Djúpavík en 10. bekkur var ekki kenndur á þeim tíma í sveitinni. Það var ákveðið menningarsjokk fyrir mig þó ég geri mér grein fyrir að Hólmavík sé lítill bær. Ég eignaðist fullt af nýjum vinkonum og fannst ég vera alveg að verða fullorðin.

Í þá daga, ég held þetta sé ekki ennþá í dag, fóru krakkar í „starfskynningu“ á þremur stöðum sem þeir höfðu hug á að vinna á og/eða til að kynna sér starf sem þau höfðu hug á að mennta sig til.

Þegar maður er lítið trippi í 10. bekk tekur maður lífið ekki of alvarlega og við vinkonurnar hugsuðum okkur gott til glóðarinnar og hugsuðum þessa starfskynningu okkur til skemmtunar meira en nokkuð annað. Við völdum Sambíóin, Hard Rock Cafe og lögregluna. Við vorum þess vegna á leið í bíó, út að borða og svo niður á Hverfisgötu. Ég var spenntust fyrir lögreglunni því það var það starf sem mér fannst einna mest spennandi.

Við skulum halda því til haga að þetta eru nokkuð mörg ár síðan. Margt hefur breyst síðan og ég held við séum öll sammála um að þróunin hefur verið góð.

Við mætum þarna galvaskar niður á Hverfisgötu á Bolludaginn sjálfan. Það var tekið vel á móti okkur og starfsemi lögreglunnar útskýrð fyrir okkur á einfaldan hátt. Okkur var svo sýnt inn í fangaklefa á ganginum og fannst það auðvitað afar merkilegt. Þar með var starfskynningunni eiginlega lokið. Við héldum að við fengjum að fara rúnt með þeim í löggubíl en þetta var bara búið. Við vorum sendar á kaffistofu þar sem voru bollur og okkur var boðið upp á bollu og svo mættum við fara.

Þar sem við sátum og borðuðum bollur kemur inn maður sem ég vissi að var yfirmaður lögreglunnar, án þess að ég ætli að nefna nein nöfn. Hann fékk sér bollu og spurði einhvern viðstaddan hvaða stelpur væru þarna og viðkomandi sagði honum að við værum 10. bekkingar í starfskynningu. Hann horfði á okkur og sagði við þann sem hann talaði við, en beindi orðunum meira að okkur: „Konur eiga ekkert erindi í lögregluna!“

Við þessu var ekkert svar en við reyndum að vera kurteisar og brostum bara. Kannski var þetta rétt hjá honum. Ég er lágvaxin kona og hugsaði aldrei um að fara í lögregluna aftur. Fólk hefur oftast hlegið og sagt að það væri erfitt fyrir mig að yfirbuga stóra menn ef á þyrfti að halda, sem ég skal alveg sætta mig við og er örugglega alveg satt og rétt. En leyfum því að liggja á milli hluta. Ég held samt að margir glæpamenn, þó siðblindir séu margir hverjir, myndu kannski hika við að taka jafn harkalega á lítilli konu, þó hún væri í lögreglunni. En þetta eru auðvitað getgátur því ég hef aldrei verið í lögreglunni.

Ástæðan með þessum skrifum mínum er ekki að setja út á þennan blessaða mann. Hann var barn síns tíma og þetta þótti ekki neitt tiltökumál á þessum tíma, að tala svona. Ástæðan mín er meira að benda á það sem hefur þróast í rétta átt. Það eru ekki það mörg ár síðan þetta var, þannig séð, en það er ALLT breytt. Ríkislögreglustjóri í dag, árið 2024 er kona. Mér finnst ég líka alltaf vera að sjá konur í lögreglubúning og í hvert skipti fyllist hjarta mitt einhverskonar stolti. VÍST geta konur verið í lögreglunni!


Fleiri pistlar:

SHARE