Mátti Viktor ekki sýna tilfinningar?

Ég hef, ásamt meginhluta landsins, verið að fylgjast ofur spennt með íslenska landsliðinu að keppa á Evrópumótinu í handbolta. Maður hefur fagnað og gargað og lifað sig inn í baráttuna og átt skemmtilegar stundir með fjölskyldunni. Stundum hafa þeir farið fram úr vonum okkar og stundum hefur maður orðið fyrir vonbrigðum með frammistöðu þeirra.

Mér hefur fundist mikill tvískinnungur í mörgum á samfélagsmiðlum oft á tíðum, þar sem fólk talar um „strákana okkar“ þegar vel gengur og farið að tala um „íslenska landsliðið“, eins og það sé þeim allskostar óviðkomandi þegar illa gengur. Mér finnst það örlítið óþolandi. Þetta er eins og að tala um „vinkonu sína“ um einhverja sem allt leikur í lyndi hjá, en fara svo í „kunningjakona“ þegar viðkomandi er ekki jafn farsæl. Það er tvískinnungur að mínu mati.

Leikurinn á móti Austurríki var einn sá furðulegasti sem ég hef séð okkar menn spila á mótinu. Hann var vonbrigði fyrir alla sem studdu liðið okkar. Við skulum samt ekki gleyma að við unnum, en bara ekki með nógu mörgum mörkum yfir. Fólk hefur eflaust gargað á sjónvarpið á mörgum heimilum og vinnustöðum en það dugar lítið fyrir þá sem eru þarna á gólfinu í Köln. Strákarnir okkar hafa án efa verið mest ósáttir við þessi úrslit, þó við höldum að þetta „snúist allt um okkur“ í hita leiksins. Það var augljóst þegar viðtöl voru tekin í lokin. Aron átti varla til orð til að lýsa vonbrigðum sínum og sagðist þurfa að melta þetta næstu vikurnar. Við megum ekki gleyma því að þessir menn eru með keppnisskap, annars væru þeir ekki í landsliðinu. Við skulum ekki einu sinni reyna að ímynda okkur að þeim sé alveg sama og séu bara að kasta til höndunum, þeir vilja vinna og þeir vilja að íslenska þjóðin sé stolt.

Svo var tekið viðtal við elsku Viktor. Viktor sem var búinn að eiga góða og slæma spretti en er óneitanlega alveg geggjaður markmaður þegar hann er í sínu besta formi. Hann er 23 ára, sem er enginn aldur. Hann er rétt að byrja ferilinn. Hann átti í erfiðleikum með að halda tilfinningunum inni og var ótrúlega ósáttur við úrslitin og barðist við tárin. Hann var spurður spurninga en um leið og sást að hann væri að berjast við tárin var klippt á viðtalið, en spyrillinn var í miðri spurningu. Hver tók þá ákvörðun að bara slaufa viðtalinu í miðri setningu? Erum við virkilega enn á þeim stað að karlmenn eigi ekki að sýna tilfinningar? Var þetta of óþægilegt fyrir okkur að horfa á? Þetta sló mig svolítið. Við verðum að muna að þeir eru manneskjur og hafa allan tilfinningaskalann og ef einhver grætur, hvort sem það er af vonbrigðum eða pirring, þá er það allt í lagi. Þetta sýnir og er hafið yfir allan vafa, hvílík ástríða er í liðinu og Strákunum okkar.

Viðtalið við Viktor var seinna birt í heild á Rúv.is og má sjá það hér.


SHARE