Hver er þín versta martröð? – Sumarbústaðageðveikin

Ég hef alltaf verið með fóbíu fyrir kóngulóm. Þær eru bara eitthvað svo óhuggulegar með þessar löngu fætur og búka og augu sem eru þróaðri en okkar eigin. Eitt sumarið sem ég vann á DV vann ég að grein um kóngulær á Íslandi. Hélt nú heldur betur að það gæti hjálpað mér að vinna bug á kóngulóarfóbíunni ef ég sæi nú hvað þetta væru fáar og saklausar tegundir. Það reyndist heldur betur ekki raunin. Ég komst að því að kóngulær eru allar með eitur í sér. Það er kannski ekki banvænt fyrir manneskjur en ef maður fær eitur úr þeim í sig getur maður fengið illt í magann, hausverk og fleira.

En allavega. Það var einn veturinn fyrir nokkrum árum síðan, að ég og eiginmaður minn, Magnús, fórum í rómantíska bústaðaferð yfir helgi. Það var komin snjór og það er fátt meira kósý en að vera í bústað um vetur og sjá kannski norðurljós og glitrandi tunglsljós á hjarninu.

Við komum okkur á staðinn og komum okkur fyrir. Ég fór út á pallinn og lét renna í pottinn og við ætluðum heldur betur að slaka á heitu vatninu fyrir svefninn. Við snæddum kvöldmat og fljótlega eftir frágang fórum við að huga að því að koma okkur í pottinn. Ég var einhverra hluta vegna á undan Magnúsi að koma mér í sundfötin og út í pott. Það var stjörnubjart og vatnið hlýtt og notalegt. Gat ekki verið betra. Ég hallaði mér aftur og lét mig fljóta aðeins og horfði upp í himininn. Magnús minn er svo komin í skýluna og kemur með drykki og handklæðið að pottinum. Áður en hann kemur útí segir hann „Það er svo svakalega dimmt hérna! Er ekki eitthvað ljós hérna á pallinum?“ Svo fer hann að vasast í því að finna rofann til að kveikja ljósið og tókst honum það að lokum. Það var þá sem áfallið reið yfir (já ég er dramatísk).

Ég sá um leið og ljósin kviknuðu að ég var alls ekki ein í pottinum. Ásamt mér voru þarna hundruðir ef ekki þúsundir kóngulóa. Dauðar að sjálfsögðu, en ég fann þarna að ég var öll í kóngulóarvef ásamt því að vera að baða mig í þessari kóngulóarsúpu. Ég, eins og dramadrottningin sem ég er, öskraði og gargaði og ég má telja mig heppna að hafa ekki slasað mig alvarlega þegar ég stökk upp úr pottinum og á frosinn pallinn, hálfgrenjandi í geðshræringu lífs míns. Magnús skildi ekki strax hvað var í gangi en sá svo hvaða viðbjóð ég hafði verið að upplifa. Hann er náttúrulega hetja og tæmdi pottinn og þreif hann svo, á meðan ég fór í lengstu sturtu lífs míns, sjúgandi á mér þumalinn. Við fórum ekki í pottinn þetta kvöld og ég var treg að fara í hann kvöldið eftir en lét mig hafa það.

Það hafði enginn verið í sumarbústaðnum í langan tíma og þegar haustið kom, hefur þessi þjóðflokkur af kóngulóm komið sér fyrir inni í leiðslunum í pottinn og talið sig hafa heldur betur dottið í lukkupottinn. Það var nefnilega eitt af því sem ég lærði í rannsóknum mínum á kóngulóm, að þær fara í hýbýli manna og leggjast í dvala yfir vetrarmánuðina.

Helgin var að öðru leyti alveg dásamleg en ég held að þetta hafi á einhvern hátt minnkað ótta minn við kóngulær. Þetta verður ekki mikið ógeðslegra en þetta, að mínu mati, og ég held að þetta hafi gert mér gott, ef svo má að orði komast. Æi þið vitið hvað ég á við!


Fleiri pistlar frá mér:

SHARE