Opið bréf til Bjarna Ben

Þetta bréf birtist á Facebook síðu Heilbrigðar Heilsuráðgjafar en þarna skrifar Sigríður Karlsdóttir opið bréf til Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra.

Kæri Bjarni Ben.

Enn eitt opið bréf til þín. Ég er ekki viss um að ég myndi nenna að lesa öll þessi opnu bréf í þínum sporum. En engar áhyggjur, mitt bréf er mjög skemmtilegt. Ég lofa.

Viltu lesa það eitthvert kvöldið ef þú ert laus?

Ég þekki þig ekki neitt. En ég held að þú sért voðalega fínn kall. Ágætur vinur, fínn eiginmaður og pabbi. Ég sé það í augunum á þér. Að það er eitthvað gott þar. Ég held bara að þú sért pínu ringlaður. Ég yrði það líka ef ég væri að stjórna peningamálum heillrar eyju.

Ég veit ekki hvort þú hefur upplifað það að sitja fyrir framan tölvuna með opinn heimabankann og kaffibolla þér við hlið. Axlirnar síga niður, augun verða döpur og tár leka ofan í nýlagaðan bollann.

Ég veit heldur ekki hvort þú hefur orðið reiður inn í þér en getur samt ekkert gert til að bæta ástandið. Af því að hlutirnir eru bara þannig. Eins og að lenda á rauðu ljósi. Reiðin safnast bara saman og svo verður maður bara dofin og gerir hlutina. Af því bara. Af því þeir eru svona. Tekur þátt í skringilegum leik lífsins.

Ég hef upplifað svona móment. Næstum um hver mánaðarmót. En af því ég er svo kát að eðlisfari, þá fæ ég mér bara nýjan kaffibolla (kannski er ég að spreða kaffinu – gæti verið rót vandans), loka tölvunni og held útí lífið. Því ég á nefnilega svo margt að þakka.

Ég er dálítill kjáni í mér. Ég á svo erfitt með að skilja starfið þitt og það sem fram fer á Alþingi. En veistu, ég skil mjög vel muninn á réttu og röngu. Ég fór ekkert í neinn áfanga í háskóla til að læra það. Ég lærði bara kennaranám og svo einkaþjálfaranám, en ef þú sest niður og hlustar á hjarta þitt, þá þarf engar háskólagráður í það. Maður bara finnur það i hjartanu.

En það sem mig langar svo að biðja þig um að gera er að reyna hjálpa fólkinu þínu á þessari fallegu eyju að ná endum saman. Það er ekkert lykillinn að hamingjunni eins og við bæði vitum, en það auðveldar lífið.

Ég myndi vilja gera það sjálf, en þú hefur pínku ponsu meiri völd en ég og þess vegna bið ég þig í einlægni um að gera þitt besta til að hafa áhrif. Ég geri mitt besta. Til dæmis með því að kenna nemendum mínum marföldunartöfluna og skrifa opin bréf.

Í mínum huga þá þarf þetta ekkert að vera: „af því þetta er svona“. Mér finnst það skrýtið svar. Af því bara. Mér var bannað að svara ¨af því bara¨þegar ég var lítil.

Ég get aðstoðað þig við að byrja. Ég veit nefnilega hvernig er að hafa mörg verkefni á sinni könnu og vita ekki hvar maður á að byrja. Ég hef nefnilega kennt 28 manna bekk og allir með sín vandamál. Manni fallast bara hendur.

Til að byrja með gætiru talað við nágrana þína hjá íbúðarlánasjóð og beðið þá fallega um að setja öll þessi mörgu mörgu mörgu (ég er með áherslu þarna) tómu hús til margra margra (líka áhersla hér) ára í leigu. Þau eru að hrörna niður, ég hef séð þau sjálf. Þá myndi fólkið sem er í örvæntingu ekki borga öll launin sín í húsaleigu og smám saman myndi fólk hætt að okra því framboðið væri meira. Ég get ekki séð neitt flókið við það.

Svo gæti ég bent þér á að spjalla og eiga notalega stund við “þá” (ég veit aldrei hverjir þessir “þeir” eru) sem taka ákvarðanir varðandi verðtryggðu lánin. (Ef það ert þú, þá geturu kannski spjallað smá við sjálfan þig, en í laumi, svo enginn sjái). Rætt við þá um að rétt skal vera rétt. Kenna þeim það hugtak. Það er að segja ef ég fer inn í bankann minn og settist þar fyrir framan ráðgjafa og tek 20 milljón króna lán. Að það skuli breytast í 30 milljónir -af því bara- er ekki rétt. Finnst þér það? Við vitum öll að bankinn er ekki í vondum málum því jólabónusarnir eru ekki að verri endanum. Skipta bara bónusunum á milli allra landsmanna. Væri það ekki sanngjarnt? Mér fyndist það góð hugmynd.

Ég rukka ekki nemendur mína um 150 krónur fyrir hvern stíl. 250 krónur fyrir hvert heimanám. Það væri fásinna. Af hverju gera bankarnir það þá? Starfsfólkið eru á launum. Ég er kannski treg en ég sé ekki að þetta sé rétt.

Ok. Nú er ég komin í hæðnina. Og smá reiði. Fyrirgefðu.

Svo gætiru kannski talað við einhvern góðan kall með skegg hjá LÍN. Ég hef borgað af minni milljón í 3 ár og það stendur ennþá í milljón. Finnst þér þetta ekki pínu skrýtið? Mig langar svo í örvæntingu minni að borga, en ég skil ekki hvað ég er að borga. Finnst þér þetta ekki eitthvað svona: „pabbi minn er sterkari en pabbi þinn og af því get ég það“. Finnst þér núna nokkuð skrýtið að það láku tár í kaffibollann minn þarna áðan? Gætiru notað góðlátlegu augun þín og rætt við þetta fólk. Það væri æði.

Ég myndi gera það sjálf, ég veit bara ekk hverjir þessir „þeir“ eru.

Klukkan er hálffimm að nóttu, ég er kasólétt og er að borða mjólk og mjólkurkex. Dýfi því ofan í mjólkina. Kannski það rugli eitthvað systeminu hjá mér, en ég sé fyrir mér ótrúlega lýsandi mynd í kollinum sem ég ætla að segja þér frá:

Ímyndaðu þér að ég mæti í bankann minn, með Stallone og Schwarzenegger mér við hlið. Þeir eru vopnaðir. Með kúrekahatt jafnvel. Höfum þá í bleikum nærbuxum líka.. tíhí..

Ég bið gjaldkerann um 50.000 af reikningnum mínum. Hún (eða hann, verður að gæta jafnréttis) réttir mér 50.000 krónur. Ég brosi. Segi takk. Bið svo um 500.000 krónur í viðbót. Af öðrum reikningnum. Frá öðru fólki bara. Jafnvel starfsmannasjóðinum. Hún segir að það sé auðvitað ekki hægt, það viti hver maður. En þá réttir Schwarzenegger henni skilti sem stendur: „Jú, þannig er þetta bara. Borgaðu út, eða þú ferð í innheimtu. Og það er staður sem er ekki gott að vera á.“ Svo er spagetti-Vesturs flautið undir. Hún spyr: „já, en af hverju?“ Þá tekur Stallone af sér hattinn og segir: …“af því þetta er svona. Svona er lífið! Ég er sterkari en þú!“

Ég hlæ upphátt því mér finnst ég fyndin. Og mér finnst verðtryggingin og aðrar lagasetningar í tengslum við fjármálageirann okkar stundum svo sár að hún verður fyndin.

Að öllu rugli slepptu, viltu reyna þitt allra besta að breyta rétt og hafa áhrif inni á vinnustaðnum þínum? Ég stend með þér í því og skal bakka þig upp.

Takk fyrir að lesa og hafðu það gott.

(p.s klukkan er orðin svo margt og kexið búið að ég nenni ekki að fara yfir stafsetningavillurnar. Batnandi mönnum er best að lifa er það ekki?)

Kærleikur,

Þín Sigga

SHARE