„Það var eins og gleðibylgja væri í loftinu“

Anna Sigríður og Sólveig voru gefnar saman hjá sýslumanninum í Reykjavík sama dag og lög um staðfesta samvist tóku gildi. Síðan eru liðin tuttugu ár og þær eru enn í hamingjusömu hjónabandi. Ókunnugt fólk – fullorðnir og börn – stoppuðu þær úti á götu á sínum tíma og óskuðu þeim til hamingju. Gleðin var allsráðandi.

Þann 27. júní árið 1996 vannst mikill sigur í réttindabaráttu samkynhneigðra hér á landi, og raun í heiminum öllum, þegar lög um staðfesta samvist gengu í gildi. Fjögur samkynhneigð pör voru gefin saman hjá sýslumanninum í Reykjavík þennan dag og blásið var til mikillar hátíðar í Borgarleikhúsinu. Þær Anna Sigríður Sigurjónsdóttir myndlistarmaður og Sólveig M. Jónsdóttir leiðsögumaður voru eitt þessara para. Þá voru þær búnar að vera saman í 6 ár. Nú eru árin orðin 26, þar af 20 í staðfestri samvist.

„Ég bað Sólveigar“

„Við vorum eiginlega búnar að ákveða það að grípa fyrsta tækifæri sem gæfist til að láta gefa okkur saman,“ segir Anna Sigríður, en Sólveig grípur kímin fram í fyrir henni, þar sem við sitjum á kaffihúsi í miðbænum. „Þú varst búin að ákveða það, en ég vildi bíða aðeins. Leyfa þessu að ganga í gegn.“ Það var semsagt Anna Sigríður sem átti frumkvæðið. „Já, ég bað Sólveigar,“ segir hún örlítið feimnislega og þær brosa báðar. Ennþá eins og ástfangnir unglingar eftir 20 ára hjónaband. „Mér fannst svo mikilvægt að gera þetta sama dag og lögin gengu gildi. Ég var búin að bíða eftir þessu svo lengi í mínu hjarta,“ bætir Anna Sigríður við.

„Ég var hins vegar svolítið smeyk við þennan dag, en lét til leiðast. Og þegar það spurðist út að við værum að hugsa um þennan dag þá var hringt í okkur frá Samtökunum ‘78 og við beðnar um að vera í framlínunni,“ segir Sólveig. Þær slógu til og sjá svo sannarlega ekki eftir að hafa látið gefa sig saman fyrir opnum tjöldum. „Þetta var svo jákvætt og við fengum mjög góð viðbrögð. Það var eins og gleðibylgja væri í loftinu. Þannig upplifðum við það allavega,“ segir Anna Sigríður.

„Ókunnugt fólk óskaði okkur til hamingju á götum úti og litlir krakkar hlupu eftir okkur og óskuðu okkur til hamingju. Það var alveg frábært,“ segir Sólveig. „Þetta var ekki bara í fréttum hér á landi heldur um allan heim og svona lagað hefur mikil áhrif,“ bætir hún við.

Mikil frelsistilfinning

Þetta var fallegur dagur sem þær áttu saman fyrir tuttugu árum. Og þrátt fyrir fjölmiðlaathyglina sveif rómantíkin yfir vötnum. „Við tjölduðum öllu okkar besta,“ segir Anna Sigríður og brosir. „Svo héldum við litla veislu heima hjá foreldrum mínum og fórum í brúðkaupsferð, reyndar ári síðar. Við fórum í fjögurra daga gönguferð frá Hvalfirði að Laugarvatni og lentum í miklum ævintýrum, þau fraus til dæmis og snjóaði.“

Þær segja að eftir að lögin voru samþykkt þá hafi allt orðið miklu einfaldara – það var formlega búið að viðurkenna rétt þeirra til að vera saman. „Frelsistilfinningin var þvílíkt mikil,“ segir Sólveig. En fyrir utan frelsið öðluðust þær sömu réttindi og hjón af gagnstæðu kyni. Það breytti öllu. „Ég var orðin konan hennar og þar með nánasti aðstandandi. Það skiptir miklu máli. Til dæmis ef hún myndi slasast alvarlega og lenda á spítala, þá fengi ég ekki að hitta hana nema af því hún er konan mín. Svo auðvitað í sambandi við erfðamál við fráfall og slíkt. Hér áður fyrr var hægt að hrekja manneskju af heimili sínu við fráfall hins aðilans, þó þeir einstaklingar hefðu búið saman í mörg ár,“ segir Sólveig.
„Ég hafði til dæmis nokkrum sinnum sent beiðni til Hagstofunnar um að skrá okkur í sambúð en því var alltaf hafnað,“ segir Anna Sigríður til að benda á hve réttleysið var mikið.

28115_Anna_Sigridur_Sigurjonsdottir_Solveig_M_Jonsdottir_myndir-3
Heppnar með fólkið í kringum sig

Anna Sigríður er 55 ára og Sólveig 54, en þær komu báðar út úr skápnum fyrir fjölskyldu og vinum rétt rúmlega tvítugar. Á þeim tíma var umræðan í samfélaginu svo sannarlega ekki jafn jákvæð og opin og hún er í dag, en báðar eru þær heppnar með fólkið kringum sig og fréttunum var vel tekið í báðum fjölskyldum. Anna Sigríður segir þetta þó hafa verið erfitt ferli fyrir sig. „Þetta var töluvert átak. Ég reyndi allt til að falla inn í normið en það er eiginlega ekki hægt að svíkja sjálfa sig og aðra til lengdar. Mér fannst maður þurfa að hafa svolítinn kjark til að stíga þetta skref. En sem betur fer á ég góða fjölskyldu og vini sem hafa stutt mig eindregið alla tíð.“

Sólveig var ekki búsett á Íslandi þegar hún kom út úr skápnum fyrir sinni fjölskyldu og vinum og segir það kannski hafa gert henni auðveldra fyrir. „Þetta gekk allt mjög vel. Mamma tók þessu nokkuð vel.“

Hvorug þeirra segist hafa upplifað mikla fordóma vegna kynhneigðar sinnar, þó vissulega hafi þær fengið að heyra einhverjar athugasemdir á árum áður. „Auðvitað vitum við að margir hafa skoðanir á hinum og þessum hlutum, en það er bara í góðu lagi,“ segir Anna Sigríður. „En svo þekkir maður auðvitað fólk af okkar kynslóð sem hefur verið lamið og barið úti á götu. Það voru nokkrir kunningjar okkar sem lentu í því,“ segir Sólveig.

Barði í sig kjark

Þær ætla að sjálfsögðu mæta í gleðigönguna í dag, laugardag, og Anna Sigríður rifjar upp fyrstu gönguna sem hún fór í árið 1993. „Maður þurfti að berja í sig kjark í marga daga áður en maður fór af stað. Þá vorum við kannski tuttugu manns sem gengum niður Laugaveginn.“
Að gangan yrði jafn stór viðburður eins og hún hefur orðið á síðustu árum hvarflaði ekki að þeim þegar þær stóðu skjálfandi á beinunum á Laugaveginum fyrir um tuttugu árum. Þær segja það hafa verið dásamlegt að fylgjast með göngunni vaxa og dafna og verða að þessari miklu fjölskylduhátíð. „Það sem slær niður í huga minn núna er að það hljóti að vera ótrúlega hjartavermandi stund að geta horft á þessa göngu og fundið fyrir þessari viðurkenningu samfélagsins. Af því foreldrarnir vilja jú börnunum sínum allt það besta. Þetta er staðfesting á því að þetta sé bara eðlilegt og gott,“ segir Anna Sigríður einlæg.

Leiddu hugann að barneignum

Þær segja Ísland hafa náð mjög góðum stað hvað réttindi hinsegin fólks varðar og nú sé baráttan farin að teygja sig meira út fyrir landsteinana. Til dæmis í tengslum við ættleiðingar samkynhneigðra sem stranda á því að ættleiðingsamtök úti í heimi vilja ekki leyfa samkynhneigðum pörum að ættleiða. „Það hefði ekki verið neitt mál fyrir okkur að ættleiða barn ef við hefðum ekki verið giftar. Það hefði verið auðveldara fyrir okkur að skilja, ættleiða, og giftast svo aftur,“ segir Sólveig, en þær spáðu aðeins barneignir hér á árum áður. „Það hefði alveg getað komið til sögunnar en við vorum kannski ekki alveg á réttum tíma. Ef við hefðum verið tíu árum yngri, þá hefði þetta kannski frekar gerst,“ segir Sólveig. „En annars er ég rosalega ánægð með hvernig þetta hefur verið hjá okkur,“ segir Anna Sigríður. „Ef við hefðum átt börn þá hefðum við þurft að gera hlutina öðruvísi,“ bætir hún við og tekur fram að hún hafi fengið tækifæri til að umgangast mörg frábær börn í gegnum tíðina, sem hafi gefið henni mikið.

Anna Sigríður og Sólveig deila fjölda áhugamála og eru duglegar að ferðast saman. Það fer heldur ekki á milli mála að þær eru mjög samheldnar. „Þó við séum ólíkar að mörgu leyti þá eigum við ótrúlega margt sameiginlegt. Það er kannski það sem heldur okkur saman. Okkur hefur verið lýst þannig að ég sé eins og jeppi og þú eins og sportbíll. Það er kannski ágætis blanda,“ segir Sólveig og hlær.

 

Mynd/Rut

Gamlar myndir/Samtökin ’78

Viðtalið birtist fyrst í amk, fylgiblaði Fréttatímans.

SHARE