Bláir fingur eftir berjatínslu? – Hér er lausn við því

Ég elska elska elska að fara í berjamó. Það er ekkert í raun sem er jafn afslappandi og maður dettur í algjöra núvitund. Margir nota berjatínur en mér hefur alltaf fundist þægilegt að nota bara hendurnar því þá klessast berinn síður og það er minna af laufum og öðru sem þarf að hreinsa úr á eftir.

Ef maður er með hanska er maður náttúrulega í góðum málum en ef maður er berhentur þá verða hendurnar rauðfjólubláar og sem breytist svo í gráan blæ og þetta fer alls ekki af með sápu. Þetta á sérstaklega við ef maður er að tína aðalbláberin. Maður getur verið með litaðar hendur í marga daga og það hefur fylgt þessu bara.

Það var svo ekki fyrr en í sumar sem mér var kennt ráð við þessu og ég lærði þetta ráð frá stúlku frá Slóvakíu, af öllum stöðum:

Þú tekur einfaldlega sítrónusneið og nuddar á bláa puttana og ég lýg því ekki að þetta virkar eins og strokleður á blýantsteikningu.

Ég nuddaði þessu á hendurnar, undir neglur og á naglaböndin og neglurnar sjálfar og þetta var farið. Sítrónusneiðin var svo bleik á eftir og ég henti henni í ruslið og þvoði mér með vatni. Algjörir töfrar!


Sjá einnig:

SHARE